„Leiklistin ögrar tíma og rúmi“

Franska leikkonan Isabelle Huppert samdi ávarp í tilefni Alþjóðlega leiklistardagsins …
Franska leikkonan Isabelle Huppert samdi ávarp í tilefni Alþjóðlega leiklistardagsins sem er í dag, 27. mars. AFP

„Leiklistin er lifandi list, – svo lifandi að hún ögrar tíma og rúmi. Flest samtímaleikrit hafa nærst á stórkostlegum afrekum fyrri alda og elstu sígildu leikritin verða nútímaleg og þróttmikil í hvert sinn sem þau eru enn einu sinni leikin. Leikhúsið er síkvikt og endurnýjar sig í sífellu og heldur sér þannig á lífi,“ skrifar franska leikkonan Isabelle Huppert í ávarpi sínu í tilefni af Alþjóðlega leiklistardeginum sem haldinn er hátíðlegur í dag, en Hafliði Arngrímsson þýddi. 

Isabelle Huppert fæddist í París 16. mars árið 1953 og stundaði nám í Conservatoire d‘art Dramatique í París. Hún hefur leikið í meira en eitt hundrað kvikmyndum og unnið öll helstu kvikmyndaverðlaun heims að undanskildum Óskarsverðlaununum sem hún var tilnefnd til nú í vetur sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir leik sinn í kvikmyndinni Elle. Hún hefur leikið í ótal sviðsetningum leikhúsa, ekki einungis í Frakklandi heldur einnig í Rússlandi, á Ítalíu, Portúgal, Bretlandi, Sviss, í Ástralíu og Bandaríkjunum og víðar.

Alþjóðlegi leiklistardagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur síðan 1961 fyrir tilstuðlan Alþjóðaleiklistarstofnunarinnar (ITI).

„Þegar ég skrifaði þetta ávarp skoðaði ég ýmislegt, meðal annars gladdi það mig að komast að því, að það var Jean Cocteau, sem samdi fyrsta ávarp Alþjóðlega leiklistardagsins árið 1962 og algerlega við hæfi sem höfundur bókarinnar Umhverfis jörðina aftur á 80 dögum. Þar með áttaði ég mig á því að ég hef ferðast um heiminn á annan hátt. Ég gerði það í 80 leiksýningum eða í 80 kvikmyndum. Ég tek kvikmyndir með í reikninginn vegna þess að ég aðgreini ekki leik á leiksviði og kvikmyndaleik, sem kemur jafnvel sjálfri mér á óvart í hvert sinn sem ég segi þetta, en þannig er það, ég sé engan raunverulegan mun á þessu tvennu.

Þegar ég tala hér er ég ekki ég sjálf, ég er ekki leikkona, ég er einungis ein margra sem starfa við leiklist og stuðla að því að hún lifi áfram.  Okkur finnst það skylda okkar og um leið þörf okkar – eða með öðrum orðum: Við látum leikhúsið ekki vera til, það er fremur leikhúsinu að þakka að við séum til. Leiklistin er svo jötunsterk. Hún sýnir viðnám og stendur allt af sér, styrjaldir, ritskoðun, fátækt.

Það nægir að segja „leiksviðið er nakið svið óákveðins tíma“ – allt sem það þarfnast er leikari. Eða leikkona. Hvað ætla þau að gera? Hvað ætla þau að segja? Ætla þau að tala? Áhorfendur bíða. Þeir vita að án þeirra er engin leiklist til. Gleymum því aldrei. Ein mannvera er áhorfandi. En vonum samt sem áður að auð sæti séu ekki mörg!“

Isabelle Huppert þegar hún tók við Cesar-verðlaununum í París í …
Isabelle Huppert þegar hún tók við Cesar-verðlaununum í París í febrúar fyrir túlkun sína í kvikmyndinni Elle. AFP

Og áfram heldur Huppert: „Alþjóðlegi leiklistardagurinn var stofnaður fyrir 55 árum. Ég er áttunda konan sem hefur þegið boð um að flytja ávarp – það er að segja ef hægt er að kalla þetta ávarp. Fyrirrennarar mínir (verður að vera í karlkyni) töluðu um leikhús hugmyndaflugs, frelsis og frumleika til að vekja fegurð, fjölmenningu og leggja fram spurningar sem ekki er hægt að svara. Árið 2013, fyrir aðeins fjórum árum, sagði Dario Fo:  „Til að komast út úr krísunni væri óskandi að reynt verði með skipulögðum hætti að hrekja okkur á brott, ekki síst unga fólkið sem vill mennta sig í leiklistinni; að leiklistarfólki verði tvístrað öðru sinni, enda myndi slík áþján án efa verða ólýsanlegur ávinningur fyrir listformið og endurnýja það.“ Ólýsanlegur ávinningur – hljómar eins og gott atriði sem væri þess virði að setja inn í ópólitíska dagskrá eins og þessa, ekki satt…?

Þar sem ég er í París rétt fyrir forsetakosningar, langar mig að leggja til að þau sem virðast vilja stjórna okkur ættu að vera meðvituð um ólýsanlegan ávinning sem leiklistin hefur í för með sér. En mig langar einnig að undirstrika: Engar nornaveiðar!

Leiklistin er í mínum huga annað, hún er samtal handan haturs. Vinátta milli þjóða – nú er ég ekki viss um hvað það þýðir, en ég trúi á samfélag, í vináttu áhorfenda og leikara, í órjúfanlegu bandalagi allra leikhúsa – leikskálda, þýðenda, búningahöfunda, leikmyndahöfunda, þeirra sem skapa, þeirra sem flytja og þeirra sem koma í leikhúsin. Leikhúsið verndar okkur; veitir okkur skjól [...] Ég er viss um að leikhúsið elskar okkur [...] jafnmikið og við elskum það [...].

Ég man eftir gömlum sýningarstjóra sem ég vann með einu sinni. Á hverju kvöldi, áður en fortjaldið lyftist, kallaði hann fullum hálsi: „Gefið leiklistinni pláss.“ Þetta verða mín lokaorð í kvöld.

Takk fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur mun meiri áhrif á umhverfi þitt en þú sjálfur heldur. Gættu þess að þú fáir þá viðurkenningu sem þú átt skilið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Anna Sundbeck Klav
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur mun meiri áhrif á umhverfi þitt en þú sjálfur heldur. Gættu þess að þú fáir þá viðurkenningu sem þú átt skilið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Anna Sundbeck Klav