Traustir Hyundai Santa Fe II 2,2 eru bílar sem hafa reynst vel hér á landi. Sitthvað getur þó úr lagi gengið, til að mynda díselvélin, og þá er nauðsynlegt að leita ráða kunnáttumanna enda viðgerðir ekki lengur á færi leikmanna.
Traustir Hyundai Santa Fe II 2,2 eru bílar sem hafa reynst vel hér á landi. Sitthvað getur þó úr lagi gengið, til að mynda díselvélin, og þá er nauðsynlegt að leita ráða kunnáttumanna enda viðgerðir ekki lengur á færi leikmanna. — Morgunblaðið/Eyþór
SPURNINGAR OG SVÖR Leó M. Jónsson leoemm@simnet.is Hyundai Diesel – brotin vél Spurt: Ég er með bilaðan Hyundai Santa Fe 2005 Diesel 2.7 lítra V6. Vélin fór á yfirsnúning og myndaðist grár mökkur í útblæstrinum.

SPURNINGAR OG SVÖR

Leó M. Jónsson

leoemm@simnet.is

Hyundai Diesel – brotin vél

Spurt: Ég er með bilaðan Hyundai Santa Fe 2005 Diesel 2.7 lítra V6. Vélin fór á yfirsnúning og myndaðist grár mökkur í útblæstrinum. Bíllinn hefur beðið á verkstæði í tæpan mánuð. Vélin er sögð ónýt og mér hefur ekki tekist að finna aðra vél þrátt fyrir að hafa haft samband við partasölur um allt land. Mér er sagt að ekki borgi sig að opna vélina vegna dýrra varahluta og vinnu. Hjá umboðinu er mér sagt að líklegast hafi spíssar gefið sig með þessum afleiðingum. Umboðið firrar sig allri ábyrgð og vill ekkert fyrir mig gera. Hvar gæti ég fengið notaða vél í lagi? Hvernig geta ónýtir spíssar valdið svona eyðileggingu?

Svar: Þegar Diesel-vél fer á yfirsnúning veldur höggið, sem stimpillinn myndar við stefnubreytingu uppi og niðri því að eitthvað lætur undan og brotnar. Talað er um tvær ástæður: Fæstar smærri Diesel-vélar hafa mótorbremsu – spjaldloka sem þrengir pústgreinina. Öfugt við bensínvél er lítið sem ekkert sog í Diesel-vél og án mótorbremsu hentar hún ekki til að halda við með því að beita gírum í stað eða með bremsum, eins og tíðkast með bensínvél. Sé Diesel-vél skipt niður í brattri brekku, til dæmis með eftirdrátt, getur það valdið yfirsnúningi og skemmdum. Því á að nota bremsur í meiri mæli með Diesel-vél. Hins vegar getur það gerst að eldsneyti Diesel-vélar blandist smurolíu. Nái borð smurolíu, sem inniheldur eldsneyti, að hækka nægilega til að „pilsfaldar“ stimplanna ausi blöndunni upp með sér fær vélin ótakmarkað eldsneyti (botngjöf) og rýkur upp í snúningi þar til hún brotnar. Til þess þarf vélin að vera mjög heit. Mikil hætta getur skapast því hvorki ádrepari né inngjöf virkar (ég hef kæft vél inni á verkstæði með því að tæma kolsýru úr slökkvitæki í loftinntakið – en það er einungis hægt þegar inntakið er aðgengilegt, húddið opið og viðkomandi nógu vitlaus til að forða sér ekki út hið snarasta).

Spíssar geta verið baklekir eftir að drepið hefur verið á vél (eldsneytið sigið niður með stimplum). Spíssar geta verið lausir í heddum og uppblástur valdið of lágri þjöppun og uppsöfnun óbrunnins eldsneytis. Báðar tilgáturnar finnast mér ósennilegar, nema í undantekningartilfellum.

Líklegri orsök tel ég vera óeðlilega sótmyndun vegna bilunar í pústhringrás (EGR) eða vegna bilunar í hreinsikerfi öragnasíu (PDF) sem fylli pústþjöppuna af sóti. Þá slitnar smurða burðarlegan í þjöppunni. Bilun í EGR-rásinni getur myndað óeðlilegt sog sem dregur eldsneyti inn í millikælinn þar sem það safnast saman, kemst inn í brunahólfin og valdið yfirsnúningi eða sigið niður með stimplunum. Eldsneytið getur einnig komist í smurolíuna gegnum burðarlegu pústþjöppunnar. Séu spíssar endurnýjaðir við þessar aðstæður getur það því reynst skammgóður vermir. Stundum gera þessar „hamfarir“ boð á undan sér vinnslukippum í vél í öðrum tilfellum gerast „skemmtilegheitin“ allt í einu og vélin hrynur sé ekki unnt að stöðva hana – sem sjaldnast er hægt nema olíuborðið lækki hratt í pönnunni eða hentug fyrirstaða til staðar. Allra nýjustu Diesel-vélar og fáeinar eldri eru með sérstakan búnað sem kemur í veg fyrir yfirsnúning af þessu tagi. Flestar aðrar, sama hver tegundin er, geta lent í þessu. Draga má úr hættunni með því að beita bremsum í stað vélar til að hægja ferð niður brekkur og að fylgjast reglulega með því að smurolíustaðan í Diesel-vél sé eðlileg. Yfirsnúningur veldur oftast miklum skemmdum en þó er ástæða til að opna vélina og kanna málið. Þessar 2.7 lítra V6 Diesel-vélar í Hyundai eru ekki mjög algengar. Japanskar vélar ehf. í Hafnarfirði hafa flutt inn nýlegar vélar úr tjónabílum. Sænsk partasala mun hafa átt ýmsar vélar og jafnvel selt hingað www.bildelsbasen.se

• Athugið að bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og svör eru birt á www.leoemm.com

Höfundur er véltæknifræðingur.