Stórmenni með gullhjarta

Gunnar Jónsson leikari er ávallt kallaður Gussi. Þeir eru líklega fáir Íslendingarnir sem muna ekki eftir Gussa úr ódauðlegum atriðum í sjónvarpsþáttunum Fóstbræður en þar var Gussi ófeiminn við að birtast fáklæddur, jafnvel nakinn í senum og áhorfendur supu ýmist hveljur eða skemmtu sér konunglega. Gussi segir að enginn í fjölskyldunni hafi kippt sér upp við atriðið þar sem hann hljóp á Adamsklæðum einum. Nema kannski afi hans heitinn, sem sagði við hann að þetta væri eitthvað sem hann „skyldi ekki gera aftur“.

Gussi er andans maður. Sannkallað góðmenni að sögn vina hans sem þrátt fyrir krafta sína hefur aldrei nýtt sér líkamlega yfirburði og flúði stríðni út á land. En góðmennið stendur á tímamótum og hyggst leggja leiklistina loksins fyrir sig eftir langan tíma í erfiðisvinnu, ýmist á sjó eða landi. Upp úr áramótum hefjast tökur á kvikmynd sem Gussi leikur aðalhlutverkið í en Dagur Kári Pétursson skrifaði handrit. Í aðalhlutverk hafði leikstjórinn allan tímann Gussa í huga. Skrifaði persónuna raunar sérstaklega fyrir Gussa. Og sjálfur er Gussi með kvikmyndahandrit í smíðum.

„Ég er kominn á þann stað að ég ætla að láta draumana rætast,“ segir Gussi eftir að hafa dýft sér í sjóinn við Ylströndina í Nauthólsvík. „Þegar Morgunblaðið hafði samband við mig sá ég tækifærið sem mig hefur dreymt um lengi. Ég ákvað fyrir um tveimur árum að einn daginn myndi ég endurgera forsíðumyndatökuna sem Ásdís Rán var í fyrir Playboy. Mér þykir gaman að pota og stríða svolítið því tilveran er stundum of ferköntuð fyrir minn smekk. Ég kom held ég í þetta líf til þess að hrista upp í óþarfa hefðum og gildum. Ég vil hleypa gleði og kátínu inn í líf fólks og leyfa því að lyfta brúninni. En ég fór einu sinni til Bíbí miðils og hún sagði við mig að ég hefði áru sem sýndi að ég hefði svolitla þörf til að stugga við hinum.“

Lærði ungur að vinna

Gussi hefur óvenjulega lífssýn og hefur unnið óvenjuleg störf. Fortíð hans er líka kannski ekki eins og flestra. Í Hafnarfirði sleit hann barnsskónum. „Mamma og pabbi voru harðduglegt fólk og unnu mikið til að geta séð fyrir börnunum. Stundum var vinnudagurinn 12 tímar og ég man að einhvern tíma átti að láta mig taka smá ábyrgð og elda ofan í bróður minn. Mér fór það starf reyndar ágætlega úr hendi og síðar á ævinni lærði ég matsveininn. En þetta var þannig að ég var farinn að vinna sem unglingur og þá man ég að það var eitthvað undarlegt að mamma mín sem vann myrkranna á milli var með lægra kaup en ég hafði. Tilveran er stundum skrýtin.“

Þessa dagana er Gussi að smíða sumarbústað fyrir austan fjall og er í vinnugallanum. Hann er ekki menntaður leikari en hefur samt leikið allt frá því í barnaskóla í Hafnarfirði. „Ég held að ég hafi ekki valið leiklistina heldur hafi leiklistin valið mig. Ég hef áhuga á fólki og finnst ákaflega gaman að skoða mismunandi manngerðir. Einhvern veginn er það þannig að ég er líka mjög næmur á fólk og er allt of fljótur að pikka upp kæki þess og jafnvel farinn óvart að herma eftir málrómi annarra. Ef ég er að tala við einhvern er ég fyrr en varir farinn að vera með eins hljómfall í röddinni. Það er óvart en svo er ég líka meðvitaður hrekkjalómur. Hrekkirnir mínir eru samt þannig að ég reyni að hafa þá ekki á kostnað annarra, hvorki háð né spott, heldur get ég tekið upp á því að skipuleggja hrekki sem fela í sér eitthvað flóknara. Svona í þeim dúr sem afi minn gerði, hann átti það til að hnýta saman skóreimar allra skópara sem voru í forstofunni þegar mannmargt var í húsi. En mér finnst vond tilfinning að vera vondur við fólk og brjóta það niður. Áður fyrr var ég líka meira í því að brjóta sjálfan mig niður.“

Fór í mig að vera þekktur

Gussi var feiminn og var hálfpartinn að flýja stríðni þegar hann var 19 ára og flutti á Vestfirði. „Ég var í Flensborg en skulda þar ennþá fjórar einingar fyrir lélega mætingu. Hafði aðeins of gaman af félagslífinu. Ég hef meira og minna verið með aðra löppina úti á sjó. Var síðast í vor á fraktara við Eystrasalt. En stríðnin var tilkomin af því að á þessum tíma hafði ég verið áberandi, býst ég við. Hafði verið að leika. En þetta var sjálfskipuð útlegð og ég flutti út á land í 10 ár. Það fór í mig að vera þekktur. Ég vildi á þeim tíma vera í leiklistinni en fannst erfitt að taka því sem fylgdi – að vera þekktur. Í Hafnarfirði vissu allir hver ég var og þar sem ég hafði leikið í kvikmynd, hjá Hrafni Gunnlaugssyni, var athyglin meiri en ég vildi. Mig langaði bara að fá útrás fyrir sköpun og þetta var allt öðruvísi – meiri stríðni. Stefán Karl elst upp í Hafnarfirði á svipuðum tíma og lenti líka í svipuðum aðstæðum.“

Gussi bjó í Súðavík, vann í frystihúsinu og síðustu tvö árin úti á sjó. Súðavík varð fyrir valinu fyrir hálfgerða tilviljun. Verbúðarlífið var skemmtilegt fyrst og það fylgdi því ákveðið lífsmynstur – þar sem fólk fékk sér ágætlega í glas frá fimmtudegi til sunnudags og vann stíft þar á milli. Gussi ákvað hins vegar eftir að hann vann sem dyravörður á Café Óliver mörgum árum síðar að fá sér aldrei meira en einn drykk framvegis.

Notaði hyggjuvitið í stað krafta

„Dyravarðarstarfið varð mannlegt fyrir mér en þar sá maður líka hvernig drykkja er og það verður enginn betri maður eða skemmtilegri í glasi. Ég drekk í dag mjög sjaldan brennda drykki og fæ mér einn bjór í mesta lagi. Það var ekki það að drykkja hefði verið vandamál, alls ekki, en mér fannst þetta bara óþarfi.“ Gussi varð þekktur sem dyravörðurinn sem gat talað fólk til og notað hyggjuvitið í stað krafta til að fá fólk út klukkan þrjú eða róa mannskapinn niður. „Þetta var gott tímabil og ég kynntist lífsreynslusögum fólks sem mér þótti oft vænt um að heyra. En þetta var auðvitað tegund af erfiðisvinnu og kannski hef ég verið pínulítið ofvirkur og þurft að fá útrás við líkamleg störf. Ég er kominn á rólegra skeið núna.“

En dyravarðarstarfið var hinn pólinn á því að flytja til Súðavíkur þegar hann var 19 ára. Á þeim tíma hafði hann lokið við að leika í Fóstbræðrum og allir þekktu hann. Fólk stoppaði hann úti á götu til að deila með honum hvaða atriði væru í eftirlæti úr þáttunum og Gussi segir að sér hafi þótt skemmtilegast að fólk nefndi aldrei sama atriðið. „Í dyravarðarstarfinu þurfti ég að standa fyrir framan fjölda fólks á hverju kvöldi og þetta var eitthvað sem ég gerði með það fyrir augum að flýja ekki áhorf heldur takast á við það. En ég vissi auðvitað ekkert út á hvað dyravarðarstarfið gekk þegar ég réð mig í það. Hélt það nægði bara að segja: Jæja, klukkan er þrjú og það er búið að loka. Auðvitað gekk það aldrei og það þurfti að tala fólkið til. Aðeins tvisvar lenti ég samt í að þurfa að beita afli, en það var í sjálfsvörn. Í 99 prósentum tilvika dugði bara að tala. En starfið gaf mér mikið, að fá að hlusta á hvað fólk var að tala um og vildi tjá sig um. Ég hef alltaf verið þakklátur fyrir það að fólk vilji deila einhverju með mér og mín reynsla er sú að það eru allar manneskjur góðar. Þær eru bara mismunandi vel búnar til að takast á við þær aðstæður í lífinu sem þær lenda í.“

Ekki ætlað að stofna fjölskyldu

Fjölskyldu hefur Gussi aldrei stofnað og segist tengja það við þörf sína fyrir frelsið. Að geta farið út á sjó í þrjá mánuði ef hann þurfi þess með. „Ég held að mér sé jafnvel ekki ætlað að verða fjölskyldumaður en ég er fremur örlagatrúar og tilviljanir eru eitthvað sem ég hef enga trú á. En hvað veit maður. Nú er ég að fara að leika í þessari mynd og ætla að skrifa. Ég ætla jafnvel að taka skrokkinn á mér í gegn því ég sé fyrir mér að ég muni þurfa aukna hreyfingu ef ég ætla að setjast við skriftir. Kannski verður kona komin inn í myndina eftir eitt tvö ár, þótt ég sjái það ekki fyrir mér núna að stofna til fjölskyldu og hafi ekki þrá eftir því.“

Það kemur ekki á óvart að leikarinn hafi átt auðvelt með að þróa handrit sitt en hann hefur býsna gott hugmyndaflug. Fræg varð hangikjötssúpa sem hann fann upp og var sett á fastan matseðil Café Óliver og varð réttur sem sló í gegn hjá matargestum. Hugurinn fer víða og hann les mikið.

Tíminn með Fóstbræðrum var frábær að sögn Gussa. Hann hafði dreymt um að geta unnið fyrir sér sem leikari og þarna rættist það. Hann fór í prufur og var valinn í hlutverkið. Nú er hann álíka glaður með það hvað er að gerast í lífi sínu, en hann nefnir aftur að tilviljanir séu ekki til staðar í lífinu að hans mati. Það séu stundir og staðir sem ætlað sé mismunandi verkefnum. Fyrirætluð mynd Dags Kára er til dæmis eitt af þeim. Tökur í myndinni verða vetrartökur að miklu leyti og aðallega innan borgarmarka. „Ég hef verið með hugann við karakterinn og er svona að skoða hann. Já, þetta er góðmenni, það má alveg segja það. Ekkert illt í honum. Ég hef fengið tilfinningu fyrir karakternum með því að lesa handritið nokkrum sinnum yfir. Ég hef leyft honum að vera með mér þegar ég hef tíma en hann er jafnvel líka farinn að þvælast fyrir mér þegar ég hef ekki tíma.“

Var líklega illmenni í fyrra lífi

Gussi er sem fyrr segir að huga að eigin skriftum og ætlar að gera úr því alvöru að klára handrit sem hann hefur gengið lengi með í maganum. „Sú hugmynd kom í rólegheitunum, á síðustu þremur árum, ég hef ekki verið að reyna að þvinga hana fram. Þetta er eiginlega mynd um tilfinningar. Þegar maður er alinn upp í umhverfi þar sem var ekkert annað en vinna og spurning um að komast af þá er það auðvitað stórt skref að taka þá ákvörðun að að setjast og leyfa sér að láta draum sem þennan rætast. En ég held ég hvetji alla til að gera það. Hugsa reglulega um það hvaða drauma fólk byrgir innra með sér og leyfa þeim að brjótast út. Fólk veit það sjálft hvað það vill og á ekki að láta aðra segja sér hvernig það á að haga lífi sínu.“

Hefur þú alltaf verið svona kjarkaður? „Ef fólk veltir hlutunum of lengi fyrir sér er það líklegra til að hætta við. Það hefur ekki verið minn stíll að segja nei við hlutverkum né svíkja eitthvað sem ég er búinn að lofa mér í. Grípa augnablikið en auðvitað hef ég líka stundum beðið of lengi. Fengið hugmyndir og hugsað – það væri gaman að gera þetta ef ég hef tíma.“

Um tíma var spurning hvort Gussi færi út í kraftlyftingar en hann segist líklega hafa vantað ákveðinn rembing. Vantað að vilja vita meira en aðrir eða vera sterkari en þeir. Líka skort karlrembu. Hann er vanur þeirri tilfinningu að enginn þori í hann án þess að hann velti því sérstaklega fyrir sér. Það er fremur að Gussi hafi áhuga á andlegum málefnum og viðurkennir að hann sé líklega ofurlítið næmur. Hann trúir líka á fyrri líf. „Ég hálfpartinn trúi því að erfiðustu lífin mín séu að baki. Mig dreymir alltaf sama drauminn. Ég er staddur á torgi að mér finnst á suðrænum slóðum. Jafnvel á Spáni eða á Ítalíu. Ég held á byssu og reyki og það eru látið fólk, skotið fyrir framan mig. Tilfinningin er því miður að mér er alveg sama og það er hræðilegt. Mér var sagt af vinkonu minni sem er spámiðill að ég hafi verið illmenni í fyrri lífum. Í þessu lífi langar mig að gleðja og fá fólk til að hlæja. Við þurfum sérstaklega á því að halda núna.“

Kynntust við pönnukökubakstur

Degi Kára Péturssyni kynntist Gussi þegar hann bakaði fyrir hann pönnukökur í stuttmynd sem Dagur Kári gerði en það er í eina skiptið sem þeir hafa unnið saman. „Hann hringir í mig í vor þar sem ég er staddur í Rússlandi og vill senda mér handrit og biður mig um að lesa það því það sé skrifað með mig í huga. Ég les það og verð hrifinn. Þetta er bæði falleg og dálítið fyndin saga. Karakterinn er svolítið líkur mér fyrir utan það að hann býr einn með móður sinni. Þetta er dálítið dramatískt þótt undirtónninn sé grátbroslegur. Mér finnst kannski svolítið erfitt að svara því hvort mér hafi fundist gaman að hann skrifaði þetta sérstaklega fyrir mig. Er ekkert mikið fyrir að hrósa sjálfum mér en draumur minn er samt leiklist þótt ég hafi ekki getað látið hann rætast almennilega og því er ég mjög hamingjusamur með þetta. Ég hef aldrei verið góður í að koma sjálfum mér á framfæri.“

Viðtalið birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes