Gleymist að taka tillit til kvenna

Á leið til lífs | 5. október 2019

Gleymist að taka tillit til kvenna

Ekkert land hefur tekið á móti jafn mörgum sýrlenskum flóttamönnum og Tyrkland, en yfir 3,6 milljónir Sýrlendinga eru með tímabundna vernd í Tyrklandi. Inni í þessari tölu eru aðeins þeir sem eru skráðir inn í landið og er talið fullvíst að nokkur hundruð þúsund óskráðir Sýrlendingar séu í Tyrklandi.

Gleymist að taka tillit til kvenna

Á leið til lífs | 5. október 2019

Ekkert land hefur tekið á móti jafn mörgum sýrlenskum flóttamönnum og Tyrkland, en yfir 3,6 milljónir Sýrlendinga eru með tímabundna vernd í Tyrklandi. Inni í þessari tölu eru aðeins þeir sem eru skráðir inn í landið og er talið fullvíst að nokkur hundruð þúsund óskráðir Sýrlendingar séu í Tyrklandi.

Ekkert land hefur tekið á móti jafn mörgum sýrlenskum flóttamönnum og Tyrkland, en yfir 3,6 milljónir Sýrlendinga eru með tímabundna vernd í Tyrklandi. Inni í þessari tölu eru aðeins þeir sem eru skráðir inn í landið og er talið fullvíst að nokkur hundruð þúsund óskráðir Sýrlendingar séu í Tyrklandi.

Yfir hálf milljón Sýrlendinga er í borginni Gaziantep, sem er skammt frá landamærunum, aðeins í 97 km fjarlægð frá Aleppo. Íbúum borgarinnar hefur fjölgað úr 1,5 milljónum í rúmlega tvær milljónir á örfáum árum og eru aðeins þeir Sýrlendingar sem eru formlega skráðir með tímabundna vernd inni í þeirri tölu. Fólk sem á það sameiginlegt að hafa þurft að horfa á eftir einhverjum nákomnum, heimili og nánast allri aleigunni á leið til borgarinnar, sem er ein elsta borg í heimi. Stríðið í Sýrlandi hefur geisað í rúmlega 3.100 daga og ekkert bendir til þess að því sé að ljúka á næstunni.

Flestir þeirra Sýrlendinga sem blaðamaður ræddi nýverið við í Gaziantep segjast ekki vita hvað framtíðin ber í skauti sér, aðeins að þeir séu þakklátir fyrir að vera á lífi í borg þar sem þeim hefur að mestu verið vel tekið, ekki síst af borgaryfirvöldum, sem líta á flóttafólkið sem gesti sína. Þeir láta hverjum degi nægja sína þjáningu en staða þeirra er misgóð. Sumir búa við þokkalegar aðstæður, aðrir skelfilegar. Ekki síst þeir sem eru skilríkjalausir og því án allra réttinda.

Sýrlenskur drengur fylgist með tyrkneskum hertrukkum skammt frá landamærum Tyrklands …
Sýrlenskur drengur fylgist með tyrkneskum hertrukkum skammt frá landamærum Tyrklands á föstudag. AFP

Framtíð þeirra er í húfi og óttast margir yfirlýsingar forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogans, um að Tyrkir séu reiðubúnir að setja af stað áætlun um að flytja stærstan hluta Sýrlendinga yfir landamærin að nýju, á svæði sem hann nefnir „öruggt svæði“ í norðausturhluta Sýrlands.

Erdogan greindi frá þessu í kjölfar þátttöku í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í lok september. Forsetinn telur rétt að milljónir þeirra Sýrlendinga sem nú eru í Tyrklandi fari aftur yfir landamærin inn á þessi svæði eins og hann og forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sammæltust um að væri það rétta í stöðunni á fundi sínum í sumar.

Þeim tókst aftur á móti ekki að ná samkomulagi um hversu stórt svæðið ætti að vera en að sögn Erdogans er áætlað að það nái 30 km inn í Sýrland og liggi á um 480 km af landamærum Sýrlands við Tyrkland. Ástæðan fyrir því að ekki hefur náðst samkomulag um stærð svæðisins er sú að Bandaríkjaher kemur að þjálfun hersveita Kúrda á þessu svæði, en Tyrkir líta á sýrlenskar hersveitir Kúrda sem hryðjuverkamenn og ógn við þjóðaröryggi.

 Fluttir hreppaflutningum að landamærunum

Sérfræðingar efast um að gerlegt sé að flytja allt að þrjár milljónir flóttamanna inn á svæðið en samt sem áður hafa fjölmargir flóttamenn þegar verið fluttir hreppaflutningum frá stórum borgum eins og Istanbúl til landamærabæjarins Kilis. Þar eru nú búsettir fleiri Sýrlendingar en Tyrkir. Jafnframt er orðið erfiðara fyrir Sýrlendinga að skrá sig inn í landið en áður. Þeir þurfa, eins og flóttamenn annars staðar frá, að skrá sig inn í landið hjá opinberum aðilum, sem getur tekið langan tíma. Áður önnuðust tyrknesku hjálparsamtökin SGDD-ASAM (Association for Solidarity with Asylum Seekers and Migrants) skráninguna ásamt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR. Þetta þýðir að fólk þarf að bíða mun lengur eftir skráningu og um leið eftir aðstoð.

Allt frá því að stríðið braust út árið 2011 hafa Sýrlendingar átt skjól í Tyrklandi. Ekki bara vegna nálægðar og margra sameiginlegra hagsmuna og menningar heldur einnig vegna þess að mikið fjármagn hefur farið þangað af hálfu annarra ríkja, bandalaga og stofnana. Eins hafa tyrknesk yfirvöld sett mikið fé til stuðnings Sýrlendingum í landinu. Eitt af þeim verkefnum sem hafa gefið góða raun er rekstur SADA Center í Gaziantep, en Íslendingar komu meðal annars að stofnun miðstöðvarinnar þegar Íris Björg Kristjánsdóttir, sem er sérfræðingur á sviði mannúðarmála og fólksflutninga hjá UN Women í Evrópu og Mið-Asíu, kom til starfa í Tyrklandi í gegnum þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og UN Women.

Sjaldan talað um flóð og ástand

Íris hefur starfað í Tyrklandi frá árinu 2017 en áður var hún sérfræðingur hjá dómsmálaráðuneytinu í útlendingamálum. Áður hafði hún starfað í mörg ár í málefnum tengdum innflytjendum, meðal annars hjá Alþjóðahúsinu, við stefnumótun hjá Reykjavíkurborg, var formaður flóttamannanefndar og innflytjendaráðs og hefur því yfirgripsmikla þekkingu á málefnum flóttafólks og málefnum innflytjenda (e. integration).

„Umræðan í Tyrklandi gagnvart flóttafólki er örlítið ólík því sem ég er vön á Íslandi og í Evrópu. Þrátt fyrir að Tyrkland hýsi fleiri flóttamenn en nokkurt land, hvort sem er í dag eða í sögulegu samhengi, heyri ég sjaldan orð sem eru tíð í Evrópu eins og flóð og ástand og þar frameftir götum. Í Tyrklandi hefur það verið stefna stjórnvalda að tala um gesti og þeir skilgreina Sýrlendinga ekki sem flóttamenn heldur sem gesti með tímabundna vernd. Sem getur auðvitað verið tvíbent – þið farið þegar stríðinu lýkur – en er í raun miklu frekar – þið eruð gestir okkar og við komum fram við ykkur af virðingu eins og okkur er framast unnt,“ segir hún.

Spurð hvernig það hafi komið til að hún hafi sest að í Tyrklandi fyrir tveimur árum segir Íris að hún hafi sótt um stöðu sem var auglýst í janúar 2017 hjá UN Women í gegnum íslenska utanríkisráðuneytið. Staðan varð hennar og flutti Íris til Ankara í maí 2017.

„Ég var ráðin í verkefni til eins árs sem fólst í að byggja upp starf UN Women í Tyrklandi. Á þessum tíma voru starfsmenn stofnunarinnar í Ankara fimm talsins og komu aðallega að hefðbundnum verkefnum UN Women, það er að vinna með yfirvöldum að því að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum og valdefla og sporna við kynbundu ofbeldi. Ég var því í raun fyrsti starfsmaðurinn sem var ráðinn til að byggja upp aðkomu UN Women í Tyrklandi að móttöku, viðbúnaði og allri uppbyggingu vegna flóttamanna sem komu frá Sýrlandi.

Fyrsta verkefni mitt var að koma að uppbyggingu SADA Center í Gaziantep, en þegar ég kom til starfa voru japönsk yfirvöld búin að styrkja verkefnið myndarlega og það var búið að móta útlínur þess sem stefnt var að með miðstöðinni; að bæta stöðu kvenna og stúlkna á flótta í Tyrklandi,“ segir Íris.

SADA-miðstöðin var sett á laggirnar í Gaziantep árið 2017 en …
SADA-miðstöðin var sett á laggirnar í Gaziantep árið 2017 en þangað hafa komið þúsundir kvenna síðan þá. mbl.is/Gúna

Fyrsta verk hennar var að koma kvennasetrinu á laggirnar með ASAM-hjálparsamtökunum, sem tóku að sér rekstur miðstöðvarinnar. ASAM-samtökin voru stofnuð árið 1995 í Ankara sem sjálfstæð samtök sem hafa jafnrétti og mannúð að leiðarljósi í stuðningi sínum við flóttafólk og hælisleitendur í Tyrklandi. Samtökin eru stærstu sjálfstætt starfandi mannúðarsamtökin í Tyrklandi.

Auk UN Women koma Alþjóðavinnumálastofnunin (International Labour Organization, ILO) og héraðsstjórnin í Gaziantep að SADA-miðstöðinni. Strax í upphafi var áherslan lögð á stuðning við konur í viðkvæmri stöðu.

Að sögn Írisar var verkefni hennar fyrst og fremst að byggja upp flóttamannasvið UN Women í Tyrklandi, að valdefla, styrkja og þjálfa konur. Þó svo að SADA-miðstöðin hafi verið stærsta verkefnið fyrsta árið er hún aðeins eitt af mörgum.

„Að stuðla að auknum kynjavinkli í öllu viðbragði vegna Sýrlands í Tyrklandi var aðalverkefnið. Hlutverk okkar er að aðstoða opinbera aðila og stofnanir Sameinuðu þjóðanna við að vinna betur að öllu jafnrétti hvað varðar flóttafólk, en UN Women í Tyrklandi hafði hingað til ekki verið mjög öflug rödd í mannúðarviðbrögðum í tengslum við átökin í Sýrlandi. Þetta er að breytast, ekki síst vegna SADA, því með rekstri hennar fengnum við aukna þekkingu og rödd gagnvart öðrum,“ segir Íris.

„Auk þess að koma miðstöðinni í gagnið í Gaziantep stýrði ég rannsókn sem unnin var í sjö borgum Tyrklands á stöðu sýrlenskra kvenna og stúlkna í Tyrklandi. Mat á þörf á aðstoð og stuðningi við konur er gríðarlega mikilvægur liður í allri upplýsingasöfnun um stöðu kvenna svo hægt sé að byggja viðbragðsáætlanir í samræmi við þarfir kvenna sem eru á flótta. Í þriðja lagi hef ég verið fulltrúi UN Women á samræmingarvettvangi UN við gerð samræmdra áætlana, eða það sem snýr að viðbúnaði í Tyrklandi. Helsta verkefni mitt hefur verið að styrkja kynjavinkilinn, sem hefur þann ávinning að draga úr líkum á að einstaklingar eða hópar á jaðrinum eða í viðkvæmri stöðu verði út undan þegar viðbrögð eru hönnuð. Þessar áætlanir (3RP) eru mikilvægur vettvangur á vegum stofnana SÞ í Tyrklandi, Líbanon og Jórdaníu í því að tryggja samræmingu og yfirsýn yfir stöðuna er lýtur að flótta frá Sýrlandi og tímabundinni vernd, en þessi ríki hafa tekið við flestum þeim Sýrlendingum sem hafa neyðst til þess að flýja land sitt,“ segir Íris.

Hamfarir bitna meira á konum en körlum

Konur og stúlkur eru einfaldlega líklegri til að verða fyrir …
Konur og stúlkur eru einfaldlega líklegri til að verða fyrir skaða, vegna þessara aðstæðna sem þær eru settar í, heldur en karlar og strákar. AFP

Áætlanirnar byggja á sama grunni og mannúðarstefna Sameinuðu þjóðanna, segir Íris, einkum sé horft til grunnþarfa, verndar, menntunar og heilsu flóttafólks. Sem fulltrúi UN Women er hlutverk Írisar að tryggja að tekið sé tillit til aðstæðna kvenna. Eins og Íris bendir á er það almennt viðurkennt og óumdeilanlegt að allar slíkar aðstæður, hvar sem það er í heiminum, hvort sem er vegna náttúruhamfara stríðs og hvaða hamfara sem er, koma verr niður á konum og stúlkum en körlum og drengjum.

„Hér skiptir engu hvort við erum að tala um hamfarir af manna völdum eða völdum náttúrunnar. Konum og stúlkum er mun frekar haldið inni á heimilinu, þær ganga síður í skóla, eru frekar seldar í hjónabönd og mun líklegri til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þær eru einfaldlega líklegri til að verða fyrir skaða, vegna þessara aðstæðna sem þær eru settar í, heldur en karlar og strákar. Á sama tíma beinist og fjármagnið og allur viðbúnaður að þörfum karla frekar en kvenna og nýtist þeim betur,“ segir hún.

Að sögn Írisar kom hún inn í þetta samþættingarstarf stofnana Sameinuðu þjóðanna með það að leiðarljósi að tryggja að jafnræðis sé gætt, að gögnum og tölfræði sé safnað og að það séu raunverulegar upplýsingar sem liggi þar að baki. Í raun að tryggja að kynjagleraugun séu sett upp þannig að réttar upplýsingar séu á bak við tölurnar og áætlanir.

„Kynjagleraugu hafa þann mikilvæga aukaávinning að þegar þau eru komin á gilda þau um alla hópa á jaðrinum. Þótt sumir hóparnir séu ekki endilega greindir – svo sem aldraðir, fatlaðir, LGBTQ, eða hvað sem er, gagnast tækin og tólin sem við erum að kynna öllum. Þau eru ekki bara ætluð til þess tryggja jafnrétti kynjanna heldur að tryggja jafnrétti á miklu fleiri sviðum,“ segir Íris.

Bein þátttaka skiptir miklu

Íris hefur unnið að uppbyggingu fleiri verkefna fyrir UN Women í Tyrklandi, svo sem þjálfunarteymis sem annast þjálfun allra þeirra sem eru í framlínu og koma að þjónustu fyrir konur og börn. Að kenna þeim að setja upp kynjagleraugu í sínu starfi og tryggja betri þjónustu fyrir alla. Hún segir að þetta hafi tekist afar vel í Tyrklandi og að UN Women hafi byggt upp teymi bæði innlendra og erlendra sérfræðinga í að þjálfa þá sem starfa á þessum vettvangi um allt land. Nú fer slík þjálfun fram í hverjum mánuði einhvers staðar í Tyrklandi.

Blaðamaður var í Gaziantep í síðustu viku og þar þekkja flestir SADA-miðstöðina, sérstaklega sýrlenskar konur, af góðu. Íris tekur undir það og segir samstarfið um SADA hafa verið farsælt og náð markmiðum sínum og rúmlega það. Miðstöðin hefur líka gefið UN Women aukna rödd í Tyrklandi, ekki bara gagnvart stjórnvöldum, heldur einnig öðrum viðbragðsaðilum sem þar starfa. „Bein þátttaka skipti miklu því ef við hefðum aðeins verið að styðja aðra í að setja upp kynjagleraugun er ljóst að við hefðum ekki orðið jafn hávær rödd á þessum vettvangi og raun ber vitni,“ segir Íris.

SADA-miðstöðin er eins og áður sagði samstarfsverkefni ASAM, UN Women, ILO og Gaziantep-héraðs með fjárhagsstuðningi frá japönskum stjórnvöldum, Evrópusambandinu og Íslandi. Miðstöðin er aðeins fyrir konur og er markmið hennar að styðja valdeflingu kvenna, mynda samband milli flóttakvenna og kvenna sem eru búsettar í héraðinu og styrkja félagslegt sjálfstæði þeirra.

Íris efast ekki um að í fyrstu hafi ýmsir haft vissar efasemdir um að kyngreina eins og gert er í SADA-miðstöðinni en telur að á mjög skömmum tíma hafi greiningin útskýrt sig sjálf. Að sýrlenskar konur hafi eignast eigið svæði þar sem þær eru öruggar og ráðandi um eigin mál. Enda er tilgangurinn með stofnun SADA að skapa öruggt svæði þar sem þær fá tækifæri til að læra hluti sem auka líkur á að þær geti verið styrktar til valdeflingar og sjálfsbjargar varðandi lífsbjargir.

Íbúum Gaziantep hefur fjölgað um ríflega hálfa milljón á aðeins …
Íbúum Gaziantep hefur fjölgað um ríflega hálfa milljón á aðeins örfáum árum og afar erfitt að finna húsnæði í borginni. Sýrlenskar fjölskyldur búa meðal annars í þessu hverfi sem er skammt frá helsta safni borgarinnar, Zeugma mósaík-safninu. mbl.is/Gúna

„Áður en við opnuðum miðstöðina í ágúst 2017 fórum við inn í hverfi Gaziantep þar sem flóttakonur bjuggu og ræddum við þær um SADA og þá möguleika sem þar yrðu í boði. Við gerðum þetta í samstarfi við yfirvöld í Gaziantep, sem hafa staðið mjög vel við bakið á okkur allt frá upphafi. Þau hverfi voru valin þar sem mestar líkur voru á að finna konur sem fóru aldrei út af heimilinu og bjuggu við slæmar aðstæður – konur í verulega viðkvæmri stöðu. Við fórum með bækling og buðum þær velkomnar hvort sem þær væru sýrlenskar, tyrkneskar eða hverrar þjóðar sem er. Þrátt fyrir að verkefni okkar miði að sýrlenskum konum útilokum við ekki neina konu þó svo að fjármagnið komi úr sjóðum eyrnamerktum sýrlenskum flóttakonum.“

Þegar kona kemur í SADA-miðstöðina fer hún í ítarlegt viðtal og mat á aðstæðum. Íris er ákaflega stolt af því hvernig það mat er unnið, en það kemur upphaflega frá ASAM og UNHCR og hefur verið í þróun í hátt í 20 ár.

„Um er að ræða gátlista á stöðu fólks í viðkvæmri stöðu því helmingur skjólstæðinga SADA er konur í afar viðkvæmri stöðu. Við löguðum listann að þörfum kvenna og höfum síðan þróað hann áfram að þörfum markhópsins,“ segir hún.

Eftir þetta fyrsta mat er tekin ákvörðun í samráði við konuna um framhaldið. Konur sem eru ekki skráðar inn í landið eiga almennt ekki rétt á þjónustu en þeim er veittur stuðningur við skráningu sem og önnur atriði sem tengjast hinu opinbera. Ef um afar slæmar heilbrigðisaðstæður eða heimilisofbeldi er að ræða er strax gripið til aðgerða. Þeim er boðið upp á þjónustu félagsráðgjafa, sálfræðinga, lögfræðinga, lækna og fleira hér í SADA. Eins eru hér alls konar námskeið í boði, svo sem tyrkneskunámskeið, starfstengd þjálfun og námskeið í valdeflingu.

Síðast en ekki síst hafa 50 konur, sem hafa notið stuðnings SADA, stofnað samvinnufélag, SADA Co-op, þar sem þær framleiða og hanna ýmsar vörur og selja. Má þar nefna skó, töskur, vefnaðarvöru og matvöru.

Á hverjum föstudegi hittist hópur kvenna sem ganga undir nafninu Konur framtíðarinnar, (Syrian Women of the Future Committee) og halda opna fundi fyrir konur þar sem tekið er fyrir eitthvert ákveðið málefni sem einhver þeirra hefur framsögu um og stýrir umræðum. Ítarlegar verður fjallað um SADA-miðstöðina síðar í Morgunblaðinu og á mbl.is.

Íris segir að þetta tvennt sé aðeins dásamlegar aukaafurðir verkefnisins og sýni það vel og sanni að gott starf sé unnið í SADA-miðstöðinni. „Á sama tíma og verkefni UN Women í Tyrklandi hafa vaxið og dafnað þessi rúmu tvö ár sem ég hef starfað hér þá er SADA alltaf hjartað í starfsemi UN Women í landinu að mínu mati. Ég finn það svo vel í hvert skipti sem ég kem hingað til Gaziantep og upplifi allan þennan kraft sem býr í þessum frábæru konum sem hafa í samvinnu við aðrar konur fengið að blómstra,“ segir Íris.

Þegar hún er spurð hvort til standi að opna fleiri slíkar kvennamiðstöðvar í Tyrklandi á vegum UN Women segir hún að ítrekað hafi verið óskað eftir því. Eins bendi konurnar í SADA alltaf á þetta þegar fulltrúar einhverra þeirra sem reka miðstöðina komi þangað í heimsókn.

„Þær eru ekki að biðja um nýjar miðstöðvar fyrir sig heldur fyrir hönd annarra kvenna. Konurnar upplifa þetta sem brýna nauðsyn sem hefur gjörbreytt lífi þeirra. Að eiga aðgang að öruggum stað og umhverfi þar sem þær geta talað við konur í svipuðum aðstæðum. Við erum farin að sjá fleiri tyrkneskar konur koma til okkar og þetta hefur gjörbreytt samskiptum þeirra á milli, það er á milli sýrlenskra kvenna og tyrkneskra og flóttakvenna frá Afganistan og öðrum löndum. Staðreyndin er sú að það er ákveðin togstreita á milli hópa flóttamanna í Tyrklandi, þar sem stuðningurinn sem þeir fá er mismunandi og almennt meiri til Sýrlendinga en annarra. Innan SADA hefur tekist að auka samskipti og samheldni milli hópa, sem skilar sér langt út fyrir konurnar sjálfar því þær eiga flestar börn og margar eiga eiginmenn,“ segir Íris.

Íris Björg Kristjánsdóttir er sérfræðingur mannúðarmála og fólksflutninga hjá UN …
Íris Björg Kristjánsdóttir er sérfræðingur mannúðarmála og fólksflutninga hjá UN Women í Evrópu og Mið-Asíu, alls 14 ríkjum. mbl.is/Gúna

Frá Ankara til Istanbúl og nýtt starf

Breytingar urðu á starfi Írisar í sumar þegar hún tók við nýju starfi innan UN Women, sem sérfræðingur mannúðarmála og fólksflutninga hjá UN Women í Evrópu og Mið-Asíu, alls 14 ríkjum. Eftir rúmlega tveggja ára dvöl í Ankara er hún flutt ásamt fjölskyldu sinni til Istanbúl.

Að sögn Írisar veitir hún landsskrifstofum UN Women í þessum ríkjum stuðning í málefnum flóttafólks en Tyrkland og sýrlenskir flóttamenn verða áfram meginviðfangsefnið. Hún er einnig fulltrúi UN Women í samstarfsvettvangi stofnana SÞ í höfuðstöðvum þeirra í Evrópu í Genf fyrir þetta svæði. Þar vinnur hún náið með samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum, þar sem eitt af verkefnum hennar er að veita tæknilega ráðgjöf við að bæta kynjagleraugu stofnana og starfsmanna Sameinuðu þjóðanna.

„Að koma í veg fyrir að það gleymist að taka tillit til kvenna. Við greinum þarfir kvenna, sem stundum vilja gleymast hjá besta fólki ef ekki er horft með gagnrýnum hætti á viðfangsefnið. Þrátt fyrir að ekki sé ætlunin að mismuna getur verið erfitt fyrir karla sem ekki þekkja reynsluheim kvenna að gera sér grein fyrir þörfum þeirra. Ég get tekið einfalt dæmi eins og matarúthlutun á neyðarsvæðum. Matarsending kemur og öllum gert að standa í röð eftir úthlutun. En það gleymist að taka tillit til einstæðra mæðra sem komast ekki frá börnum sínum til að standa í biðröðinni. Sem þýðir að þær og börn þeirra svelta. Eða þegar salernisaðstaða er byggð á þannig stað að það þarf að ganga einhvern stíg og jafnvel fara á bak við tré, en þá er búið að margfalda áhættuna á kynferðisofbeldi,“ segir Íris og bendir á að stelpur séu frekar teknar úr skóla en strákar, þær fái síður mat að borða og hátt hlutfall kvenna og stúlkna verði fyrir kynferðisofbeldi í svona aðstæðum.

 Fáar konur á vinnumarkaði

Íris segist áfram munu vinna að því að styrkja Tyrkland í að bæta stöðu kvenna. Eitt af því er að auka alla tölfræði og greiningar svo það sjáist svart á hvítu hver staðan er, til að mynda varðandi vinnumarkað og hverjir eru færir um að koma inn á þann markað.

Af þeim rúmlega 3,6 milljónum Sýrlendinga sem njóta tímabundinnar verndar í Tyrklandi eru tæplega 1,7 milljónir kvenna. Með þessari tímabundnu vernd fá Sýrlendingar aðgang að heilbrigðisþjónustu, menntun, félagsþjónustu og vinnumarkaði. Aftur á móti er afar lágt hlutfall kvenna á vinnumarkaði og er eitt af helstu hlutverkum SADA-miðstöðvarinnar og annarra aðgerða UN Women að gera konur færar um að fara á vinnumarkaðinn. Eins og Íris bendir á er afar mikilvægt að flóttakonur hafi tækifæri til þess, þar sem þær eru margar hverjar aðalfyrirvinna fjölskyldunnar þar sem þær eru ekkjur eða einstæðar mæður.

Hvað gerist þegar fjármagnið stöðvast til Tyrklands? er ein af þeim spurningum sem blasa við Írisi og öðrum sem koma að flóttamannaðstoð í landinu. Sú staða er ekki komin upp en óvíst er hvenær það verður. Fjármagn til reksturs SADA-miðstöðvarinnar er tryggt í tæpt ár í viðbót, en um sex þúsund konur hafa fengið þjónustu þar frá stofnun. Af þeim eru nokkur hundruð komin út á vinnumarkaðinn. Á sama tíma er að vaxa úr grasi kynslóð sýrlenskra barna sem hefur verið fjarri heimkynnum sínum í átta ár. Hvort sú kynslóð snýr aftur er alls óvíst þrátt fyrir fyrirætlanir stjórnvalda í Tyrklandi.

mbl.is