„Ég er bara venjulegur maður sem drekkur blóð"

Ný plata Bang Gang, The Wolves are Whispering kemur út …
Ný plata Bang Gang, The Wolves are Whispering kemur út eftir fáeina daga. Ljósmynd: Saga Sigurðardóttir

Þann 23.júní kemur út ný plata með Bang Gang, The Wolves are Whispiering. Barði Jóhannsson, maðurinn á bak við Bang Gang segir að platan fjalli um aðskilnað og að undir tónlistinni sé einhverskonar yfirvofandi ógn. Í viðtali við Iceland Monitor á mbl.is segir hann frá samstarfi sínu við hinn franska Jean-Benoit Dunckel og að vera orðin yfirlýst vampíra. 

„Stundum getur þú ímyndað þér að þú sért inni í myrkum skógi, og stundum ekki," segir hann aðspurður um dálítið drungalegan titil plötunnar. Nýlega setti Barði fram á Facebook síðu sinni færslu um að hann hefði gerst vampíra en hann segir plötuna ekkert hafa með það að gera. „Það kom engum vinum mínum á óvart að ég væri vampíra, ég hafði bara ekki tilkynnt það formlega hingað til."Hann bætir við að fyrsta lagið sem kemur út af nýju plötunni, My Special One og annað lag, Out of Horizon, séu hinsvegar aðeins bjartari lög. „En það er mjög mikið af myrku dóti þarna líka."

Teiknimynd gerð eftir óperu Barða

Það eru liðin sjö ár frá útgáfu síðustu plötu með Bang Gang en Barði hefur verið önnum kafinn í öðrum verkefnum. Hann hefur samið kvikmyndatónlist, eina óperu og er að gefa út nýja plötu í samstarfi við Jean-Benoit Dunckel úr franska tvíeykinu Air undir nafninu Starwalker. Óperan Red Waters, sem hann samdi með frönsku tónlistarkonunni Keren Ann hefur verið flutt í nokkrum óperuhúsum í Frakklandi. „Nú er verið að gera teiknimynd eftir óperunni.  Við höfum reynt að fá að setja hana upp á Íslandi en það virðist vera meiri áhugi fyrir svölum hlutum í Frakklandi en hér heima," útskyrir hann. Barði bætir við að hann sé að fást við klassískt tónverk um þessar mundir og meira muni koma ljós um það síðar. 

Ekki allir sem föttuðu Konfekt

Á meðal þeirra fjölbreyttu verkefna sem Barði hefur tekið að sér á ferlinum er að vera annar umsjónarmanna menningarþáttarins Konfekt sem var sýndur á Skjá Einum fyrir rúmum áratug þar sem hann meðal annars hrækti, kastaði upp og kveikti að lokum í leikmyndinni. „Við vorum að taka öðruvísi viðtöl en gengur og gerist. Á þessum tíma voru allir sjónvarpsþættir eins. Við vorum að gera það sem okkur sjálfum hafði alltaf langað að sjá í sjónvarpinu. Flestir hötuðu þættina en þeir sem föttuðu þá eru ennþá að tala um þá." Barði segir að hann vilji gjarnan gera aðra þáttaröð af Konfekt. „Ég er samt ekki viss um að nein sjónvarpsstöð sé tilbúin til þess að fjárfesta í Konfekt númer 2." 

Gísli Pálmi í uppáhaldi

Aðspurður um hvort hann hafi áhuga á samstarfi við einhverja nýja og upprennandi íslenska tónlistarmenn, til dæmis Gísla Pálma svarar hann að Gísli Pálmi sé í miklu uppáhaldi. „Loksins eignaðist Ísland alvöru stjörnu. Hann er skemmtilegur og ég myndi verða mjög ánægður ef ég fengi að vinna að einhverju með honum." En er eitthvað sem enginn veit um Barða Jóhannsson? „Já" svarar hann og brosir. „Ég er ekki vampíra. Ég er bara venjulegur maður sem drekkur blóð, þolir ekki dagsbirtuna og er með ofnæmi fyrir hvítlauk."

Ítarlegra viðtal við Barða Jóhannsson um nýju Bang Gang plötuna má finna á Iceland Monitor HÉR. 

Stiklu úr teiknimyndinni Red Waters eftir óperu Barða og Keren má sjá hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kemst ekki upp með neitt þessa dagana og á því að leggja spilin á borðið. Treystu innsæi þínu og láttu það eftir þér að gera það sem þig langar.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Jojo Moyes
5
Moa Herngren
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kemst ekki upp með neitt þessa dagana og á því að leggja spilin á borðið. Treystu innsæi þínu og láttu það eftir þér að gera það sem þig langar.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Jojo Moyes
5
Moa Herngren