Áforma átak í íbúðabyggingum í Reykjavík

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

Reykjavíkurborg áformar að gera átak í að einfalda verkferla í skipulags- og byggingamálum og breyta verklagi í þeim málaflokkum til að stuðla að því að efla og hraða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í borginni. Samþykkt var í borgarráði að setja á laggirnar sérstakan átakshóp með byggingaraðilum, starfsfólki borgarinnar sem vinnur að skipulagsmálum, arkitektum og öðrum sem að byggingamálum koma, til að hraða íbúðauppbyggingu í borginni.

Sjónum verður beint að byggingarreitum í borginni sem þegar eru tilbúnir en einnig er áformað að brjóta nýtt land fyrir íbúðarbyggð. Þar er litið til Úlfarsárdals, Grafarvogs og Kjalarness.

„Við erum þegar búin að tapa tæpu ári á yfirstandandi hávaxtaskeiði, þar sem ný verkefni hafa ekki farið af stað. Við sjáum áhyggjur Samtaka iðnaðarins varðandi áform uppbyggingaraðila varðandi nýframkvæmdir á þessu ári. Reykjavíkurborg hefur sett sér það markmið að vera leiðandi í íbúðaruppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum tvöfaldað lóðaframboðið á þessu kjörtímabili. Við höfum gert samning við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um að greiða fyrir íbúðauppbyggingu. Nú erum við að bregðast við þessu ástandi sem uppi er í þjóðfélaginu og þurfum að leita allra leiða til þess að rjúfa kyrrstöðuna,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri í samtali við Morgunblaðið.

Einar segir að breytingin sem samþykkt var í gær sé m.a. í því fólgin að skipulagsferlinu þurfi ekki að vera lokið áður en byggingarframkvæmdir hefjist, þannig að verkefnin verði unnin samhliða eins og kostur sé. Vitað sé að unnt sé að byggja 2.600 íbúðir á byggingarhæfum lóðum í Reykjavík nú þegar.

Reykjavíkurflugvöllur áfram

Þá tekur hann af öll tvímæli um það að ekki verði hróflað við Reykjavíkurflugvelli í náinni framtíð, enda sé ekki hægt að horfa framhjá þeirri miklu óvissu sem ríki um mögulegt flugvallarstæði í Hvassahrauni.

Beðið sé skýrslu um stöðu mála þar sem koma eigi út í mars og þá þurfi stjórnvöld að ákveða í hvaða farveg flugvallarmálin verði sett. Hann segir að eðlilega sé Vatnsmýrin framtíðarbyggingarland fyrir Reykjavík en samkomulag sé um að flugvöllurinn verði þar sem hann er þar til búið verði að byggja annan flugvöll sem leysi Reykjavíkurflugvöll af hólmi.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert