Talið að málverkin tvö séu enn í Ósló

Munch safnið í Ósló var lokað í dag og komu …
Munch safnið í Ósló var lokað í dag og komu ferðamenn því að læstum dyrum. AP

Lögregla í Noregi telur að málverkin tvö, sem rænt var í Munch safninu í Ósló í gær, séu enn í borginni. Á fréttavef Aftenposten er haft eftir Iver Stensrud, deildarstjóra hjá lögreglunni í Ósló, að ólíklegt sé að ræningjarnir hafi reynt að koma málverkunum úr landi enn sem komið er þar sem það sé of áhættusamt.

Vitni að ráninu segja, að annar ræninginn hafi þagað en hinn hafi stalað norsku þegar hann skipaði varðmönnum að leggjast á góflið. Stensrud segir að ekki sé vitað nákvæmlega hvað ræninginn sagði, en hann bað safngesti að vera rólega og leggjst á gólfið um leið og hann gaf bendingu með byssu sem hann hélt á. Ræningjarnir voru grímuklæddir.

Um leið og tilkynning barst um ránið klukkan 11 að norskum tíma í gær voru aðvaranir sendar til flugvalla og landamærastöðva. Ræningjarnir komust undan á svörtum Audi skutbíl, sem fannst síðar yfirgefinn við tennisklúbb í borginni skammt frá Munch safninu. Lögreglan segist hafa vísbendingar um annan bíl, sem ræningjarnir hafi notað en vill ekki gefa nánari upplýsingar um hann.

Stensrud sagði í samtali við sjónvarpsstöðina TV 2 að fundist hefðu ýmis gögn í bílnum, inni í safninu og víðar. Vonast er til að ræningjarnir hafi skilið eftir sig fingraför eða lífssýni.

Myndir náðust af ræningjunum bæði í og við safnið og á leiðinni frá safninu að tennisklúbbnum. Lögregla rannsakar nú þessar myndir.

Ýmsir hafa lýst þeirri skoðun, að viðvaningslega hafi verið staðið að ráninu, ræningjarnir hafi ekki þekkt staðhætti í safninu og ekki vitað hvernig þeir áttu að losa myndirnar af veggnum. Stensrud sagði við TV 2 að hann sé ekki þeirrar skoðunar. „Þeir náðu markmiði sínu og ránið hefur greinilega verið undirbúið með því að stela bílum," sagði hann.

Málverkið Ópið, sem rænt var úr Munch safninu í gær.
Málverkið Ópið, sem rænt var úr Munch safninu í gær. AP
Málverkið Madonna eftir Munch.
Málverkið Madonna eftir Munch. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert