Mætir Jóhann á Óskarinn?

Jóhann á rauða dreglinum á BAFTA verðlaununum í fyrra.
Jóhann á rauða dreglinum á BAFTA verðlaununum í fyrra. Photo: AFP

Jóhann Jóhannsson, sem tilnefndur er til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í kvikmyndinni Sicario, hefur ekki enn látið sjá sig á rauða dreglinum.

Fyrir því kann að vera sú einfalda ástæða að bandarísku stjörnuvaktinni þyki Jóhann ekki jafn merkilegur og stoltum löndum hans sem heima sitja en miðað við það sem fram kom á Eddu verðlaununum fyrr í kvöld er alls óvíst að hann mæti.

Jóhann var verðlaunaður ásamt þeim Hildi Guðnadóttur og Rutger Hoedemækers fyrir tónlistina í sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð. Þar sem enginn verðlaunahafanna var á svæðinu steig Sigurjón Kjartansson á svið ásamt móður Hildar. Eftir að sú síðarnefnda hafði fært þakkir fyrir hönd dóttur sinnar steig Sigurjón í pontu.

„Jóhann gat því miður ekki verið hér í kvöld, hann er á annarri verðlaunaafhendingu,“ sagði Sigurjón, og salurinn svaraði með hlátri. Þá greip móðir Hildar hinsvegar inn í. „Nei, hann er í Ástralíu.“ 

Uppákomuna má sjá hér á mínútu 1:14:00.

Mbl.is hefur ekki náð tali af Jóhanni og getur því ekki staðfest hvar hann er staddur á þessari stundu. Líklegt má þykja að það komi ekki í ljós nema hann hreppi verðlaunin því þá fer hann annað hvort upp á svið, eða einhver fyrir hans hönd líkt og á Eddunni.

Eitt er víst að það verður ekki Sigurjón Kjartansson eða mamma hennar Hildar.

mbl.is