Ættbálkurinn ofar öllu

Bandaríska blaðakonan Katherine Zoepf lýsir lífi ungra kvenna í Miðausturlöndum …
Bandaríska blaðakonan Katherine Zoepf lýsir lífi ungra kvenna í Miðausturlöndum í bókinni Framúrskarandi dætur.

Árásin á tvíturnana í New York í september 2001 hafði mikil áhrif á bandarísku blaðakonuna Katherine Zoepf sem var nýbyrjuð í starfi sem aðstoðarkona dálkahöfundar hjá New York Times þegar árásin var gerð. Í kjölfar hennar fékk hún mikinn áhuga á arabalöndum, fluttist til Damaskus í Sýrlandi árið 2004 til að læra arabísku og bjó í Sýrlandi og fleiri löndum fyrir botni Miðjarðarhafs næstu ár. Á meðan hún dvaldi á þeim slóðum var hún í lausamennsku fyrir New York Times og fleiri fjölmiðla, auk þess sem hún starfaði um tíma á Bagdad-skrifstofu blaðsins.

Fyrr í vor kom út á íslensku bókin Framúrskarandi dætur eftir Zoepf, en í bókinni lýsir hún veruleika ungra kvenna í Mið-Austurlöndum og segir frá lífi þeirra í Sýrlandi fyrir borgarastyrjöldina, í Líbanon, Abú Dabí, Sádi-Arabíu og í Egyptalandi. Það skín í gegn í bókinni hvað konurnar sem hún ræðir við hafa mikla þörf fyrir að segja sögu sína og í viðtali segir Katherine Zoepf að margar af þeim konum sem hún ræddi við í Mið-Austurlöndum sætti sig ekki við að þeim sé sífellt lýst sem fórnarlömbum. „Þær sjá sig ekki í þeirri lýsingu, sem mér fannst forvitnilegt. Eftir því sem ég eyddi meiri tíma fyrir botni Miðjarðarhafs áttaði ég mig á því að það væri ekki rétt að lýsa þeim bara sem fórnarlömbum og líta þannig framhjá þeirra baráttu og því hvernig þær væru að breyta samfélaginu innanfrá á sinn hátt.“

Ímyndaðir yfirburðir

- Ég las forvitnilega grein eftir hollensku blaðakonuna Flavia Dzodan fyrir stuttu þar sem hún benti á að sannfæringin um yfirburði okkar sé svo inngróin að hún liti viðhorf okkar til þeirra sem ekki eru hvítir, sama hve velviljuð við teljum okkur vera.

„Þetta er hárrétt og rímar vel við nokkuð sem ég hef verið að kynna mér í félagssálfræði, sem má kallast ímyndaðir yfirburðir, en þá ofmetur viðkomandi getu sína og yfirburði samanborið við getu annarra. Í hvaða félagshópi sem er er tilhneiging til að trúa því að þú og þeir sem eru líkir þér séu hæfari en þeir sem tilheyra öðrum hópum, áreiðanlegri, heiðarlegri og siðlegri.

Þetta á við um mannkynið allt og því trúa allir að þau gildi sem þeir eru aldir upp við séu öðrum gildum fremri. Það er eitt af því sem gerir okkur erfitt fyrir þegar við ræðum við fólk í Mið-Austurlöndum um það sem við teljum augljóst og sjálfgefið eins og mannréttindi fyrir alla – hver vill ekki málfrelsi og félagafrelsi?

Málið er bara það að fyrir þeim sem alist hafa upp í samfélagi þar sem einstaklingsréttindi eru ekki sjálfgefin eða almenn, þar sem sjálfsmynd fólks byggist frekar á því að vera hluti af samfélagi eða hóp en að vera einstaklingur og þarfir hópsins ganga fyrir þörfum meðlima hans, er það óskiljanlegt þegar við birtumst með okkar hugmyndir um einstaklingsfrelsi, þeim finnst eins og við séum að tala niður til þeirra.“

Upptekin af slæðum

- Í viðtali við New York Times þegar bókin þín kom út nefnir þú það þegar ung sýrlensk kona furðaði sig á því hve útlendingar hefðu mikinn áhuga á hijab, slæðunni sem margar múslimakonur bera. Þegar ég las það rifjaðist upp fyrir mér viðtal við unga konu frá Sádi-Arabíu sem fór til náms í Bretlandi og kunni frelsinu vel, nema að því leyti að hún varð fyrir aðkasti fyrir það að ganga með slæðu.

„Mér fannst sem konur í Mið-Austurlöndum og arabablöndum væru líka mjög uppteknar af slæðunni, að þær væri alltaf að tala um hana, þannig að ég var ekki sammála því að þetta væri bara þráhyggja meðal vestrænna blaðamanna. Unglingsstúlkur í Sádi- Arabíu eiga það til dæmis til að tala illa um stúlkur sem sýna of mikið af húðinni í kringum augun, eða láta sjást í augabrúnirnar. Síðar áttaði ég mig á því að þetta snerist ekki um slæður heldur er þetta miklu frekar birtingarmynd af þeirri tilhneigingu að stýra því hverju konur klæðast og slíkt er til í öllum samfélögum.

Það er líka innbrennt í konur, við erum oft mjög uppteknar af því hvernig aðrar konur klæðast og okkur hættir líka til að meta aðrar konur og flokka eftir því í hvernig fötum þær eru. Með tímanum hef ég því hallast frekar að því að spurningin um slæðu eða ekki sé eitthvað sem þurfi að ræða á almennum grunni, þetta snýst um mun meira en hijab.

Ég var svo lánsöm að fá að taka viðtal við egypska femínistann Nawal El Saadawi og hún sagði að förðun kvenna væri í raun „vestrænt nikab“ [fatnaður sem hylur allan líkamann nema augun]. Henni finnst hræsni í því að Vesturlandabúar gagnrýni hijab og nikab en finnist það í góðu lagi að vestrænar konur hylji andlit sín með farða og að samfélagslegur þrýstingur á konur í arabalöndum sé mjög svipaður og samfélagslegur þrýstingur á vestrænar konur að þekja andlit sín með varalit, hyljara og kinnalit. Allt sé þetta sprottið af djúpstæðri andspyrnu gegn því að sjá og viðurkenna raunveruleg andlit kvenna.“

Vildu að sögurnar yrðu sagðar

- Eins og ég nefni kemur vilji kvennanna til að segja sögur sína vel fram í bókinni, en hversu erfitt var að ná því fram, að fá þær til að segja allt af létta?

„Margar af þessum konum voru fyrstu vinkonur mínar í Mið-Austurlöndum og margar þeirra urðu nánar vinkonur mínar og ég átti kannski erfiðast með verkið; að finnast sem ég hefði rétt til að segja sögu þeirra því það væri svo margt í þeirra samfélagi og trú sem ég hefði ekki þekkingu eða skilning til að segja frá. Þær voru þó á öðru máli, þær vildu að þessar sögur yrðu sagðar, að þeirra raddir fengju að heyrast. Stundum gerðu þær athugasemdir við sumt sem ekki mátti segja frá opinberlega og stundum vildu þær ekki vera nefndar með fullu nafni.

Svo hefur eitt af því sem veitt hefur mér hvað mesta gleði vegna bókarinnar verið að ungar konur í Bandaríkjunum hafa haft samband við mig eftir að bókin kom út og sagt að hún hafi orðið þeim innblástur til að segja sjálfar frá,“ segir Zoepf.

Stjórnir gamalla karla

- Eitt af því sem er merkilegt þegar maður lítur til Mið-Austurlanda er að átta sig á hve stór hluti íbúanna er ungur, nærfellt helmingur er undir 15 ára aldri í sumum þeirra og mikill meirihluti yngri en þrítugur.

„Því miður stýra gamlir karlar flestum þessum löndum og það á ýmislegt eftir að ganga á áður en það breytist, en krafan um breytingar verður æ háværari. Mjög fjölmennar kynslóðir eru að sækja sér menntun og til að mynda útskrifast fleiri konur úr háskólum en karlar í löndunum við Persaflóa og margar konur kjósa að stunda nám til að losna við að giftast mönnum sem þær kæra sig ekki um; einhverjum sem fjölskyldan hefur valið.“

- Annað sem vefst fyrir okkur á Vesturlöndum er hve afstaða fólks til trúarinnar, til íslams, er breytileg milli landa, eins og má meðal annars lesa í bókinni.

„Það er gríðarmikill munur á því hvernig íslam er túlkað á milli landa og líka mikill munur innan landa, á milli landshluta og jafnvel á milli ættbálka.“

Hitti fyrir yngri útgáfur af mér

- Í inngangi að bók sinni um Sádi-Arabíu, On Saudi Arabia, nefnir Karen Elliott House, fyrrverandi ritstjóri The Wall Street Journal, hve henni hafi fundist menningarlegt umhverfi kunnuglegt við komuna til landsins, enda hafi hún alist upp í smábæ í Texas þar sem trúin var ráðandi í samfélaginu og öldungar kirkjunnar réðu því sem þeim sýndist. Í bókinni þinni kemur einnig fram að þú fékkst mjög kristilegt uppeldi, upplifðir þú það sama?

„Ég fann ekkert sérstaklega fyrir því í Sádi-Arabíu, en ég upplifði það oft fyrstu árin mín fyrir botni Miðjarðarhafs að ég var að tala við táningsstúlkur sem voru að upplifa það sama og ég hafði gengið í gegnum á sínum tíma, hitti fyrir yngri útgáfur af sjálfri mér, stúlkur sem elskuðu fjölskyldur sínar, en voru að átta sig á því að þær langaði ekkert endilega til að lifa lífi sínu á sama hátt og foreldrar þeirra eða höfðu aðrar hugmyndir um trúna en þau.

Ég átti líka eldri bróður sem naut meiri réttinda en ég vegna þess að hann var strákur og í ljósi trúarinnar sem ég var alin upp við þurfti að gæta stúlkna sérstaklega. Kannski varð það til þess að mér fannst ég ekki eins mikill útlendingur þegar ég talaði við þær og aðrir vestrænir blaðamenn upplifa hugsanlega.

Það að vera alin upp í trúarlegu umhverfi auðveldaði mér líka að spyrja um trúarleg atriði og ná lengra í þeim spurningum en blaðamenn sem ekki hafa fengið trúarlegt uppeldi og eiga því erfiðara með að setja sig í fótspor trúaðra.“

Réttindi kvenna byggjast á gæslumanni þeirra

- Við höfum rætt um konur í Sádi-Arabíu, en hvað með karlana? Telur þú að sádi-arabískir karlar séu almennt sáttir við stöðu kvenna þar í landi?

„Ég hitti fjölmarga í Sádi-Arabíu sem kenndu konum sínum að keyra bíl, sem hvöttu þær til að leita sér menntunar og sem fluttu með þeim milli borga til að komast nær skóla sem hentaði þeim. Vandamálið við Sádi-Arabíu er að öll réttindi kvenna byggjast á gæslumanni þeirra. Ef sá gæslumaður er framsýnn og frjálslyndur nýtur konan réttinda og frelsis og jafnvel áþekkra möguleika og konur í Bandaríkjunum eða á Íslandi. Margar þeirra kvenna eru líka sáttar við samfélagið, finnst þær njóta nógra réttinda og eru sáttar við að mega ekki keyra eða vera einar á ferð, enda áttum við okkur oft ekki á því sem við njótum fyrr en það hverfur.

Svo eru dæmi eins ung kona sagði mér um frænku sína. Frænkan var þekktur skurðlæknir og fór víða um heim á ráðstefnur til að afla sér þekkingar. Þegar eiginmaður hennar lést skyndilega varð sextán ára sonur hennar gæslumaður hennar og hann var að ganga í gegnum heittrúartímabil, eins og er mjög algengt með unga karlmenn á gelgjuskeiðinu í Sádi-Arabíu, þeir verða ekki uppreisnargjarnir, þeir verða trúaðir, og hann bannaði henni að vinna og ferðast.

Á Vesturlöndum byggjum við allt á réttindum einstaklingsins og leggjum mikið á okkur til að vernda þau réttindi, eins og ég nefndi áðan, en í Mið-Austurlöndum, og þá sérstaklega í Persaflóaríkjunum, er lagaumhverfi allt öðruvísi, það er hannað til að tryggja réttindi ættbálksins og það skapar mikla erfiðleika fyrir þá sem standa höllum fæti, fátæka karla og allar konur,“ segir Zoepf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þú sért skipulagður sjálfur geturðu ekki ætlast til að aðrir séu eins. Vandamálin geta vel verið fyrir hendi, þótt enginn sjá þau nema þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þú sért skipulagður sjálfur geturðu ekki ætlast til að aðrir séu eins. Vandamálin geta vel verið fyrir hendi, þótt enginn sjá þau nema þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes