Faglegur fararskjóti og fagrar sveitir

Mercedes-Benz G-Class Professional var mátaður vítt og breitt um Suðurlandið
Mercedes-Benz G-Class Professional var mátaður vítt og breitt um Suðurlandið mbl.is/Jón Agnar

Bílaumboðið Askja hefur fengið til sölu hinn ástsæla G-Class jeppa frá Mercedes-Benz í sérstakri „Professional“-útgáfu sem er um margt frábrugðin hefðbundnum eintökum af þessum sögulega bíl.

Ekki svo að skilja að útlitið sé breytt, því fer fjarri enda útlit bílsins sem kallaður er „Der G-Ländewagen“ líklega með því allra síðasta sem Benz koma til með að breyta, enda lætur nærri að dálætið sem aðdáendur þessa sérstæða bíls hafa á honum jaðri við trúarbrögð. Það þótti því tilefni til að taka gripinn og máta hann óformlega við nokkrar af náttúruperlum Suðurlands og sjá hvernig fagmannaútgáfan af þessum harðgerða bíl plumaði sig. Um leið var ekki úr vegi að kanna hvernig aðgengi er háttað við téðar perlur og hvort búið er að styrkja margnefna „innviði“ til að mæta stóraukinni aðsókn ferðamanna.

Minni lúxus fyrir krefjandi aðstæður

Þegar rennt var út úr bænum í brakandi blíðu var það með 1.300 kílóa hjólhýsi í eftirdragi en það reyndist út af fyrir sig ekki til trafala. Vissulega ljær það bílnum aðeins annan karakter að vera klyfjaður með þessum hætti en G-Landerinn er búinn undir annað eins, með 245 hestöfl sem bjóða upp á togkraft sem nemur 600 Nm. Með sítengt fjórhjóladrif var siglt seglum þöndum, þannig lagað, og stefnan tekin austur.

„Það segir sig svolítið mikið sjálft, myndi ég segja, það felst eiginlega í nafninu,“ segir Jónas Kári Eiríksson, sölumaður Mercedes-Benz hjá Öskju, þegar ég spyr hann út í fyrir hvern þessi útgáfa af G-Class sé ætluð. „Þetta er bíll sem er ætlað að fara í safari, veiðiferðir og hvers lags óbyggðastúss. Það má alveg fara inn í hann á grútskítugum skóm enda minnsta málið að skola gólfið með rennandi vatni og taka svo tappana undir mottunum úr til að hleypa vatninu út. Professional-bíllinn er gerður hrárri, ódýrari, í raun er lúxusinn mikið til tekinn frá til að gera bílinn groddalegri og um leið betur í stakk búinn að mæta krefjandi aðstæðum.“

Þetta þýðir að hlutir sem alla jafna eru rafdrifnir í Mercedes-Benz – sætin, rúður, hliðarspeglar – eru handknúin. Undirritaður saknaði líka hraðastillis (e. cruise control) og bakkmyndavélar.

En undirritaður er svo sem enginn fagmaður, þannig lagað, og þar af leiðandi ekki í markhópnum.

Jónas Kári bætir því við að fyrir aðila eins og björgunasveitirnar, sem fái virðisaukaskatt og vörugjöld felld niður, sé verðið býsna hagstætt. Ekki liggi fyrir nákvæmlega verðið á bílnum sem prófaður var, en svo dæmi sé tekið úr verðskránni þá væri bíll með listaverðið 16.590.000 krónur í boði fyrir björgunarsveitir á 7.830.000 krónur.

Þá má geta þess að uppgefin eyðsla á bílnum – sem er með díselvél – er 9,9 lítrar á hundraðið en með hjólhýsið í eftirdragi var það rúmlega 15 lítrar.

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: