Álfar vilja ekki nýjan flugvöll

Ragnhildur Jónsdóttir í Álfagarðinum í Hellisgerði.
Ragnhildur Jónsdóttir í Álfagarðinum í Hellisgerði. mbl.is/Golli

Ragnhildur Jónsdóttir í Álfagarðinum í Hellisgerði segir mikla byggð álfa og huldufólks vera á því svæði Hvassahrauns sem stýrihópur ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair telur henta einna best fyrir nýjan innanlandsflugvöll. Segir hún það alveg ljóst að álfar vilji ekki flugvöll inn á sitt byggðasvæði.

„Hvað álfa snertir þá er þessi hugmynd alveg hræðileg,“ segir Ragnhildur í samtali við mbl.is og bendir á að í Hvassahrauni sé blómleg byggð álfa og huldufólks. En á því svæði sem stýrinefnd telur henta vel undir nýjan innanlandsflugvöll segir Ragnhildur álfa stunda atvinnustarfsemi, landbúnað og sjósókn auk þess sem fjölmargir álfar eigi þar fasta búsetu árið um kring.

„Í þessu hrauni eru margar tegundir af álfum, dvergar og huldufólk og eru þetta þeirra bæir. Margir þeirra eru bændur og eru því með kindur inni á milli í klettunum en aðrir búa nærri fjörunni og eru því með báta sem þeir nota við veiðar,“ segir Ragnhildur.

Að sögn hennar stunda álfar almennt, og þá einnig þeir sem í Hvassahrauni búa, aðra og meiri atvinnustarfsemi en landbúnað og sjósókn. Eru þeir til að mynda einnig með ferðaþjónustu á borð við þá sem þekkist í mannheimum auk þess sem álfar eru þekktir fyrir að stunda ýmis önnur störf.

Álfar halda til fjalla

Ragnhildur segist hafa áhyggjur af því hversu hart hefur verið gengið á landsvæði álfa í gegnum tíðina.

„Það er alltaf verið að taka meira og meira af íbúðarsvæði álfanna. En líkt og einn álfur úti í Gálgahrauni orðaði við mig - „Það er bara ekki öllum gefið að búa uppi á hálendi.“ Það geta bara ekki allar verur búið þar, ekki frekar en við mannfólkið,“ segir Ragnhildur og bendir á að æ fleiri álfar neyðast nú til þess að yfirgefa heimili sín vegna ágangs manna á landsvæði þeirra og flytja upp á hálendið í von um annað og betra líf.

Aðspurð segir hún það mjög erfitt fyrir álfa að flytja upp á hálendið. „Þar er mjög stutt sumar og allra veðra von. Þar eru einnig tröll, hálftröll og fjallaverur. Hálendið hentar þeim og sumum tegundum af dvergum,“ segir Ragnhildur. Þeir álfar sem á hálendinu búa eru að sögn hennar oft á tíðum mun „harðari af sér“ en meðal álfur. Geta þeir því harkað af sér við erfiðar aðstæður.

Segir Ragnhildur aðspurð tröllin á hálendinu eiga það til að reiðast mjög fljótt. Gerir þetta samskipti álfa við tröll erfið.

„Tröllin eru mjög misjöfn. Yfirleitt eru þau frekar einföld í sér og reiðast því mjög fljótt. En álfarnir kunna þó ákveðnar aðferðir til þess að bregðast við því - þeir syngja róleg lög og dugar það til þess að róa tröllin niður.“ Nái álfar hins vegar ekki að róa tröllin með söng sínum geta þau verið mjög hættuleg.

Munu álfar berjast gegn nýjum flugvelli?

Í gegnum tíðina hafa álfar verið þekktir fyrir að streitast á móti þegar gengið er á rétt þeirra og landsvæði. Hafa vegavinnuflokkar til að mynda þurft að kljást við hrekkjótta álfa sem eyðilagt hafa fyrir þeim vinnutæki í von um að tefja framkvæmdir.

Spurð hvort við getum átt von á slíku verði af framkvæmd nýs flugvallar í Hvassahrauni svarar Ragnhildur: „Ég þori nú ekki að segja til um það en best er að vinna þessa hluti í sátt við álfa og náttúru.“ Álfar eru að hennar sögn friðelskandi verur en engu að síður líklegir til þess að verja sín svæði rétt eins og mannfólkið.

Mynd/Mannvit
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson