„Það er ekkert stærra en sólin“

SSSól á æfingu í Háskólabíói miðvikudaginn sl.
SSSól á æfingu í Háskólabíói miðvikudaginn sl. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hljómsveitin Síðan skein sól hélt sína fyrstu tónleika í Hlaðvarpanum í miðbæ Reykjavíkur, þar sem Tapasbarinn er nú til húsa, 25. mars árið 1987 og á laugardaginn, sléttum 30 árum síðar, heldur hljómsveitin upp á 30 ára tónleikaafmælið með tvennum tónleikum í Háskólabíói og er uppselt á báða.

Hljómsveitin hélt ferna tónleika þetta ár og síðan tók við stíft tónleikahald í félagsmiðstöðvum, skólum og ýmsum tónleikastöðum borgarinnar og árið 1989 hélt hún í hringferð um landið, sk. kassatúr, þar sem hún lék að mestu órafmagnað. 

Síðan skein sól varð fljótlega ein vinsælasta hljómsveit landsins og sendi frá sér margan smellinn, lög á borð við „Blautar varir“, „Geta pabbar ekki grátið“, „Ég verð að fá að skjóta þig“, „Halló ég elska þig“, „Ég stend á skýi“ og „Toppurinn“, „Dísa“, „Vertu þú sjálfur“ og þannig mætti áfram telja. Lög sem voru grípandi og einkenndust af aðgengilegum og oft frumlegum textum Helga Björnssonar, söngvara og forsprakka sveitarinnar. 

SSSól á þaki Íslandsbanka við Lækjargötu í maí árið 1999. …
SSSól á þaki Íslandsbanka við Lækjargötu í maí árið 1999. Þar tók hljómsveitin upp myndband við lagið ,,Þú ert ekkert betri en ég". mbl.is/Jón Svavarsson



Lítill tími til æfinga
Upphaflegir liðsmenn Síðan skein sólar voru, auk Helga, Jakob Smári Magnússon bassaleikari, Eyjólfur Jóhannsson gítarleikari og Pétur Grétarsson trommuleikari en Ingólfur Sigurðsson tók fljótlega við kjuðunum af Pétri. Helgi og Jakob höfðu áður starfað saman í hljómsveitinni Grafík og Eyjólfur hafði leikið með Tappa tíkarrassi.
Spurður að því hvort þeir félagar hafi strax í upphafi ákveðið hvernig hljómsveit þetta ætti að vera, þ.e. hvernig tónlist hún myndi flytja, segir Helgi svo ekki vera. „Við byrjuðum bara að spila og það var svolítið merkilegt að við vorum að vinna sex kvöld í viku, við Pétur, og áttum bara eitt fríkvöld sem við tímdum ekki eyða í æfingar,“ segir hann en þeir Pétur unnu saman í söngleiknum Land míns föður, Pétur var í hljómsveitinni og Helgi einn aðalleikara. Eyjólfur og Jakob voru líka að vinna alla daga þannig að hljómsveitin átti erfitt með að finna tíma til æfinga. „Sem þýddi það að fyrstu tvo, þrjá mánuðina æfðum við bara á messutíma, kl. 11 á sunnudögum,“ segir Helgi og hlær. Fyrstu æfingarnar hafi farið þannig fram að hann mætti með kassettutækið sitt, sem var með innbyggðum hljóðnema, setti 60 mín. langa kassettu í það, ýtti á upptöku og svo var bara djammað.

En hvaða hljómsveitir var Helgi að hlusta á, á þessum tíma, hverjir voru áhrifavaldarnir? Hann nefnir m.a. hljómsveitirnar R.E.M. og U2. „Ég hef alltaf verið hrifinn af sálinni í rokkinu eins og t.d. U2 náði fram, þessu „catharsis“,“ segir Helgi. „Ég man að 1988, þegar við vorum nýbyrjaðir, vorum við líka með svona tvö til þrjú tökulög, tókum t.d. „Heart of Gold“ með Neil Young og eitthvað lag með Credence Clearwater,“ bætir hann við. Sólin hafi því líka verið með annan fótinn í góðu og gömlu bandarísku rokki. „En svo var þetta einfaldlega þannig að það var bara talið í, Ingó kom með eitthvað grúv, bassaleikarinn byrjaði að gera eitthvað, gítarleikarinn kom með og svo bjó ég bara til melódíu ofan á þetta,“ segir Helgi um lagasmíðarnar. „Grunnurinn var bara saminn svona fyrstu árin.“

Vel klæddir liðsmenn SSSólar árið 1992.
Vel klæddir liðsmenn SSSólar árið 1992. Ljósmynd/Spessi



Fékk unglinga upp á svið
Síðan skein sól fékk strax góðar viðtökur, á fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar í Hlaðvarpanum. „Ég var mjög ögrandi, það var eitthvert „gameplan“ hjá mér, “ segir Helgi kíminn. „Hlaðvarpinn var pínulítill staður, mjög lágt undir loft og það var góð mæting. Snjónum kyngdi niður og Jakob festist á leiðinni úr Hafnarfirði. Allt í veseni og á síðustu stundu,“ rifjar hann upp.
Fyrsta árið hélt hljómsveitin ferna tónleika, m.a. á skólaballi í Tónabæ með hljómsveitum sem höfðu verið í Músíktilraunum, Bleiku böstunum og Stuðkompaníinu. Þegar Ingólfur gekk svo til liðs við sveitina hófst mikil spilamennska. „Við spiluðum mjög mikið í félagsmiðstöðvum, ég samdi við Íþrótta- og tómstundaráð um að greiða okkur 250 þúsund krónur fyrir að spila í öllum félagsmiðstöðvum Reykjavíkur. Fyrir þann pening fór ég í Japis og keypti hljóðkerfi sem kostaði 250 þúsund kall,“ segir Helgi sposkur.
Félagsmiðstöðvarnar voru sex talsins og segist Helgi hafa á þeim tónleikum fengið unga hljóðfæraleikara úr hópi gesta upp á svið. „Það endaði þannig að ég var kominn með nýtt band fyrir aftan mig og við tókum eitthvað lag sem allir kunna þegar þeir eru að byrja, „Wild Thing“ t.d.. Ég söng með og stundum náði ég í söngvara líka og þá var komið nýtt band. Seinna meir hafa komið til mín alls konar gaurar úr megaböndum, Brain Police, Botnleðju og fleirum, sem fengu smjörþefinn af því að leika í hljómsveit þarna,“ segir Helgi og hlær.

Síðan skein sól á ljósmynd sem tekin var árið 1990 …
Síðan skein sól á ljósmynd sem tekin var árið 1990 fyrir umslag plötunnar Halló, ég elska þig. mbl.is/Þorkell Þorkelsson



14-20 ára kjarni
Síðan skein sól var vinsæl meðal unglinga á sínum tíma enda spilaði hún mikið í framhaldsskólum og í félagsmiðstöðvum. Textar Helga frá þessum tíma virðast margir hverjir ortir til unglinga og hann er spurður að því hvort sú sé raunin. „Við erum að spila fyrir krakka á aldrinum 14 til tvítugs og það má segja að sá aldurshópur sé kjarninn í aðdáendahópnum. Við vorum að spila mest fyrir þennan aldur fyrstu árin og eflaust hefur það haft einhver áhrif. Maður er að tala beint við þetta fólk og fer að semja „mamma, ég get ekki gert það sem þú segir“ og fleira á þeim nótum. En þetta var nú ekki allt þannig,“ svarar hann.
–Blundaði í þér skáld?
„Nei, þetta var alltaf frekar af nauðsyn. Ég hef aldrei litið á mig sem mikinn orðsmið,“ segir Helgi. Hann hafi í textum sínum viljað tala beint til áhorfandans frekar en að mála torræðar, illskiljanlegar myndir. Því hafi textar hans verið blátt áfram og á talmáli. „Þetta var meðvitað val, sumir myndu kannski segja að þetta sé ódýrt kveðið á köflum en það þjónaði mér og því sem við vorum að gera. Þegar þú ert að spila á tónleikum, ert með rokk og ról í gangi og að reyna að koma skilaboðum út í skarann, þar sem er mikill hávaði og læti, fannst mér þetta einfaldari leið til að ná til fjöldans og meira spennandi en að vera í skáldlegum, óræðum og upphöfnum orðaleikjum sem hefðu ekki komist til skila. En þetta er val.“

SSSól með turninn í Borgartúni í bakgrunni.
SSSól með turninn í Borgartúni í bakgrunni. Ljósmynd/Spessi



Sex Puffins hlaut ekki brautargengi
–Nafnið á hljómsveitinni er fallegt og bjart yfir því …
„Já, þegar við vorum að leita að nafni langaði mig alltaf í svolítið stórt nafn og það er ekkert stærra en sólin. Ég sá fyrir mér að hljómsveitin yrði kölluð Sólin, „Sólin er að koma“ og „Sólin er að fara að spila“, það var mikil stærð í því. En það var fullmikið að hún héti bara Sólin,“ segir Helgi kíminn.
En hvernig stóð á því að nafninu var breytt í SSSól? Jú, Síðan skein sól var komin á mála hjá plötufyrirtækinu Diva Records í Lundúnum og tók upp heila plötu þar með lögum á ensku. Nafn hljómsveitarinnar hentaði hins vegar ekki enskumælandi hlustendum og hófst þá leit að nýju. „Ég kom með eina hugmynd sem mér fannst frábær, Sex Puffins, en það nafn var ekki samþykkt,“ segir Helgi og hlær. Nafnið SSSól hafi í raun komið frá upptökumanni hljómsveitarinnar þar ytra. Hann hafi merkt kassa með upptökum hljómsveitarinnar með þessum hætti, SSSól. Var þá ákveðið að hljómveitin myndi heita það framvegis. 
„Fyrir jólin 1992 höfðum við ekki verið með neina útgáfu, vorum búnir að einbeita okkur að þessu verkefni og búnir að taka upp mikið efni á ensku sem okkur fannst ekki passa fyrir heimamarkað. Þessi tónlist var ólík því sem við höfðum áður gert, kraftmeiri og mjög hart rokk á köflum þannig að við ákváðum að gefa út blað sem við kölluðum SSSól. Við kynntum þar með nafnið og með blaðinu fylgdi tveggja laga diskur,“ segir Helgi. Blaðið hafi verið „fullorðins“, með lærðum greinum eftir Dr. Gunna o.fl. og meðal efnis í því var tískuþáttur. „Í einhverju blaði, Helgarpóstinum eða Pressunni, höfðum við verið kosnir verst klædda hljómsveit landsins, sumarið áður. Mér fannst við verða að svara þessu þannig að við vorum með tískuþátt þar sem við vorum rosalega flottir í tauinu,“ segir Helgi og að annað lagið á diskinum sem fylgdi með hafi veri tengt tískuþættinum, lagið „Toppurinn“ en í því er sungið um að það sé toppurinn að vera í teinóttu.



Óvænt heljarstökk
Ekki er hægt að sleppa Helga Björns án þess að fá eina litla rokksögu. „Við vorum að spila á Hlöðum í Hvalfjarðarsveit og í þá tíð voru hljóðkerfin ansi stór og smíðuð utan um hátalarana stór box,“ segir Helgi. Á þessum tónleikum hafi verið þriggja kassa stæða á sviðinu sem hann hafi klifrað upp á. Stæðan hafi staðið uppi við vegg og hann hallað sér fram krjúpandi og haldið í vegglampa til að styðja sig. Í miðjum flutningi á „Satisfaction“ eftir Rolling Stones hafi lampinn óvænt brotnað af veggnum og hann fallið fram fyrir sig, úr um þriggja metra hæð. „Ég er að syngja „I can’t get no…“ og fer þá skyndilega í heilan hring, eiginlega heljarstökk en lendi á fótunum á gólfinu og held áfram að syngja „…satisfaction.“. Ég missti ekki bít, þetta var ótrúlegt!“ segir Helgi með leikrænum tilþrifum og hlær.
–Hvað á svo að spila í Háskólabíói? „Best of“ SSSól?
„Jú, jú, við reynum að taka lög frá öllum tímum, alveg frá fyrsta lagi til þess síðasta.“
–Þú ferð ekki að klifra upp á neitt?
„Nei, nei, maður gerir minna af því þessa dagana.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes