Orkuskiptin eru í pípunum

Það tekur lítið lengri tíma að tanka vetnisbíl sem bensínbíl.
Það tekur lítið lengri tíma að tanka vetnisbíl sem bensínbíl.

Það sem af er þessu ári hafa Íslendingar flutt inn 244 bíla til landsins sem aðeins ganga fyrir rafmagni. Allt árið í fyrra nam innflutningurinn 376 bílum. Allt bendir því til að enn muni rafbílum á götunum fjölga.

Enn sem komið er er hlutfall þeirra af heildarinnflutningi þó aðeins tæp 4% og því ljóst að langflestir veðja enn á þá tækni sem byggist á bruna jarðefnaeldsneytis.

Af tölunum að dæma er því enn langt í land með að fólk velji rafbíla umfram bensín- eða dísilbíla og hlýtur það að vera áhyggjuefni, meðal annars fyrir stjórnvöld sem lýstu því yfir í stefnuyfirlýsingu sinni, sem gefin var út samhliða myndun nýrrar ríkisstjórnar í ársbyrjun að stefnt væri að orkuskiptum í samgöngum og að græna hagkerfið yrði eflt á hennar vakt.

Og þótt enn sé það lítill hluti landsmanna sem aki um á rafbílum er jafnt og þétt unnið að uppbyggingu innviða sem gera munu rafbíla fýsilegri kost fyrir fólk almennt. Þannig er net hraðhleðslustöðva að byggjast upp jafnt og þétt hringinn í kringum landið. Sú uppbygging, ásamt sífellt öflugri rafhlöðum sem bílarnir eru búnir, mun án efa leiða fólki fyrir sjónir þá miklu kosti sem felast í því að aka um á rafmagni í stað hefðbundins eldsneytis. Kostirnir felast enda ekki aðeins í því að með orkuskiptum í samgöngum dregur úr neikvæðum umhverfisáhrifum af völdum þeirra, heldur einnig því að með því munu samgöngur byggjast á orku sem framleidd er innanlands og ekki þarf að kaupa dýrum dómum frá útlöndum.

Taka má ofan fyrir þeim fyrirtækjum sem standa í stafni við uppbyggingu hleðslustöðvanna. Þar hefur Orka náttúrunnar farið fremst en á vegum fyrirtækisins hefur leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur nú verið brúuð með hraðhleðslustöðvum. Á leiðinni þar á milli er aldrei lengra en 95 km á milli stöðva. Þá hefur Orkusalan fært öllum sveitarfélögum landsins að gjöf hleðslustöð sem þeim er frjálst að koma upp þar sem þeim þykir henta. Þá hefur N1 tekið forystu í uppsetningu hraðhleðslustöðva við afgreiðslustaði sína hringinn í kringum landið. Á næstu misserum hyggst fyrirtækið tryggja rafbílaeigendum aðgang að rafmagni á öllum bensínstöðvum sínum en þær eru nærri 100 talsins.

möguleika til hleðslu

Þróunin í smíði rafbíla er í raun undrahröð og jafnt og þétt eru framleiðendur að tilkynna um bíla sem draga allt að 400 til 500 km á hverri hleðslu. Á sama tíma hasla fleiri og fleiri framleiðendur sér völl á þessu sviði og þykir það nú lítt til vinsælda fallið að geta ekki boðið einhverjar tegundir í formi hreinna rafbíla eða tengiltvinnbíla sem styðjast bæði við rafmótor og bensín- eða dísilvél.

Í þessu blaði er m.a. fjallað um þá hröðu þróun sem nú er að verða í smíði bíla sem ganga fyrir frumefninu vetni. Sem slíkt er vetnið ekki nýtt af nálinni sem orkugjafi og lengi hafa verið gerðar tilraunir með það þegar kemur að bílvélum. Hins vegar hefur þróunin aldrei verið jafn hröð og nú og þá hafa bílaframleiðendur aldrei gengið jafn langt í að hefja fjöldaframleiðslu á bílum sem ganga fyrir þessu léttasta efni heimsins.

Margir kunna að líta svo á að vetnisþróunin tengist rafbílaþróuninni ekki með beinum hætti en staðreyndin er sú að vetnisbílar ganga í raun fyrir rafmagni. Því eru vetnisbílarnir í raun aðeins tilraun til að hlaða bíla með öðrum hætti en þeim sem tíðkast með hefðbundna rafbíla. Margt bendir til að vetnistæknin geti hentað vel til að hraða orkuskiptum í samgöngum og að hún muni styðja enn frekar við rafbílavæðinguna sem nú þegar er hafin.

Eitt er víst að þróunin er ógnarhröð og spennandi tímar framundan á þessu sviði. Þessu blaði er ætlað að varpa nokkru ljósi á það.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: