„Snýst um það að vera manneskja“

Snorri Engilbertsson, Björn Hlynur Haraldsson og Sólveg Arnarsdóttir í hlutverkum …
Snorri Engilbertsson, Björn Hlynur Haraldsson og Sólveg Arnarsdóttir í hlutverkum sínum sem Hofstad ritstjóri, Tómas Stokkmann og Petru Stokkmann. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

„Mér hefur í langan tíma fundist þetta verk mjög viðeigandi – held reyndar að það sé afar viðeigandi á mjög mörgum tímum,“ segir Una Þorleifsdóttir leikstjóri um Óvin fólksins eftir Henrik Ibsen sem frumsýndur er á Stóra sviði Þjóðleikhússins í kvöld.

„Það er áhugavert hvernig Ibsen tekst á við spurningarnar um sannleikann, hvort og hvernig lýðræðið virki, eðli stjórnmála, hlutverk fjölmiðla, náttúruvernd, eðli siðferðis og hvernig persónulegir hagsmunir og samfélagslegir takast á. Hann nær í 130 ára gömlu verki að draga fram spurningar sem virðast alltaf eiga við,“ segir Una sem þýddi verkið í samvinnu við Grétu Kristínu Ómarsdóttur, dramatúrg sýningarinnar, og saman unnu þær nýja leikgerð.

Óvinur fólksins fjallar um Tómas Stokkmann sem er læknir heilsubaða í smábæ nokkrum. Böðin eru hin nýja lífæð bæjarins og eiga að koma honum á kortið. Þegar Tómas uppgötvar heilsuspillandi mengun í böðunum krefst hann úrbóta. Í upphafi standa fjölmiðlar við hlið hans en þegar Petra Stokkmann, systir hans og bæjarstjóri, gerir íbúum ljóst hver fórnarkostnaður slíkra aðgerða væri fyrir bæjarfélagið fara að renna tvær grímur á fólk.

Vildu breyta kyni persóna

Spurðar hvers vegna þær hafi valið að vinna eigin leikgerð á leikritinu segja Una og Gréta nokkrar ástæður fyrir því. „Aðalástæðan var sú að okkur langaði að breyta kyni persóna. Okkur fannst ekki boðlegt að í verki sem fjallar um samfélagsleg málefni standi sjö karlmenn og tvær konur á sviðinu, því konur eru líka þátttakendur í stjórnmálum og valdhafar. Ef sýning á að gefa raunsanna mynd af samfélagi samtímans sem við getum speglað okkur í verður auðvitað að breyta því,“ segir Gréta. Í stað Péturs Stokkmanns bæjarstjóra er því komin Petra auk þess sem Ásláksen, meðeigandi Blaðsins og formaður félags atvinnurekenda, og Billing blaðamaður eru orðnir að konum. Eins og fram hefur komið leika Björn Hlynur Haraldsson og Sólveig Arnarsdóttir Stokkmann-systkinin Tómas og Petru. Lilja Nótt Þórarinsdóttir leikur Katrínu, eiginkonu Tómasar, og Snæfríður Ingvarsdóttir dóttur þeirra. Sigurður Sigurjónsson er Marteinn Kíl, verksmiðjueigandi og fósturfaðir Katrínar; Guðrún S. Gísladóttir er Ásláksen; Snorri Engilbertsson leikur Hofstad, ritstjóra Blaðsins; Lára Jóhanna Jónsdóttir er Billing og Baldur Trausti Hreinsson skipstjórinn Jóhann Horster.

Skerpa á kjarna verksins

„Jafnframt langaði okkur að uppfæra tungumálið inn í þá pólitísku orðræðu sem við þekkjum og heyrum dagsdaglega. Til þess þarf að þýða upp á nýtt og endurskrifa. Síðast en ekki síst langaði okkur að þétta textann og skerpa á kjarna hans til að ná utan um stóru spurningar verksins,“ segir Una og bendir á að seinni hluti leikritsins hafi þannig verið styttur töluvert.

„Að mínu mati verður samband Tómasar og Petru miklu dýnamískara við kynjabreytinguna á sama tíma og það verður tragískara. Með breytingunni tökum við stöðu kvenna í stjórnmálum og kynjavíddina inn í umræðuna. Staða stjórnmálamannsins verður meira marglaga ef hann er kona, sem er meira spennandi,“ segir Gréta.

„Ibsen skrifar inn í verkið Petru, dóttur Stokkmann-hjónanna, sem er kennslukona. Í samhengi verksins hefur hún frekar róttækar skoðanir. Hann er því að skrifa inn í verkið, eins og hann getur miðað við ritunartímann, konu sem berst fyrir frelsi. Við erum báðar sannfærðar um að hefði hann verið að skrifa þetta verk í dag hefðu kynjahlutföll persóna verið jöfn, því verkið snýst ekki á þann hátt um samskipti kynjanna. Verkið snýst um það að vera manneskja, um siðferði, pólitík og mannleg samskipti,“ segir Una og bendir á að Tómas minni ótvírætt á uppljóstrara í samtímanum á borð við Edward Snowden, Chelsea Manning, vísindamenn sem rannsaka loftlagsmál og þá sem börðust gegn Kárahnjúkavirkjun.

Una Þorleifsdóttir leikstjóri og Gréta Kristín Ómarsdóttir dramatúrg sýningarinnar.
Una Þorleifsdóttir leikstjóri og Gréta Kristín Ómarsdóttir dramatúrg sýningarinnar. mbl.is/RAX

Lifum á tímum síðsannleika

„Við teljum okkur hafa ógrynni af upplýsingum, en erum ekki fær um að greina hvað er satt. Hvernig getum við tekið upplýsta ákvörðun um mikilvæg og knýjandi málefni ef umræðan einkennist af hávaða? Ég er sjálf stundum ekki fær um að greina milli raunveruleikans og lyga í samhengi við stór málefni. Maður nær ekki að hugsa,“ segir Una. „Við lifum á tímum síðsannleika,“ bætir Gréta við. „Við erum hætt að treysta sérfræðingum og teljum álit þeirra ekki vega meira en álit næsta manns. Allar skoðanir eru jafnréttháar,“ segir Una og bendir á að um alþjóðlega þróun sé að ræða sem rekja megi a.m.k. þrjá áratugi aftur. „Þetta er mjög áberandi í allri umræðu um loftslagsmálin,“ segir Una og bendir á að barátta feli alltaf í sér fórnarkostnað. „Þá vaknar óhjákvæmilega spurningin hvort sé mikilvægara; sannleikurinn og siðferðið eða eiginhagsmunir,“ segir Una. „Á tímum samfélagsmiðla er auðveldara að fyrirgera æru sinni og mannorði opinberlega,“ segir Gréta og bendir á að sé baráttufólk jaðarsett geti það leitt til róttækari viðbragða eins og hryðjuverka.

„Markmið okkar er að lyfta öllum til jafns. Allir hafa eitthvað til síns máls í okkar uppsetningu. Það eru allir óvinir fólksins á einhverjum tímapunkti,“ segir Gréta. „Okkar pólitísku skoðanir skipta ekki máli og eiga ekki að vera í forgrunni. Við Gréta erum mjög góðir pennar fyrir okkar andstæðinga í verkinu. Okkur finnst mikilvægt að öll sjónarmið fái að heyrast og áhorfendur geti tekið afstöðu,“ segir Una og tekur fram að sér finnist tilfinnanlegur skortur á samræðu í samfélaginu um ýmis málefni. „Mér finnst við alltof fljót að reyna að banna fólki sem er ósammála okkur að hafa skoðanir. Einhvern veginn verðum við að geta talað saman og reynt að hafa samúð með þeim sem eru ósammála okkur. Einungis þannig komust við út úr því að hata hvert annað,“ segir Una.

Átök hins náttúrulega og manngerða

Í leikmynd Evu Signýjar Berger er náttúrunni stillt upp á móti yfirgnæfandi manngerðu byggingavirki sem minnir á rafmagnsmöstur eða byggingarkrana, en er að sögn aðstandenda hvorugt. Innt eftir hvað stýrt hafi útliti sýningarinnar bendir Una á að hún hafi lagt upp með það að allir leikararnir væru inni á sviðinu alla sýninguna og væru ávallt sýnilegir. „Verkið gerist í litlum bæ þar sem allir vita allt um alla og mikil nánd og tengingar eru milli fólks. Með leikmyndinni reynum við að undirstrika þetta og skapa tilbúinn heim sem bindur okkur ekki ákveðnum stað en skapar ýmis hugrenningatengsl. Verkið er skrifað við upphaf iðnbyltingarinnar og þar fara átök hins náttúrulega og manngerða að magnast í þjóðfélaginu,“ segir Una og bendir á að málmvirkið á sviðinu vísi þannig beint til iðnbyltingarinnar.

„Í búningum sínum vinnur Eva meira með tímaleysi. Verkið á sér langa uppsetningarsögu og okkur langaði að vísa í fortíðina og þessa sögu. Persónur verksins klæðast nútímafatnaði en með því að nota ákveðin minni úr tísku fyrri tíma, ásamt einfaldri litapallettu, skapast heildarmynd sem fjarlægir mann samtímanum. Þannig verða persónurnar nánast eins og draugar fortíðar í leikmyndinni,“ segir Una.

Björn Hlynur Haraldsson leikur Tómas Stokkmann, læknir heilsubaða í smábæ …
Björn Hlynur Haraldsson leikur Tómas Stokkmann, læknir heilsubaða í smábæ nokkrum. Böðin eru hin nýja lífæð bæjarins. Þegar Tómas uppgötvar heilsuspillandi mengun í böðunum krefst hann úrbóta. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Að semja inn í stærri ramma

Á liðnu leikári unnu Una og Gréta saman við uppfærslu Góðs fólks. Spurðar hvort mikill munur sé á því að setja upp nýtt leikverk eða klassík segist Una ekki velta því mikið fyrir sér. „Fólk mætir með sínar eigin hugmyndir um hvernig sýning eigi að vera hvort heldur verið er að setja upp leikgerðir á skáldsögum eða klassískum verkum. Ég lít alltaf svo á að þegar ég fæ handrit í hendurnar þá sé það upphafspunktur að einhverju ferðalagi. Hvort sem ég er sjálf höfundur leikgerðarinnar eða ekki er ég alveg óhrædd við að strika, henda og byrja upp á nýtt ef nálgunin krefst þess,“ segir Una.

Óvinur fólksins er fyrsta sýningin sem Una vinnur fyrir Stóra sviðið, en hún hefur unnið fimm sýningar í Kassanum. Aðspurð segir hún spennandi að vinna sýningu fyrir mun stærra rými. „Hér fæ ég tækifæri til að gera hluti sem ég hef ekki getað gert áður, bæði tæknilega og leikmyndarlega séð. Að sama skapi, af því að sviðið er svo stórt þá er auðveldara að búa til fleiri lög og leika sér með það. Sjónrænt og í sviðslegu samhengi er maður að semja inn í miklu stærri ramma. Ef við hugsum okkur sviðið sem lifandi málverk eða sjónræna upplifun erum við hér að vinna á miklu stærri skala en í Kassanum, sem mér finnst mjög spennandi og ögrandi fyrir mig,“ segir Una að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes