Kofi Annan segir ríkisstjórnir heims ekki gera nóg fyrir umhverfið

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Reuters

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, gagnrýndi í dag þjóðir heims fyrir að standa sig illa í því að koma umhverfisverndarreglum í framkvæmd. Þá sagði hann jafnframt að efnahagslegar framfarir ógni grundvallarmannréttindum fólks.

Þetta kom fram á alþjóðlegri ráðstefnu um hnattvæðingu sem fram fer í Svíþjóð. Annan er hinsvegar staddur í New York en talaði við ráðstefnugesti með aðstoð myndbandstækninnar.

Hann hvatti borgaraleg mannréttindasamtök til þess að þrýsta á ríkisstjórnir þannig að þær leggi harðar að sér að taka á ýmsum vandamálum s.s. veðurfarsbreytingum og fátækt.

„Leiðtogar eru enn allt of varfærnir í efnahagslegu tilliti og ekki nógu hugrakkir. Við þurfum á þrýstingi að halda; sérstaklega frá borgaralegum samtökum. Við getum ekki látið ríkisstjórnir um að taka á þessum vandamálum einar og sér,“ sagði Annan.

Um 400 leiðtogar á sviði stjórnmála, viðskipta og félagsmála eru staddir á ráðstefnu í sænska bænum Tællberg. Þar munu þeir funda saman í fjóra daga um neikvæð áhrif hnattvæðingar á umhverfið og mannréttindi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert