Sekt fyrir að gefa barninu á brjóst

Ólmt vildi barnið sopann.
Ólmt vildi barnið sopann.

Kona nokkur sem lagði bíl sínum á bílastæðum hótels í Hull í Englandi til að gefa hvítvoðung sínum á brjós hefur verið sektuð um 60 sterlingspund.

Gemma Clark lagði bílnum á lóð hótelsins  Royal  Brittannia til að sinna hungurkalli hinnar fjögurra mánaða gömlu Hollyar. 

Hún átti sér einskis ills von og varð því felmtri slegin er henni barst sektarmiði í pósti nokkrum dögum síðar. „Kallið var svo kröftugt að ég varð að finna öruggan stað til að stoppa á þar sem ég gæti gefið henni,“ segir frú Clark við blaðið Hull Daily Mail. 

Hörgull var á stöðum til að leggja á og því greip hún til þess ráðs að keyra inn á lóðina aftan við hótelið en þar eru  bílastæði þess. Hún kveðst aðeins hafa dvalið þar í tæpan stundarfjórðung en samt hafi fyrirtækið sem rekur stæðin, Smart Parking limited, fundið hjá sér ástæðu til að sekta hana. Hún freistaði þess að fá fyrirtækið til að sýna mildi og sleppa henni við sektina. En borgaði um síðir til að eiga ekki á hættu að sektin hækkaði í 100 pund væri hún ekki greidd innan tveggja vikna. Hún segist aldrei hafa heyrt hóst né stunu frá Smart Parking.

mbl.is