Bush formlega útnefndur forsetaframbjóðandi repúblikana

Schwarzenegger í ræðustól á flokksþingi repúblikana í gær. Þar lofaði …
Schwarzenegger í ræðustól á flokksþingi repúblikana í gær. Þar lofaði hann Bush forseta í hástert. AP

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, var í gærkvöldi formlega útnefndur sem forsetaefni Repúblikanaflokksins, á flokksþinginu í New York. Kvikmyndastjarnan og ríkisstjóri Kaliforníu, Arnold Schwarzenegger og Laura Bush, eiginkona forsetans, voru meðal helstu ræðumanna kvöldsins. Mikið var fagnað á þinginu þegar Schwarzenegger hélt ræðu sína til stuðnings Bush.

Í ræðu sinni vitnaði hann í vinsælar bíómyndir sem hann hefur leikið í, á borð við „tortímandann.“ Sagði hann meðal annars að Bush væri sá sterki leiðtogi sem Bandaríkin þörfnuðust í stríðinu gegn hryðjuverkum.

„Ég er stoltur af því að tilheyra flokki Abraham Lincoln, flokki Teddy Roosevelt, flokki Ronalds Reagan og flokki George W. Bush,“ sagði Schwarzenegger í ræðu sinni og uppskar mikið lófatak.

Schwarzenegger, sem talinn er í röðum hófsamari repúblikana lofaði stjórn Bush og hvernig hann hefði tekið á málum eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001, sem urðu næstum 3.000 manns að bana. Hvatti hann bandaríska kjósendur til þess að kjósa Bush svo „tortíma mætti hryðjuverkum.“

Schwarzenegger hefur haldið sig nokkuð fjarri kosningabaráttu Bush undanfarið, en fór fögrum orðum um forsetann í gær. „Hann hefur mikinn innri styrk. Hann er leiðtogi sem hikar ekki, og er ekki óákveðinn, gefur ekki eftir,“ sagði leikarinn meðal annars. „Hann veit að þú rökræðir ekki við hryðjuverkamenn. Þú sigrar þá,“ bætti hann við.

Meira en 900 handteknir vegna mótmæla

Lögregla í New York handtók meira en 900 manns sem mótmæltu flokksþingi repúblikana í borginni í gær, að því er talskona lögreglunnar sagði. „Meira en 900 manns hafa verið handteknir um alla borgina frá því í morgun vegna mótmæla í tengslum við flokksþing Repúblikanaflokksins,“ sagði Jennara Ezerlath í samtali við AFP fréttastofuna. Sagði hún að flestir hefðu verið handteknir fyrir óspektir á almannafæri og að mörgum hefði þegar verið sleppt.

Um 4.800 manns sitja flokksþing repúblikana.

Dætur forsetans, Barbara og Jenna, ávörpuðu flokksþingið í gær.
Dætur forsetans, Barbara og Jenna, ávörpuðu flokksþingið í gær. AP
Laura Bush, eiginkona forsetans, var meðal helstu ræðumanna á flokksþinginu …
Laura Bush, eiginkona forsetans, var meðal helstu ræðumanna á flokksþinginu í gærkvöldi. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert