„Þetta er erfiðara en þið haldið“

Iggy Pop á ATP í gærkvöldi.
Iggy Pop á ATP í gærkvöldi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Public Enemy, Iggy Pop OG Belle and Sebastian? Já. Öll í röð. Gærkvöldið á ATP var frábært. Tónlistarhátíðin All Tomorrow's Parties er búin að stimpla sig harkalega inn í tónlistarhátíðaflóru Íslands, sem var fjölskrúðug fyrir.

Fyrsta kvöld ATP gefur hátíðinni í fyrra ekkert eftir. Þegar ég mætti á gamla varnarsvæðið þar sem hátíðin er haldin mætti mér einhver óhugnanlegur hljóðveggur. Vinir mínir sem höfðu mætt fyrr höfðu hrökklast út úr tónleikasalnum undan miskunnarlausu döbbsteppi The Bug. Meira að segja þegar við stóðum fyrir utan tónleikasalinn í Suðurnesjarigningunni fundum við tónlistina merja innri líffæri okkar. Ég þorði ekki einu sinni inn til að ná mér í bjór.

Belle and Sebastian.
Belle and Sebastian. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Fegurðin við hátíðir sem þessa er auðvitað að það er ekki allt fyrir alla. Ég var aðallega kominn til að sjá Belle and Sebastian, hljómsveit sem ég kynntist fyrir alvöru á tónleikum þeirra í Vínarborg í fyrra.

Myndasyrpa: Iggy Pop í ham á ATP

ATP-hátíðin er ef til vill búin að taka við keflinu af Iceland Airwaves sem töffarahátíðin hér á landi. Hátíðin er haldin á gömlum flugvelli, rétt eins og Airwaves var fyrst. Núna er Airwaves hins vegar orðin fullorðin og flutt í Hörpu. Stemningin sem fólst í því að standa í röðum fyrir utan tónleikastaðina í nístingskulda í nóvember hefur vikið fyrir skandinavískri hönnun Nýja Íslands.

Gleði á ATP.
Gleði á ATP. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Bestu tónleikar sem ég hef séð“

Bestu tónleikar sem ég hef séð voru á ATP. Að vísu ekki í gærkvöldi, heldur í fyrra þegar Portishead setti nýtt viðmið í tónleikahaldi á Íslandi, jafnvel víðar.

Ári síðar fæ ég enn gæsahúð þegar ég hugsa til þeirra tónleika, angistarinnar í rödd Beth Gibbons, aðalsöngkonu hljómsveitarinnar, og suðsins í eyrunum þegar ég lagðist á koddann og tilfinningarinnar þegar ég vaknaði morguninn eftir: „Þetta voru flottustu tónleikar sem ég hef séð.“ Og ég var ekki einu sinni aðdáandi Portishead. Ég er það í dag.

Beth Gibbons söngkona Portishead á ATP í fyrra.
Beth Gibbons söngkona Portishead á ATP í fyrra. Arnar Bergmann Sigurbjörnsson

Ég fór því með töluverðar væntingar á hátíðina í gær. Í stuttu máli stóð hátíðin algjörlega undir þeim væntingum. Public Enemy skiluðu sínu frábærlega, þrátt fyrir að hafa verið upp á sitt besta fyrir 20 árum.

Þeir gerðu mikið úr því að hér væri sko ekki um neitt helvítis átótún (e. auto tune) að ræða, allur söngur sem við heyrðum kæmi beint frá raddböndum þeirra. Hljóðblöndunin á hátíðinni var þó kannski ekki upp á sitt besta, þannig að maður þurfti að leggja sig allan fram við að heyra almennilega hvað þeir sögðu.

Pubilc Enemy.
Pubilc Enemy. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

111 og 68 ára

Eins og til að kynna Iggy Pop til sögunnar benti Chuck D á að samanlagður aldur hans og Flavor Flav væri 111 ár, sá fyrrnefndi 55 ára og síðarnefndi 56 ára. „Þetta er erfiðara en þið haldið,“ sögðu þeir. Eftir það tóku þeir eitt sitt þekktasta lag, Harder Than You Think. Sviðsframkoma þeirra var eftir bókinni, hoppandi um eins og fjandinn væri á eftir þeim, með félaga sína á kantinum, klædda í hermannabúninga eða veiðigalla eftir því hvern þú spyrð, í því hlutverki að hvetja áhorfendur áfram.

Uppklapp hljómsveitarinnar var fullkomlega í anda þeirra. Frekar en að spila eitt lag enn komu þeir boðskap sínum á framfæri: Það er tvennt í þessum heimi sem þeir fyrirlíta. Rasismi og aðskilnaðarhyggja (e. separatism). Við erum öll eins, og jöfn fyrir almættinu, sögðu þeir. Öll heimsins vandamál stafa af því að okkur er skipt upp eftir kyni, kynþætti, trú eða aldri. Síðan hvöttu þeir áhorfendur til að gefa rasisma og aðskilnaðarhyggju löngutöng. „Takk fyrir,“ sögðu þeir, „takk fyrir Ísland. Þetta eru bestu viðtökur sem við höfum nokkurn tíma fengið.“

Iggy Pop.
Iggy Pop. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Næstur á svið var ofvirka risaeðlan Iggy Pop. Hann var nokkurn veginn nákvæmlega eins og við var að búast, nema aðeins meira. Þegar hann steig á svið var hann í leðurjakka og gallabuxum svo þröngum að framhandleggurinn á mér kæmist tæplega fyrir í báðum skálmunum.

Iggy hefur samið og spilað tónlist frá árinu 1960. Hann hefur því úr óhugnanlega mörgum lögum að velja þegar hann kemur fram á tónleikum. Iggy var ekkert að tvínóna við hlutina, heldur flutti lagið The Passenger nánast í byrjun tónleika sinna.

Forskrift allra sveitaballalaga

Lagið er í senn ótrúlega einfalt og stórkostlega skemmtilegt. Mín kenning er að allir íslenskir sveitaballahljómsveitagítarleikarar hafi eingöngu hlustað á þetta lag á mótunarárum sínum, því gítarleikurinn í því er uppistöðuefnið í öllum lögum hljómsveita frá 10. áratug síðustu aldar, og fyrstu árum þessarar aldar, sem heita Sól-eitthvað. Prófið að spila lagið og gaula „Rangur maður“ eða eitthvað annað við það:

Það sama gæti átt við um Barfly eftir Jeff Who. Skemmtilegt nokk þá syngur David Bowie bakraddir í laginu, en gæti af röddinni að dæma allt eins verið Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra.

Iggy Pop spilaði hvern slagarann á fætur öðrum, til dæmis Lust for Life og I Wanna Be Your Dog í upphafi tónleikanna. Það voru kannski að einhverju leyti mistök hjá kallinum, því þegar síga tók á seinni hluta tónleikanna fór áhorfendaskarinn að þynnast og lögin að verða ókunnuglegri. Það er kannski heiðarlegt af honum, spila fyrst lögin sem allir vilja heyra, síðan lögin sem hann langar til að spila.

Hér er rétt að staldra við og þakka hátíðarhöldurum fyrir vel skipulagða dagskrá. Gert var ráð fyrir hálftíma á milli allra atriða þannig að jafnvel þótt dagskráin riðlaðist aðeins gafst alltaf tóm til að komast aftur á réttan kjöl. Hvert atriði byrjaði því nánast á slaginu. Vel gert, ATP.

Belle and Sebastian.
Belle and Sebastian. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Í takt við það komu Belle and Sebastian á sviðið stundvíslega klukkan kortér í tólf. Eini ókosturinn við tónleikana þeirra, sem er rétt að draga fram strax, er að hljómsveitin gaf út nýja plötu í janúar á þessu ári. Þegar hljómsveitir gefa út nýjar plötur sjá þær sig alltaf knúnar til að spila efni af nýju plötunni, sem enginn þekkir nema hörðustu aðdáendur, og kostar dagskrána sum af þeirra þekktustu lögum.

Spila á tónleikum, vaska upp, sækja börnin, spila á tónleikum

Að því sögðu: Belle and Sebastian voru frábær. Hljómsveitin hefur margoft komið til Íslands og meðal annars spilað á Bræðslunni. Hljómsveitin lítur satt að segja ekki út eins og hljómsveit sem hefur starfað í 20 ár. Eins og til að toppa eigin krúttleika sungu þau til að mynda afmælissönginn fyrir Jönu, sem greinilega átti afmæli. Engir stjörnustælar þar.

Fólk skemmti sér konunglega á ATP.
Fólk skemmti sér konunglega á ATP. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Flest líta þau út eins og þau hafi tekið sér stutt frí frá störfum sínum sem endurskoðendur eða heimavinnandi húsfeður til að spila gleðipopp í gamalli herstöð. Gleðipopp er sennilega besta leiðin til að lýsa tónlistinni þeirra. Lög eins og Another Sunny Day og I Want The World To Stop eru eins og gleðipillur fyrir eyrun.

Hvorugt þeirra heyrðist hins vegar á tónleikunum. Að sama skapi spurði hljómsveitin á einum tímapunkti hvort þau ættu að spila eitthvað rólegra eða halda fjörinu gangandi. Eitthvað rólegra hefði að öllum líkindum verið Piazza New York Catcher, eitt þeirra þekktasta lag. Það fáum við hins vegar aldrei að vita, því partíinu var haldið áfram.

Belle and Sebastian.
Belle and Sebastian. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Þrátt fyrir það átti hljómsveitin salinn og kvöldið. Að vanda buðu þau á að giska 30 manns úr salnum að koma upp á svið til að dansa við lögin The Boy with the Arab Strap og Legal Man. Fólkið virtist að einhverju leyti valið af handahófi, en samt eins og það væri allt gripið beint út úr Bítlatímabilinu. Legal Man hefur líka einhverja Bítlaáru yfir sér.

Eins og gefur að skilja virkar ekkert betur á áhorfendaskarann en að fá fólk upp á sviðið til sín. Það geta allir fundið sig í einhverju af glöðu andlitunum á sviðinu. Til að kóróna tónleikana fékk einn aðalsöngvari hljómsveitarinnar gráan hatt að gjöf frá einni af stelpunum sem komu upp á sviðið og söng og spilaði með hann á höfðinu það sem eftir var af tónleikunum. Þegar hljómsveitin hætti gerðu áhorfendur allt sem í þeirra valdi stóð til að fá þau aftur á svið og klöppuðu og hrópuðu löngu eftir að rótarar voru komnir á svið og hættu ekki fyrr en ljósin voru kveikt. Þá var klukkan orðin tæplega eitt og tími til kominn að fara heim, þrátt fyrir að Run The Jewels ættu eftir að spila.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes