Sýning með hjartað á réttum stað

Ævintýri í Latabæ nefnist nýr fjölskyldusöngleikur úr smiðju Magnúsar Scheving sem frumsýndur verður á Stóra sviði Þjóðleikhússins í dag kl. 13. Leikritið samdi Magnús í samvinnu við Ólaf S.K. Þorvaldz og Mána Svavarsson, en sá síðarnefndi samdi alla tónlist og söngtexta. Magnús leikstýrir sjálfur í samvinnu við Rúnar Frey Gíslason.

„Þetta verður mikið sjónarspil. Tæknin, trikkin og lætin eru með því mesta sem ég hef séð í leikhúsi hingað til,“ segir Rúnar Freyr og viðurkennir að það hafi verið mikil áskorun að koma svona flókinni sýningu saman. „Á sama tíma hefur verið lykilatriði í mínum huga að hjartað væri á réttum stað í sýningunni. Mér finnst mikilvægt að persónur verksins séu alvöru manneskjur sem snerti eitthvað í okkur sem við könnumst við, bæði börn og fullorðnir,“ segir Rúnar Freyr og bendir á að fyrir utan boðskapinn um mikilvægi hreyfingar og holls mataræðis fari mikið fyrir öðrum boðskap. „Lögð er áhersla á samstöðu og samhjálp og minnt á mikilvægi þess að menn tjái líðan sína. Það er mikilvægt að standa með sjálfum sér, fylgja hjartanu og ekki síst vera heil og góð manneskja. Mér sýnist að þetta sé að skila sér mjög fallega inn í sýninguna,“ segir Rúnar Freyr.

Bætir miklu við upplifunina

Aðspurður fyrir hvaða aldur sýningin sé hugsuð segir Rúnar Freyr að hún sé ætluð krökkum frá þriggja ára og upp úr. „Við pössum upp á að sýningin sé fyrir allan barnsaldurinn,“ segir Rúnar Freyr og tekur fram að af viðbrögðum áhorfenda að dæma á rennslum í vikunni nái sýningin einnig vel til táninga. „Við erum með samspil myndbanda og þess sem gerist á sviðinu og það er í gæðaflokki á við það sem best gerist í poppmyndböndum samtímans. Tónlistin hefur verið djúsuð upp og höfðar vel til unglinga,“ segir Rúnar Freyr og tekur fram að hann sé sannfærður um að sýningin muni jafnframt falla aðdáendum sjónvarpsþáttanna um Latabæ vel í geð. „Það mun bæta miklu við upplifun þeirra að sjá allt í einu allar persónurnar standa ljóslifandi á sviðinu í stað þess að vera brúður,“ segir Rúnar Freyr og hrósar samstarfsfólki sínu í hástert. „Við erum með svo mikla hæfileikakrakka í hlutverkum. Það var ótrúlega góð tilfinning þegar við hófum æfingar að finna að við hefðum valið rétt fólk. Það er magnað að sjá hvað þetta unga fólk er hæfileikaríkt. Þau syngja, dansa og leika eins og þau hafi ekki gert annað alla ævi. Þau eiga eftir að bræða öll hjörtun í salnum,“ segir Rúnar Freyr.

„Þessi heimur var skapaður fyrir sjónvarp og því er gaman að fá tækifæri til að setja hann á svið fimmtán árum eftir að hann var fyrst sýndur á sviði Þjóðleikhússins. Það er gaman að koma með nýtt útlit og glænýja sögu,“ segir Magnús Scheving og tekur fram að ofurhetjur í samspili við breyskar persónur séu í raun endalaus uppspretta góðra sagna.

„Í raun eru allar persónur Latabæjar ein heilbrigð manneskja sem er í jafnvægi. Við erum öll að ströggla við að vera í jafnvægi. Stundum erum við Íþróttaálfurinn, þ.e. okkur líður vel og finnst að við getum gert allt. Aðra daga líður okkur eins og Glanna glæp og verðum yfirþyrmd af neikvæðni eða eins og Sollu stirðu sem þorir að prófa nýja hluti. Stundum verðum við nísk eins og Nenni níski, gleymum okkur í tækninni eins og Goggi mega eða ákveðum að brjóta reglurnar eins og Halla hrekkjusvín,“ segir Magnús og tekur fram að hann vísi í leikriti sínu í samtímaviðburði á borð við búsáhaldabyltinguna.

Sýningin sameinar tvo heima

Í verkinu reynir Glanni glæpur enn á ný að koma í veg fyrir að Íþróttaálfurinn hafi góð áhrif á íbúa Latabæjar. Að þessu sinni ræður hann sér þrjá aðstoðarmenn sem eiga að hjálpa honum að koma í veg fyrir hreyfingu sem og ávaxta- og grænmetisneyslu bæjarbúa ásamt því að veiða Íþróttaálfinn í gildru. Meðal þess sem Glanna glæp tekst að gera er að breyta lögum bæjarins og koma á hreyfibanni, sem fellur síður en svo í góðan jarðveg bæjarbúa, en Glanni notast við varðhunda og hreyfilöggur til að stjórna.

„Segja má að tveir heimar sameinist í sýningunni, þ.e. heimur annars vegar sjónvarpsins og hins vegar leikhússins,“ segir Magnús og ber samleikstjóra sínum afar vel söguna. „Rúnar Freyr hefur mikla og góða reynslu úr leikhúsinu, en ég kem með reynslu mína úr sjónvarpinu. Við leggjum krafta okkar saman og notum tæknina og leikhúsið til að skapa sterka upplifun og áhrifamikla sýningu. Þetta verður mikið sjónarspil og sterk upplifun.“

Í hlutverki Glanna glæps, Íþróttaálfsins og Sollu stirðu eru Stefán Karl Stefánsson, Dýri Kristjánsson og Melkorka Pitt. Í öðrum hlutverkum eru Rán Ragnarsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Jónmundur Grétarsson, Gunnar Hrafn Kristjánsson, Hannes Óli Ágústsson, Svandís Dóra Einarsdóttir, Arnmundur Ernst Backman, Oddur Júlíusson og Þórir Sæmundsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes