Japanir vilja nýjan vettvang til að ræða hvalveiðar

Japanskt hvalveiðiskip við bryggju í Kanazawa.
Japanskt hvalveiðiskip við bryggju í Kanazawa. Reuters

Japanir ætla að leggja til á fundi Alþjóða hvalveiðiráðsins í júní að komið verði á nýjum vettvangi til umræðna um hvalveiðimál, óháðum hvalveiðiráðinu. Hideki Moronuki, formaður hvalveiðideildar japönsku veiðistofnunarinnar, segir að Japanir vilji hverfa aftur til upprunalegs hlutverks hvalveiðiráðsins með því að halda sérstakar viðræður þar sem þjóðum sem andsnúnar eru hvalveiðum verði ekki boðin þáttaka.

Hugmyndin er að sögn Moronuki ekki sú að vettvangurinn komi í stað Alþjóða hvalveiðiráðsins heldur að þjóðir sem vilji hefja hvalveiðar að nýju geti rætt leiðir til að „stjórna hvalveiðum í stað þess að þær séu alfarið bannaðar”, segir Moronuki.

Tillagan mun koma frá Japönum auk annarra Kyrrahafsríkja sem hlynnt eru hvalveiðum að sögn Moronuki, en hann vill þó ekki taka fram um hvaða ríki er að ræða. Ástralir og Ný-Sjálendingar eru meðal þeirra þjóða sem mest hafa barist gegn því að hvalveiðar verði teknar upp á ný.

Alþjóða hvalveiðiráðið kemur saman í Vestur-Indíum þann 16. júní þar sem búist er við að Japanir muni reyna að fá banninu aflétt á þeim forsendum að hvalastofnar hafi náð sér nægilega vel á strik síðan hvalveiðar voru bannaðar fyrir 19 árum.

Japanir hafa lagt hart að þjóðum í Kyrrahafi að styðja afnám bannsins, en þótt hreinn meirihluti náist þýðir það ekki að hvalveiðar verði leyfðar að nýju því 75% atkvæða þarf innan ráðsins til svo verði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert