Gröf óþekkta flóttamannsins

Á leið til lífs | 24. nóvember 2018

Gröf óþekkta flóttamannsins

Á þriðja þúsund flóttamenn hafa drukknað á flóttanum yfir Miðjarðarhafið til Evrópu það sem af er ári en alls hafa tæplega 102 þúsund flóttamenn komist til lands. Af þeim hafa 22.500 komið til Ítalíu.

Gröf óþekkta flóttamannsins

Á leið til lífs | 24. nóvember 2018

Yfir tvö þúsund manns hafa drukknað á flóttanum til Evrópu …
Yfir tvö þúsund manns hafa drukknað á flóttanum til Evrópu í ár. AFP

Á þriðja þúsund flóttamenn hafa drukknað á flóttanum yfir Miðjarðarhafið til Evrópu það sem af er ári en alls hafa tæplega 102 þúsund flóttamenn komist til lands. Af þeim hafa 22.500 komið til Ítalíu.

Á þriðja þúsund flóttamenn hafa drukknað á flóttanum yfir Miðjarðarhafið til Evrópu það sem af er ári en alls hafa tæplega 102 þúsund flóttamenn komist til lands. Af þeim hafa 22.500 komið til Ítalíu.

Flestir þeirra sem koma að landi á Sikiley koma frá Afríku og er meirihluti þeirra ungir karlar. Þeir sem blaðamaður ræddi við og voru orðnir 18 ára segja ástæðuna fyrir flóttanum vera erfiðar aðstæður í heimalandinu, átök og að vera þvingaðir til að gegna herþjónustu, jafnvel áratugum saman.

„Þegar herinn sækir þig veistu ekki hvort þú átt möguleika á að snúa aftur heim eftir ár eða áratugi. Eða jafnvel aldrei, “ segir ungur maður frá Erítreu sem blaðamaður ræddi við í hafnarborginni Catania.

Hann var þrjú ár á flótta, þar af helminginn af tímanum í Líbýu og þar varð hann viðskila við eiginkonu sína þar sem smyglararnir héldu þeim föngnum á sitt hvorum staðnum. Hann hefur ekki hitt hana í átta mánuði en veit að hún er komin til Frakklands. Hann vonast til þess að þau nái saman en veit ekki hvenær eða hvort það verður.

Tæplega tvítugur flóttamaður frá Senegal hefur litla von um að fá dvalarleyfi sitt endurnýjað á Ítalíu vegna breyttra laga þar í landi. Hann var tvö ár að komast til draumalandsins og var einn þegar það varð að veruleika því besti vinur hans var skotinn af glæpamönnum á leiðinni þegar þeir voru ásamt sjö öðrum í flutningabíl smyglara á leið frá Sabha til Trípolí. Mannræningjar stöðvuðu flutningabílinn og röðuðu níumenningunum upp í röð og skutu þrjá þeirra af handahófi. Þeir sem eftir lifðu gátu síðar borgað sig lausa úr haldi.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Í kirkjugarðinum í Catania hvíla 260 óþekktir flóttamenn. Oft gengur illa að bera kennsl á þá sem farast á flóttanum, ekki síst vegna þess hversu margir eru skilríkjalausir og einir á ferð. Rauði krossinn í Catania er farinn að safna lífsýnum þeirra með aðstoð lögreglunnar en þetta er eini staðurinn á Ítalíu sem þetta er gert.

Vonir standa til þess að einhvern tíma verði hægt að bera kennsl á allt þetta fólk sem ekki tókst að komast á áfangastað á leið sinni til lífs.

Marco Rotunno, sem annast fjölmiðlatengsl fyrir Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) á Sikiley, segir að þetta sé gríðarlega mikilvægt og þarft verkefni sem vonandi verði komið á laggirnar víðar á Ítalíu. Ekki síst til þess að fólk fái upplýsingar um afdrif ástvina sem hverfa á flóttanum.

Silvia Dizzia og Riccardo Reitano starfa fyrir Rauða krossinn í …
Silvia Dizzia og Riccardo Reitano starfa fyrir Rauða krossinn í Catania á Sikiley. mbl.is/Gúna

Stærstu búðirnar á Ítalíu

Starfsmenn Rauða krossins í Catania, Silvia Dizzia og Riccardo Reitano, segja erfitt að segja nákvæmlega til um hversu margir flóttamenn hafi komið til Sikileyjar undanfarin ár þar sem margir hverfi inn í skuggahagkerfið fljótlega eftir komuna.

Flóttafólki hafi fækkað mjög mikið í ár og þar af leiðandi hafi Rauði krossinn aðstoðað mun færri en oft áður. Mineo-flóttamannabúðirnar á Sikiley eru sennilega stærstu flóttamannabúðir Ítalíu. Þær eru reknar af yfirvöldum og hafa ítrekað komist í fréttir fjölmiðla vegna ofbeldis- og spillingarmála sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi.

Alls eru þar um tvö þúsund manns en voru um tíma fjögur þúsund talsins. Ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að hýsa svo marga í búðunum sem þýðir að hreinlæti er ábótavant og eins öryggi þar sem fólk af ólíkum uppruna býr við bágbornar aðstæður.

Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, ætlar að fækka fólki í búðunum og draga úr rekstrarkostnaði. Áður kostaði hver hælisleitendi sem þar dvelur 29 evrur á dag en sá kostnaður á að lækka í 15 evrur. Sparnaður upp á 10 milljónir evra á ári.

Marco Rotunno segir að búið sé að gera töluverðar breytingar á Mineo-búðunum vegna tengsla glæpasamtaka við reksturinn.

Riccardo og Silvia segja Rauða krossinn reyna eftir fremsta megni að styðja fólkið sem þar dvelur. Margir bíði þar mánuðum saman, eða enn lengur, eftir því að fá svar við beiðni um hæli á Ítalíu.

„Við reynum líka að hjálpa fólki sem er á flótta við að fá húsaskjól annars staðar og útvegum því helstu nauðsynjar. Þetta hlutverk okkar hjá Rauða krossinum breytist ekkert sama hversu margir þeir eru sem þurfa á stuðningi að halda. Ef fjölskyldur verða viðskila á flóttanum reynum við að aðstoða þær við að sameinast, hvort sem ættingjar hafi hafnað í hver í sínu landinu eða á ólíkum stöðum á Ítalíu. Þetta getur verið mjög erfitt, ekki síst ef sumir hafa komist til Evrópu en aðrir orðið eftir í Afríku eða verið vísað frá strax við komuna til Evrópu. Við gerum ekki greinarmun á fólki hvaðan það kemur. Ef fólk er í neyð þá aðstoðum við það,“ segir Riccardo.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

 Sækja í fullorðna

Riccardo segir að oft sé erfitt að koma ungmennum á aldrinum 16-18 ára í skilning um að þau séu börn þrátt fyrir að hafa kannski þurft að taka ábyrgð á eigin lífi um árabil. Þau sæki því oft í að búa með fullorðnum í stað barna.

Þegar þau koma hingað til Sikileyjar er ætlast til þess að þau gangi í skóla og það getur reynst þrautin þyngri fyrir sum þeirra. Einhver þeirra eiga ættingja annars staðar í Evrópu og við reynum að hjálpa þeim við að hafa uppi á þeim. Oft vilja þau fara og freista gæfunnar annars staðar en hér þegar þau nálgast 18 ára afmælið. Að fara þangað sem tækifærin eru fleiri, segja þau Silvia og Riccardo.

Að þeirra sögn getur verið mjög erfitt að fullyrða að óathuguðu máli hvort einhver falli undir skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á flóttafólki, það er að sæta ofsóknum í heimalandi sínu vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana. Eins á fólk rétt á vernd sem flóttamaður ef viðkomandi á að hættu dauðarefsingu, pyntingar eða ómannúðlegar refsingar í heimalandinu og því mikilvægt að skoða mál hvers og eins. Þau nefna Nígeríu sem dæmi en þar eru aðstæður fólks afar ólíkar eftir því hvaðan það kemur og eins félagslegar aðstæður, segja þau.

Marco Rotunno, annast meðal annars fjölmiðlatengsl fyrir Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna …
Marco Rotunno, annast meðal annars fjölmiðlatengsl fyrir Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) á Sikiley. mbl.is/Gúna

Ekkert einfalt svar í boði

Margir halda því fram að allt fólk sem er á flótta frá Nígeríu sé efnahagslegir flóttamenn en það er einfaldlega ekki rétt og margir þeirra fá vernd á Ítalíu, segja starfsmenn Rauða krossins og UNHCR sem blaðamaður ræddi við. Á þetta við fólk af báðum kynjum sem er að forða sér úr háska. Mál hvers og eins er skoðað og metið en gallinn sé sá að ferlið taki langan tíma eða allt að tvö ár ef niðurstöðunni er áfrýjað.

Spurð út í hvað gerist þegar fólki er synjað um hæli segir Riccardo að þá eigi fólk að koma sér úr landi á eigin ábyrgð. „Samkvæmt lagabókstafnum á fólk að yfirgefa landið innan sjö daga frá því áfrýjunarnefnd hefur tekið ákvörðun um að viðkomandi eigi ekki rétt á hæli. En það er aldrei þannig. Í fyrsta lagi á fólkið oft ekki vegabréf og getur því ekki keypt flugmiða hjá flugfélögum ef svo ólíklega vill til að það eigi peninga fyrir fargjaldinu. Jafnvel ef viðkomandi fer í sendiráð upprunalandsins og sækir um vegabréf þá er það ekki afgreitt með svo skömmum fyrirvara. Yfirleitt er því þannig farið að fólk þorir ekki að sækja um vegabréf enda oft að flýja aðstæður í heimalandinu sem útiloka að viðkomandi snúi aftur. Margir sjá ekki aðra lausn en að láta sig hverfa,“ segir Riccardo.

Þetta valdi starfsfólki Rauða krossins miklum áhyggjum meðal annars vegna þess að fólk veit oft ekki af réttindum sínum, svo sem að fá læknisaðstoð. Það valdi því að fólk veslist frekar upp og deyi en að leita á náðir heilbrigðisþjónustunnar. „Fólk veit ekki hver staða þess er og forðar sér. Annaðhvort til annarra landa eða hverfur í skuggann þar sem enginn veit hvort viðkomandi er á lífi eður ei. Margir eru illa farnir á líkama og sál og ekki batnar líðan þeirra þegar þau þora ekki einu sinni að leita til læknis. Rauði krossinn hefur mótmælt þessari meðferð ítalskra stjórnvalda líkt og fleiri hjálparsamtök,“ segja þau Silvia og Riccardo.

Á Íslandi er heimilt að veita umsækjanda sem ekki telst flóttamaður vernd, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, standi til þess ríkar ástæður á borð við alvarleg veikindi eða erfiðar aðstæður í heimalandi. Einnig er heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef umsækjandi hefur haft bráðabirgðadvalarleyfi hér á landi í tvö ár eða dvalið hér á landi í tvö ár vegna meðferðar stjórnvalda á hælisumsókn hans.

Á Ítalíu er verið að breyta útlendingalögunum á þann veg að þeir sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða fá leyfið ekki endurnýjað og eins er ekki lengur hægt að sækja um slíkt leyfi.

Margir fara frá Ítalíu og halda áfram fótgangandi yfir Alpana.
Margir fara frá Ítalíu og halda áfram fótgangandi yfir Alpana. AFP

 Fleiri enda á götunni

Hjálparstarfsmenn segja að þetta eigi eftir að fjölga fólki sem býr á götunni eða er selt mansali og það eina sem hægt er að gera er að aðstoða fólk sem til þeirra leitar. Í mörgum tilvikum er því þannig farið að fólk þorir ekki að leita til lögreglu þrátt fyrir að vera fórnarlömb ofbeldis því reynsla margra af lögreglu er slæm frá heimalandinu.

Þegar blaðamaður var á Sikiley bjargaði ítalska strandgæslan hópi flóttafólks frá Kúrdistan og kom með það að landi. Yfirvöld á Sikiley hafa í nokkur skipti gengið gegn ákvörðun stjórnvalda og heimilað flóttafólki að koma í land. Í þessu tilviki var fólkið að drukkna skammt frá ströndinni enda afar slæmt í sjóinn. Heimafólk sem blaðamaður ræddi við segir að væntanlega hefði fólkið ekki annars fengið að koma til hafnar og þurft að snúa til baka til Líbýu eða jafnveld drukknað.

Thomas Curbillon, stýrir aðgerðum Lækna án landamæra, Médecins Sans Frontières, …
Thomas Curbillon, stýrir aðgerðum Lækna án landamæra, Médecins Sans Frontières, (MSF) í Catania. mbl.is/Gúna

Dvelja í 50-55 daga hjá MSF

Thomas Curbillon, stýrir aðgerðum Lækna án landamæra, Médecins Sans Frontières, (MSF) í Catania, og þegar blaðamaður heimsótti miðstöðina voru fimmtán sjúklingar þar, 14 karlar og ein kona. Rými er fyrir allt að 24 sjúklinga og yfirleitt dvelja þar 20-22 flóttamenn. En eftir að ítölsk stjórnvöld meinuðu björgunarskipum að leggjast að höfn í lok maí hefur þeim fækkað.

Allir sem þar dvelja koma beint af sjúkrahúsum og eru í 50-55 daga hjá MSF. Þar fá þeir læknishjálp og sálgæslu auk félags- og lögfræðiaðstoðar, segir Thomas en að hans sögn fara flestir skjólstæðingar þeirra frá Ítalíu eða sækja um hæli þar í landi.

„Fólk frá Erítreu vill yfirleitt halda áfram til landa eins og Frakklands og Svíþjóðar. Mjög mismunandi er hvort okkar skjólstæðingar eigi rétt á hæli hér á Ítalíu og ekki hafa líkurnar aukist með þeim breytingum sem verið er að gera. Við hjá MSF tökum ekki afstöðu í pólitískum, efnahagslegum eða trúarlegum deilum í þeim löndum sem við störfum og það sama á við um Ítalíu. Okkar hlutverk er að veita fólki neyðaraðstoð sem þarf á henni að halda, sama hver viðkomandi er. Ég óttast hins vegar að þeim sem þurfa að búa í neyðarskýlum án þjónustu eigi eftir að fjölga sem þýðir að líkamlegt og andlegt ástand fólks versnar,“ segir Thomas og vísar þar til þess að hætt verði að veita fólki hæli af mannúðarástæðum á Ítalíu.

Miðstöð Lækna án landamæra, Médecins Sans Frontières, (MSF) í Catania.
Miðstöð Lækna án landamæra, Médecins Sans Frontières, (MSF) í Catania. mbl.is/Gúna

 Vildi bara deyja

Eins og áður sagði veitir starfsfólk MSF sálræna aðstoð skjólstæðingum sem þurfa á henni að halda. Einn þeirra kom til Sikileyjar fyrr á árinu en hann hafði verið á flótta í á annað ár. Hann var 17 ára þegar hann flúði frá Sómalíu en átján ára þegar hann komst á leiðarenda.

Hann segist hafa flúið átök í Sómalíu en landið telst eitt það hættulegasta í heimi.

Spurður út í hvert hann stefni segist hann ekki vita það. Að ná heilsu sé markmið hans í dag eftir að hafa verið bjargað af ítölsku strandgæslunni á Miðjarðarhafi nær dauða en lífi. Hann var fimm daga á leiðinni frá Líbýu ásamt 500 öðrum flóttamönnum. Þau voru með lítið sem ekkert að borða og vatnið kláraðist fljótlega eftir að siglingin hófst og ekkert annað að gera en drekka sjó.

Þegar þeim var komið til bjargar var hann búinn að missa meðvitund og man ekkert frá síðustu stundunum á flóttanum annað en að hans æðsta ósk áður en hann missti meðvitund var að binda enda á þetta allt saman – að deyja.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Annar flóttamaður sem blaðamaður ræddi við frá Erítreu vissi fyrst ekki hvað amaði að honum því þegar læknir skoðaði hann við komuna til Sikileyjar og hann var fluttur þaðan á sjúkrahús var enginn til þess að túlka. Það var ekki fyrr en Læknar án landamæra komu að stuðningi við hann að úr því var bætt því meðal starfsmanna er eldri maður sem kom sem flóttamaður til Ítalíu á áttunda áratug síðustu aldar frá Erítreu.

Marco Rotunno segir UNHCR hafa miklar áhyggjur af flóttafólki sem fékk mannúðarvernd til tveggja ára árið 2017 því sú vernd verður ekki endurnýjuð þegar hún rennur út á næsta ári.

„Við óttumst um allan þennan fjölda sem verður ólöglegur í landinu og er réttlaus með öllu. Við vitum ekki nákvæmlega hvað við erum að tala um stóran hóp en vitum að hann er stór. Á sama tíma er verið að hætta rekstri SPRAR, en það eru miðstöðvar sem eru reknar af sveitarfélögunum með stuðningi ríkisins. Þetta eru miklu minni einingar heldur en stóru flóttamannabúðirnar sem flestir fara fyrst í. Þær eru einfaldlega neyðarskýli sem enginn á að búa í til lengri tíma. En því miður hefur fólk neyðst til þess,“ segir Marco.

Innan við 30% sveitarfélaga á Ítalíu hafa tekið þátt í rekstri SPRAR og margar bæjarstjórnir ekki þorað að taka þátt af ótta við almenningsálitið því það eru svo margar ranghugmyndir í gangi varðandi komu flóttafólks, segir Marco. Margir sjái fyrir sér stríðan straum á meðan raunin sé önnur líkt og tölurnar sýna. En á meðan þessar ranghugmyndir séu við lýði líta margir á flóttafólk sem ógn.

Flóttafólk, sem hefur komist við illan leik frá Líbýu, á mjög erfitt með að skilja þetta enda flestir með miklar væntingar um lífið í Evrópu eftir að hafa þolað harðræði á flóttanum úr ömurlegum aðstæðum. Á leið til lífs sem oft reyndist öðruvísi en talið var áður en haldið var af stað í óvissuferð á milli heimsálfa.

Björgunarskip mega ekki lengur koma til hafnar á Ítalíu.
Björgunarskip mega ekki lengur koma til hafnar á Ítalíu. AFP
mbl.is