Hjartað slær örast neðanjarðar

„Þetta verður gott partí
„Þetta verður gott partí" segir Brianna Price um tónleikana í Hörpu.

Lokadagur Sónar tónlistarhátíðarinnar er í dag og koma fram nokkrar af stærstu stjörnum hennar, m.a. Fatboy Slim og De La Soul. Um miðnætti, í bílastæðakjallara hússins, hefur hins vegar leik kanadísk tónlistarkona, plötusnúður, tónlistarútgefandi og þáttagerðarmaður á BBC Radio 1, Brianna Price, sem gengur undir listamannsnafninu B. Traits.

Price er fædd árið 1986 og hóf aðeins 16 ára að koma fram sem plötusnúður í heimalandi sínu. Að lokinni skólagöngu fékk hún verkefni í Norður-Ameríku og Evrópu og fluttist síðar til Lundúna. Árið 2012 sendi hún frá sér lagið „Fever“ en í því naut hún liðsinnis söngkonunnar Elisabeth Troy. Lagið naut mikilla vinsælda í Bretlandi, komst í 36. sæti breska lagalistans og sama ár hóf hún að gera tónlistarþætti fyrir fyrrnefnda útvarpsstöð breska ríkisútvarpsins. Í fyrra stofnaði hún útgáfufyrirtækið In-Toto, gaf út EP-plötuna Still Point og eftir sex daga kemur sú næsta út, Basic Scenario.

Átti ekki vegabréf

„Ég er fædd og uppalin í smábænum Nelson í Kanada, þar búa aðeins um tíu þúsund manns og lítið við að vera. Þegar ég var ung uppgötvaði ég plötuspilara, fór að safna vínylplötum og byrjaði að koma fram sem plötusnúður,“ segir Price, spurð að því hvernig ferillinn hófst. Hún segist einkum hafa safnað plötum með downtempo-, trip hop- og jungle-tónlist. „Þegar ég lauk miðskóla fluttist ég til Vancouver og fór að spila þar og í kjölfarið um allan heim. Ég hafði aldrei farið áður til útlanda, átti ekki einu sinni vegabréf,“ segir Price og hlær.

– Hvernig myndirðu lýsa tónlistinni þinni, þeirri sem þú flytur núna?

„Ég sanka miklu efni að mér og spila mjög fjölbreytta tónlist, bræðing af teknó og house og lög sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Ég legg mikla áherslu á takt og trommur þannig að það er mikið af áhugaverðu slagverki og óvenjulegu bassatrommumynstri í tónlistinni.“

– Eru lögin sem þú hefur gefið út ólík tónlistinni sem þú flytur sem plötusnúður?

„Já, sum þeirra eru það núna. Fyrsta platan sem ég gerði kom út fyrir nokkrum árum og hún var meiri poppplata og varð mjög vinsæl í Bretlandi. Tónlistin sem ég bý til í dag er meira instrúmental og ekki eins formúlukennt danspopp. Hún er meira neðanjarðar og með árunum hef ég áttað mig á að þar slær hjarta mitt örast. Ég spila mín eigin lög þegar ég kem fram sem plötusnúður og nýt þess virkilega.“

Skemmtilegt starf

– Þú stýrir vikulegum þætti á BBC Radio 1, The B. Traits Show, á föstudögum. Segðu mér aðeins frá honum, hvernig tónlist spilarðu?

„Þeir leyfa mér að spila sömu tónlist og ég myndi spila á næturklúbbi, það er mikið til teknó og tilraunakennd danstónlist. Þetta er neðanjarðartónlist, ekki tónlist sem þú býst við að heyra í breska ríkisútvarpinu. Ég er neðanjarðarplötusnúður BBC og það er virkilega skemmtilegt starf,“ segir Price. Það taki langan tíma að safna efni í hvern þátt, að baki liggi mikil leit á netinu að nýrri og spennandi tónlist og hún fái feikilegan fjölda tölvupósta með ábendingum og tónlist í viku hverri, auk þess að vera í stöðugu sambandi við færa plötusnúða. „80% af tónlistinni sem ég leik eru glæný og mér finnst það líka skylda mín að kynna nýja tónlistarmenn,“ segir hún.

Price spilar undir nafninu B. Traits.
Price spilar undir nafninu B. Traits.

– Nú er plötusnúðaheimurinn mjög karllægur. Var erfitt fyrir þig að hasla þér völl í honum, að fá að spila og öðlast viðurkenningu?

„Já, sér í lagi þegar ég var yngri. Ég þurfti að spila jafnvel og strákarnir, ef ekki betur, svo þeir hefðu ekkert út á mig að setja. Ég hef verið plötusnúður í rúm tíu ár og margt hefur breyst á þeim tíma. Staða kynjanna er miklu jafnari í tónlistarbransanum en hún var,“ svarar Price. Nú sé fjöldi hæfileikaríkra kvenna í faginu og því beri að fagna. Konur verði að standa saman í þessu fagi líkt og svo mörgum öðrum þar sem karlar eru í miklum meirihluta.

Mjög ólíkar plötur

–Í næstu viku kemur út önnur plata þín á vegum In-Toto. Hvernig er hún í samanburði við þá fyrri?

„Þær eru mjög ólíkar,“ segir Price. Fyrri platan sé rólegri en sú nýja og lagrænni, takturinn hægari og tónlistin meira í ætt við house og breikbít. Sú nýja verði hins vegar taktþung og hröð klúbbaplata.

Price segist mjög spennt fyrir Íslandsferðinni en hún hefur aldrei komið hingað áður. Hún kemur af fjöllum þegar blaðamaður segir henni að hún muni leika í bílastæðakjallara Hörpu. „Það er frábært! Þetta verður gott partí,“ segir hún, full tilhlökkunar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes