Skreið nakinn um gólf

Curver dregur sig eftir gólfinu í Marseille á meðan Illugi …
Curver dregur sig eftir gólfinu í Marseille á meðan Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra heldur ræðu við setningu menningarhátíðar. Ljósmynd/Jóhannes Stefánsson

Myndlistarmaðurinn Curver Thoroddsen flutti einn umtalaðasta gjörning seinni ára á 17. júní við setningu íslenskrar menningarhátíðar, Air d'Islande, í Marseille í Frakklandi. Gjörningurinn, „Nektarskrið“, fólst í því að Curver skreið, eða dró sig öllu heldur, kviknakinn eftir gólfi Théâtre de la Criée í rúma klukkustund og m.a. undir ávarpi fjallkonunnar og ræðu Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra.

Myndband sem einn gesta tók af gjörningnum fór í kjölfarið eins og eldur í sinu um Facebook og myndir af gjörningnum sem rataði einnig í franska fjölmiðla. Eins og við má búast þegar listamenn skríða naktir um gólf hafa skoðanir verið skiptar á listrænu gildi gjörningsins, netverjar allt frá því að vera yfir sig hrifnir yfir í að vera yfir sig hneykslaðir.

Frétti af viðbrögðunum þremur dögum síðar

„Ég gerði þennan gjörning á föstudagskvöldinu, 17. júní, og svo fór nú allur laugardagurinn í fótboltaleikinn og opnun á sýningu sem var hluti af þessari hátíð. Síðan var ég bara að ferðast heim á sunnudag og mánudag þannig að það er ekki fyrr en ég kem heim í gær (mánudag) að ég sé að eitt myndskeiðið var búið að skoða 11.000 sinnum á Facebook og þetta orðið nett „viral“, búið að dreifa þessu út um allt og allir með ýmsar skoðanir á þessu. Ég hafði ekki hugmynd um það á meðan ég var á leiðinni heim,“ segir Curver, spurður út í viðbrögðin við gjörningnum. „Ég hef aldrei lent í þessu fyrr, ekki á þennan hátt,“ bætir hann við.

– Það er auðvitað viðbúið þegar myndlistarmaður skríður um gólf allsber að einhverjir spyrji hvort þetta sé list...

„Já, það er búið að spyrja að því í skrilljónir ára. Ég held að fólk viti alveg svarið við því en hvort þetta sé góð eða slæm list er kannski annað.“

– Er ekki svarið bara já, þetta er list og þá er sú spurning afgreidd?

„Jú, þetta er auðvitað list,“ segir Curver og hlær.

Góð tenging

Sem fyrr segir var gjörningurinn fluttur í opnunarhófi hátíðarinnar sem ráðherra setti að loknu ávarpi fjallkonunnar sem flutt var á frönsku og íslensku. „Það hitti nú bara þannig á að ég var að gera þennan gjörning, sem tekur rúman klukkutíma í framkvæmd, á meðan á þessari móttöku stóð. Það var skemmtileg tilviljun að á meðan ég er á leiðinni þarna framhjá eru þau með þessar ræður,“ segir Curver.

„Í rauninni er ég bara að skríða þarna um rýmið, skríð heilan hring um allt rýmið og það tók gríðarlega mikið á. Ég var gjörsamlega búinn á því og er enn að jafna mig líkamlega og þetta tekur líka á andlega. Ég fer að skríða í byrjun kvöldsins og það hittir bara þannig á að þegar ég á leið framhjá ræðupúltinu eru fjallkonan og ráðherrann að halda sínar ræður. En auðvitað var það samt góð tenging.“

Þjáning

– Hvernig þá? Og nú kemur að stóru spurningunni: Hvað ertu að segja með þessum gjörningi?

„Þetta er gjörningur sem ég flutti fyrst árið 2006 og hef flutt hann þrisvar eða fjórum sinnum. Þetta er mikill sparigjörningur hjá mér og ég hef flutt hann við stór tækifæri. Inntakið eða lesturinn á þessu er dálítið í augum áhorfandans, hvernig fólk les úr þessu. Ég er alveg opinn fyrir því af því hann er algjörlega „neutral“. Ég er eins „neutral“ og hægt er að vera, þ.e. nakinn. Þá kemur maður beint fram eins og maður er, það er ekkert sem stendur á mér eða er hengt á mig, ég er bara að skríða þarna þennan hring. Það er gífurlega erfitt að skríða svona, draga sína eigin líkamsþyngd með höndunum og olnbogunum og ég skerst líka við þetta og fæ brunasár. Fólk sem horfir á þetta tekur alveg eftir þjáningunni, að þetta er erfitt.

Þannig að þetta spilar inn á „pathos elementið“, ég er varnarlaus og berskjaldaður og í mjög erfiðri athöfn. Þetta spilar beint inn á þetta sammannlega, maður sér að þarna er manneskja að reyna á sig og það sem ég er mikið að hugsa um í þessu er barningur mannsins í gegnum lífið, allt sem við þurfum að takast á við, hindranirnar sem verða í vegi okkar. Það var t.d. gríðarlega erfitt að skríða yfir eina mottuna sem var svona bastmotta, það tók ekki minna á andlegu hliðina en þá líkamlegu að skríða yfir hana (hlær). Þetta fjallar í rauninni um lífið og hvað við erum að takast á við.“

Ólíkar túlkanir

– Það er kannski ósmekklegt af mér að spyrja en eru fjölskyldudjásnin í lagi eftir þetta?

„Það er svo ótrúlegt að mannslíkaminn virðist vera hannaður til að gera þennan gjörning,“ segir Curver og hlær innilega. „Þegar ég flutti hann fyrst fyrir tíu árum hafði ég miklar áhyggjur af þessu en það er algjörlega í lagi með fjölskyldudjásnin.“

– Heldurðu að þessu myndbandi verði dreift um allan heim?

„Ja, þetta er auðvitað komið í frönsku pressuna og 11.000 hafa horft á þetta hérna heima. Það er reyndar alveg stórkostlegt að í einhverju 17. júní partíi hérna á Íslandi var gjörningurinn endurgerður sama kvöldið,“ segir Curver og skellihlær.

– Þú verður örugglega heimsfrægur fyrir þennan gjörning...

„A.m.k. heimsfrægur á Íslandi.“

Varð hugsað til flóttamanna

Curver segist hafa heyrt ýmsar ólíkar túlkanir á gjörningnum. Einum hafi dottið í hug Bjartur í Sumarhúsum, öðrum Icesave og þannig mætti áfram telja. „Þetta er auðvitað að gerast á sama tíma og Ísland er að taka þátt í fyrsta skipti í EM og allt í gangi en ég fór mikið að hugsa um flóttamenn sem eru í þessum barningi, að glíma við mikla erfiðleika á meðan við erum að halda upp á 17. júní í Suður-Frakklandi með hvítvíni og ostum. Það eru ótrúlegir peningar sem fara í þetta Evrópumót í fótbolta og maður fer að hugsa um hvað það myndi muna miklu ef einhver hluti af þeim peningum færi í flóttamannahjálp.“

Curver segir að sér hafi þótt ótrúlega sorglegt að sjá Austurvöll girtan af á 17. júní og tengir það við gjörninginn. „Maður gæti líka litið á þetta þannig að ég sé þarna í líki íslensku þjóðarinnar sem þarf að skríða áfram á skítugu gólfinu á meðan fína fólkið er að loka sig af. Þetta er magnaður kontrast við það. Hver veit nema maður þurfi að skríða um Austurvöll á næsta ári?“ segir Curver og hlær. „Þetta hefur greinilega snert við mörgu fólki, mörgum fannst þetta einhvern veginn vera móðgun við fjallkonuna og Ísland en mér finnst nú eiginlega meiri móðgun við fjallkonuna, Ísland og þjóðina alla að girða af Austurvöll.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes