Sagður hafa lagt á ráðin um að hálshöggva forsætisráðherra Kanada

Mikill mannfjöldi safnaðist fyrir utan dómshúsið í Brampton í dag.
Mikill mannfjöldi safnaðist fyrir utan dómshúsið í Brampton í dag. Reuters

Einn þeirra sautján sem handteknir voru í Kanada um helgina sakaðir um að hyggja á hryðjuverk í landinu hafði lagt á ráðin um að ráðast inn í alríkisþinghúsið í Ottawa og hálshöggva þingmenn, þar á meðal forsætisráðherrann, ef múslímir í fangelsum í Kanada og Afganistan yrðu ekki látnir lausir.

Þetta kemur fram í ákærum sem birtar voru í dag. Yfirvöld segja ennfremur að einhverjir mannanna hafi ætlað að taka fjölmiðla á sitt vald, þ.á m. kanadíska ríkisútvarpið. Handtökurnar og ákærurnar hafa valdið miklu uppnámi meðal kanadískra múslíma, og gæsla á landamærum Kanada og Bandaríkjanna hefur verið hert.

Lögregla segir að búast megi við því að fleiri verði handteknir vegna málsins, og verið er að rannsaka hugsanleg tengsl hópsins sem handtekinn var í Kanada við hryðjuverkahópa múslíma í sex öðrum löndum, þ.á m. Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu.

Steven Vikash Chand, 25 ára starfsmaður á veitingahúsi í Toronto, er sakaður um að hafa ætlað að ráðast á þingmenn. Hann og 14 aðrir komu stuttlega fyrir rétt í Bramton, vestur af Toronto, í dag, en frekari málsmeðferð hefur verið frestað fram yfir helgi.

Verjandi Chands sagði skjólstæðing sinn ekkert hafa að segja um ákæruna. Hún væri lögð fram til þess að vekja ótta meðal almennings. Verjendur og ættingjar hinna ákærðu sögðust í dag litlar upplýsingar hafa fengið, og að réttindi fanganna væru ekki virt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert