Lenti óvart á flugvelli í byggingu

Fraktflugvél Ethiopian airlines lenti á röngum flugvelli í Zambíu.
Fraktflugvél Ethiopian airlines lenti á röngum flugvelli í Zambíu. AFP

Fraktflugvél Ethiopian Airlines lenti fyrir mistök á röngum flugvelli í Sambíu sem er enn í byggingu. Vélin fór frá Addis Ababa í Eþíópíu á sunnudaginn síðasta og átti að lenda á Simon Mwansa Kapwepwe-flugvellinum í Ndola í Sambíu. 

Vélin, sem er af gerðinni Boeing 737, lenti hins vegar fyrir mistök á Copperbelt-alþjóðaflugvellinum sem er um 15 kílómetra í burtu frá flugvellinum þar sem hún átti að lenda. Copperbelt-völlurinn dregur nafn sitt af héraðinu sem hann er í, og er enn í byggingu.

Samgöngumálaráðherra Sambíu, Misheck Lungu, sagði að flugmaðurinn hefði einfaldlega lent vélinni þarna fyrir mistök. 

„Þegar hann var að fara að lenda var hann í samskiptum við flugumferðarstjórnina og þeir sögðu honum að þeir sæju hann ekki,“ sagði Lungu. 

Engum varð meint af og vélin varð ekki fyrir neinum skemmdum. Rannsókn stendur yfir á málinu en Ethiopian Airlines hafa staðfest að atvikið hafi átt sér stað. 

Í tölvupósti til AFP sagði talsmaður Ethiopian Airlines að flugvellirnir lægju báðir í sömu átt. Það og svo hversu stutt er á milli þeirra gæti hafa orsakað að flugstjórinn ruglaði þeim saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert