Bullock tók við skammarverðlaunum

Bradley Cooper og Sandra Bullock voru valin versta kvikmyndapar síðasta …
Bradley Cooper og Sandra Bullock voru valin versta kvikmyndapar síðasta árs. Reuters

Bandaríska leikkonan Sandra Bullock, sem talin er líkleg til að hreppa Óskarsverðlaunin í kvöld fyrir leik í myndinni The Blind Side, vakti mikla lukku í nótt þegar hún mætti á svonefnda Razzie verðlaunahátíð í Los Angeles þar sem veitt eru skammarverðlaun fyrir kvikmyndir síðasta árs, og tók við verðlaunum fyrir versta leik ársins í myndinni All about Steve.

Afar sjaldgæft er að leikarar, sem hreppa Razzie-verðlaunin, mæti til að taka við þeim. 

Bullock gaf gestum DVD-diska með myndinni All About Steve. Hún sagði í þakkarræðu sinni, eftir að hafa tekið við verðlaununum, gylltu hindberi úr plasti, að hún myndi mæta á næstu Razzie-hátíð ef gestirnir lofuðu að horfa á myndina og dæma um hvort þetta hefði virkilega verið versta frammistaða ársins 2009.  

„Og ef svo er ekki mun ég skila verðlaununum," sagði Bullock, sem sagðist hafa þurft að fara úr góðgerðarkvöldverði á vegum kvikmyndaframleiðandans Jeffrey Katzenberg til að mæta á Razzie-hátíðina. „Og nú þarf ég að fara þangað aftur því  Jeffrey Katzenberg gæti annars komið í veg fyrir að ég fengi vinnu aftur." 

Bullock fékk raunar tvenn Razzie-verðlaun en hún og Bradley Cooper voru valin versta parið í myndinni All About Steve.

Kvikmyndin Transformers: Revenge of the Fallen fékk flest Razzie-verðlaun en hún var sögð allt of löng, allt og hávær og lítilfjörleg. Michael Bay var valinn versti leikstjórinn, handrit myndarinnar var valið það versta og myndin var síðan útnefnd sú versta á síðasta ári.

Drengjahljómsveitin Jonas Brothers fékk verðlaun fyrir versta leik karla í myndinni: Jonas Brothers: The 3-D Concert Experience. Billy Ray Cyrus var valinn versti leikari í aukahlutverki fyrir myndina Hannah Montana: The Movie og  Sienna Miller var valin versta leikkonan í aukahlutverki fyrir G.I. Joe: The Rise of Cobra.

Þetta var í 30. skipti sem Razzie-verðlaunin voru veitt. Af því tilefni  voru veitt sértök heiðursverðlaun fyrir verstu frammistöðu síðasta áratugar. Vísindaskáldsagan Battlefield Earth, sem John Travolta gerði, fékk þann vafasama heiður að vera útnefnd versta mynd fyrsta áratugar 21. aldarinnar og  Eddie Murphy var útnefndur versti leikarinn fyrir margar lélegar myndir á borð við Norbit og Meet Dave.

Samkvæmisflugan  Paris Hilton var útnefnd versta leikkona áratugarins fyrir myndirnar  The Hottie and the Nottie, House of Wax og Repo: The Genetic Opera, sem allar fengu slæma útreið gagnrýnenda og þeirra fáu áhorfenda, sem sáu þær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes