Uppbrot fantasíunnar á sviði

Brogan Davison (til hægri á myndinni) og Pétur Ármannsson sömdu …
Brogan Davison (til hægri á myndinni) og Pétur Ármannsson sömdu leikverkið Stripp með Olgu Sonju Thorarensen leikkonu (til vinstri). mbl.is/Freyja Gylfa

„Verkið er byggt á persónulegri sögu, minni sögu, af því að vinna á strippstað í Berlín og við leikum okkur á milli raunveruleikans og skáldskaparins,“ segir Olga Sonja Thorarensen leikkona, en hún frumsýnir nýtt íslenskt leikverk, Stripp, í samvinnu við leikhópinn Dance For Me í Tjarnarbíói 24. ágúst kl. 19 á hátíðinni Everybody's spectacular. Að hátíðinni lokinni 2. september verður verkið sérstök opnunarsýning fyrir leikárið í Tjarnarbíói ásamt því að verða sýnt á Oktoberdans Festival í BIT Teatergarasjen í Noregi.

Það eru Brogan Davison og Pétur Ármannsson sem mynda leikhópinn Dance For Me en þau unnu verkið í samvinnu við Olgu. „Þegar hún sagði mér söguna fannst mér hún margbrotin og áhugaverð. Ég sá mikla möguleika í því að vinna þetta á sviði og vakti þetta áhuga minn bæði persónulega og á listrænan hátt,“ segir Brogan en verkið er unnið upp úr dagbókum sem Olga hélt á meðan hún starfaði sem strippdansari.

„Erum ekki að sjokkera“

Verkið er sagt róttækt og spennandi í tilkynningu og til þess fallið að vekja spurningar hjá áhorfanda um hlutverk kvenna í samfélaginu og leikhúsi, líkama kvenna og drusluskömm. „Maður vill vera á þeim stað þegar maður er að skapa að maður sé að fara einhverjar nýjar leiðir – erum ekki að „sjokkera“ heldur vekja spurningar og varpa öðru ljósi á hlutina,“ segir Olga en markmið þeirra hafi ekki verið að setja upp sýningu með eða á móti strippdansi.

Í verkinu eru tengingarnar milli leikhússins og strippstaðarins skoðaðar en staðirnir eigi það sameiginlegt að fólk fari þangað í leit að fantasíu. „Það sem vakti líka áhuga okkar var þegar fantasían leystist upp – þegar raunveruleg augnablik urðu til inni á strippstaðnum og urðu súrrealísk í þessum aðstæðum,“ segir Olga en þau hafi farið í nokkrar rannsóknarferðir á strippstaði við gerð verksins. Nefnir hún sem dæmi að strippdansararnir þrífi ávallt súluna með hreinsilegi áður en þeir taki til við dansinn á sviðinu. „Við erum svolítið að vinna með það í formi sýningarinnar – uppbrotið á fantasíunni.“

Vildi nýta reynslu sína

„Í gær fór ég í einkaherbergið. Hans borgaði mér 1.000 evrur og ég gerði eiginlega ekki neitt. Við settumst í nuddpottinn og töluðum um kapítalisma, sem hann elskar. Ég sagði honum að ég hefði ekki kynmök við viðskiptavinina og hann sagði að það væri allt í lagi. Hann langaði bara að „fühle mich“.“ Þetta segir í dagbókarfærslu Olgu frá 5. september 2013 en hún hóf upphaflega störf sem strippdansari til að greiða upp skuld. „Ég áttaði mig svo á því eftir að ég byrjaði að vinna þarna að þetta hefði ákveðin áhrif á mig og væri eitthvað sem ég þyrfti að gera eitthvað meira með,“ segir hún en þannig hafi dagbókarskrifin hafist sem urðu á endanum grunnur sýningarinnar Stripp.

„Þetta var ekki íþyngjandi upplifun heldur starf sem ég tók að mér og var mjög ólíkt öllu því sem ég hafði gert áður og vissulega eitthvað sem kom mér á óvart. Það opnaði augu mín fyrir því að heimurinn er ekki bara svartur og hvítur – að mínu mati er öll reynsla góð og þroskar mann á einhvern hátt,“ segir Olga en hún tekur fram að þetta sé persónuleg reynsla hennar og vissulega séu margir gallar sem hún sjái við þennan starfsvettvang.

Vinnur með raunveruleikann

Aðspurð hvort leiklistarmenntunin hafi nýst henni í starfi sem strippari segir hún svo vera. „Það er smáleikur í þessu og ég fór alltaf smá í einhvern karakter þarna inni og einhverja hliðarsjálfu.“

Leikhópurinn Dance For Me hefur áður sett á laggirnar sýningarnar Dansaðu fyrir mig og Petru, síðast á Akureyri vorið 2013 og þau hafa einnig sýnt víða um heim á alþjóðlegum listahátíðum.

Olga Sonja er lærður leikari og dansari og hefur unnið með Signa við verkefnið Club inferno í samstarfi við Volksbühne, Berlín. Hún stofnaði einnig sviðslistahópinn TBN í samstarfi við fleiri og sýndi verkið Meat á F.I.N.D. hátíðinni í Berlín. „Þær sýningar sem ég hef sett upp áður voru í rauninni á allt öðru formi en í báðum tilfellum var ég að vinna með raunveruleikann,“ segir Olga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes