Eins og veðurguðir lesi handritið

Sigurjón Kjartansson á tökustað á Siglufirði. „Okkur er tekið einstaklega …
Sigurjón Kjartansson á tökustað á Siglufirði. „Okkur er tekið einstaklega vel hérna,“ segir hann. mbl.is/Sigurður Ægisson

Framhaldsþáttaröðin Ófærð, sem enn er í vinnslu, hefur þegar verið seld til sjónvarpsstöðva í Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi og fleiri landa undir heitinu Trapped. Gerðir verða tíu tæplega klukkustundarlangir þættir og mun kostnaður við verkið nema um milljarði króna. Þáttaserían er byggð á hugmynd Baltasars Kormáks, sem jafnframt er aðalframleiðandi og leikstýrir nokkrum þáttum.

Í liðinni viku tóku kvikmyndagerðarmenn að safnast saman í snjóþungum Siglufirði og hófu þar tökur á Ófærð, viðamestu framhaldsþáttaröð sem gerð hefur verið hér á landi fyrir sjónvarp. Áður munu tökur hafa farið fram í Reykjavík og nágrenni fyrir jól en samkvæmt upplýsingum frá framleiðslufyrirtækinu, RVK Studios, eru tökudagar um 85.

Fjórir leikstjórar stjórna upptökum, þeir Baltasar Kormákur, Baldvin Z., Óskar Axelsson og Börkur Sigþórsson, en með aðalhlutverkin fara Ólafur Darri Ólafsson, Ilmur Kristjánsdóttir og Ingvar E. Sigurðsson. Handritið skrifa Sigurjón Kjartansson, Clive Bradley, Ólafur Egilsson og Jóhann Ævar Grímsson en Sigurjón er í veigamiklu hlutverki við þáttagerðina, er það sem kallast „showrunner“, maðurinn með yfirsýnina á vettvangi.

Margir koma við sögu

„Jú, það gengur mikið á,“ segir Sigurjón þegar hann er ónáðaður á tökustað. Um sjötíu tæknimenn og leikarar eru komnir til Siglufjarðar en milli fjörutíu og fimmtíu leikarar koma við sögu í þáttunum.

„Hlutverkin skipta tugum. Þetta er tíu þátta sería þannig að margir koma við sögu, þó þetta gerist í litlum bæ. Segja má að í heildarsamhenginu sé lítið hlutverk í þessari seríu nokkuð stærra en ef það væri í bíómynd. Allt í allt er þessi sería yfir 500 mínútur að lengd; þó að hlutverk sé ekki stórt þá er það samt stórt,“ segir hann og hlær.

„Útisenur eru teknar á Siglufirði og líka á Seyðisfirði en innisenur tökum við í Reykjavík að mestu.

Við sjáum fram á að vera hér út mars. Við förum til Seyðisfjarðar í millitíðinni. Smá angi er eyrnamerktur þeim bæ, tengist ferjunni og höfninni.“

– Er nægilega mikil ófærð?

„Það er svo sannarlega mjög mikil ófærð núna. Allt sem við þurfum er hér núna. Við höfum fengið allt sem við þurfum. Blindbyl, skafrenning, snjókomu og slyddu. Í dag erum við að taka senu þar sem verið er að búa til snjókarl og það er ekta sjókarlaveður. Það er eins og veðurguðirnir hafi lesið handritið.“

– Er þetta sakamálasaga?

„Já, þetta er krimmi. Glæpur er framinn og hver er sá seki? Við erum líka að kafa dýpra, inn í kvikuna á samfélagi sem er að einherju leyti smækkuð mynd af samfélaginu sem við búum öll í... Sagan er líka að einhverju leyti pólitísk. Glæpahöfundar segja stundum að besta leiðin til að spegla samfélag sé í gegnum glæp, því glæpur afhjúpar það sem aflaga hefur farið.“

Allir saman í hljómsveitinni

Þegar Sigurjón er spurður að því hvort tökur mótist mikið af því að fjórir leikstjórar koma að verkinu, segir hann verkinu stýrt þannig að samhengi sé í verki hvers og eins.

„Einn leikstjórinn er oft víða út um heim að gera allskonar myndir,“ segir hann og vísar í störf Baltasars Kormáks. „Hann er búinn að vera hérna í einn dag og svo kemur hann aftur til að klára sína þætti. Allir eru að gera sitt og við tökum tillit til ýmiskonar aðstæðna.“

– Er ekki flókið fyrir „showrunner“ að púsla þessu saman?

„Aðrir eru í að púsla saman tökuplaninu. Vissulega getur þetta verið flókið og þarf að líta í ýmis horn en þessi maskína hefur gengið mjög vel, þessi vél er vel smurð. Hér er besta fagfólk sem við höfum á landinu allt saman komið, meira og minna, og við erum að prófa þessa starfsaðferð í fyrsta sinn, að búa til seríu þar sem eru fleiri en einn leikstjóri og eitt höfuð yfir þessu, tengt handritsvinnunni. Þá reynir á að ég hafi mjög skýra sýn á verkið. En ég er líka opinn fyrir öllum hugmyndum sem koma frá leikstjórum, leikurum og öðrum.

Ég gæti alls samræmis og að allt sé eins og lagt var upp með, en innan þess ramma sem ég set er svigrúm þar sem menn geta leikið sér. Ég hef ekki heyrt annað en að allir séu ánægðir með þetta fyrirkomulag.“

Sigurjón segir að í þessu ferli hafi leikstjórarnir ákveði frelsi. „Þeir bera ekki eins mikla ábyrgð og ef þeir væru að gera bíómyndina sína. Þeir eru að spreyta sig hér við að leikstýra, sjá um að leikurinn sé góður, og auðvitað koma þeir með sínar hugmyndir um myndvinnsluna, í góðu samráði við mig, tökumenn og aðra. Allir erum við saman í þessari vinnu. Þetta er samvinna og allir eru saman í hljómsveitinni.“

Sigurjón segir þeim hafa verið afar vel tekið á Siglufirði, allir virðist vera ánægðir með að hafa þennan stóra hóp þar við störf. Þá muni eitthvað vera um að heimamenn lendi fyrir framan tökuvélina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þú sért skipulagður sjálfur geturðu ekki ætlast til að aðrir séu eins. Vandamálin geta vel verið fyrir hendi, þótt enginn sjá þau nema þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þú sért skipulagður sjálfur geturðu ekki ætlast til að aðrir séu eins. Vandamálin geta vel verið fyrir hendi, þótt enginn sjá þau nema þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes