Vélarhúsið úr 24 karata gulli

Hljómar það ekki með ólíkindum, að vélarhús í bíl skuli slegið 24 karata gulli. Heldur fólk ekki bara að þetta sé grín?

Aldeilis ekki því á bílasýningu sem hófst um helgina í furstadæminu Dubai við Persaflóa sýndi breski sportbílasmiðurinn McLaren sérsmíðað eintak af ofursportbílnum 720S hvar í er að finna hitaskjöld úr gulli vélarhúsinu.

Kaupandinn sem fékk bílinn smíðaðan fyrir sig hefur ekki verið nafngreindur en hann mun eiga aðsetur í Dubai. Eru gullbryddingar að auki til skrauts og áherslu á felgum, vélarhúddi, stýrishjóli og gírblöðkum.

Þá er yfirbyggingin þakin satínsvörtu lakki, sérlega hönnuðu fyrir þennan bíl. Á honum er áfastur skjöldur sem segir að þetta sé eini bíllinn sem framleiddur hefur verið í þessari sérútgáfu.

Lífið mælt í afrekum, ekki árum

Á afturvængnum eru fleyg ummæli stofnanda McLaren, fyrrverandi formúluökumannsins Bruce McLaren, máluð á arabísku: „Lífið er mælt í afrekum, ekki bara í árum“.

McLaren hefur ekki gefið upp verðmiðann á ofurbíl þessum. Fjölmiðlar geta sér þó til, að fyrir smíðina hafi kaupandinn þurft að borga verulega mikið meira heldur en McLaren 720S grunnbíllinn kostar. Fyrir hann þurfa menn að reiða af hendi 208.600 sterlingspund, eða sem svarar um 29 milljónum króna.

Spretta má úr spori á ofurbíl þessum því hann kemst úr kyrrstöðu í 100 km/klst hraða á aðeins 2,8 sekúndum.

mbl.is