Ferðamenn í hvalaskoðunarferð vitni að hvalveiðum

Reuters

Áttatíu ferðamenn í Andenes í Norður Noregi, sem voru í hvalaskoðunarferð, urðu vitni að því þegar hvalveiðibátur skaut tvisvar að hval. Ferðamennirnir sem flestir voru útlendingar sáu svo þegar bátur þeirra var á leið til lands, hvar annar hvalveiðibátur dró dauðan hval um borð, þetta kemur fram í norska blaðinu Aftenposten.

Sjónin fékk að sögn nokkuð á ferðamennina, sagðist einn þeirra þarna hafa séð tvær hliðar á lífinu, hvalinn lifandi annars vegar, en uppi á dekki hins vegar þar sem blóðið rann. Þá sögðust sjónarvottar skilja að þetta væri hluti af norskri menningu en að sér þætti erfitt að sætta sig við drápin.

Geir Maan. skipstjóri á hvalaskoðunarbátnum segir atvikið hafa verið óheppilegt, yfirvöld eyði miklum tíma í að sannfæra almenning um réttmæti hvalveiða en að atvik sem þetta geti orðið sem að skvetta olíu á deyjandi eld.

Jan Kristiansen, talsmaður norskra smáhvalaveiðimanna, segir að hvalveiðimenn hafi ekkert á móti því að ferðamenn fari í hvalaskoðunarferðir. Hann segir þó mikilvægt að fram komi að flestir þeirra sem fari í slíkar ferðir séu hvalfriðunarsinnar. Ekki sé hægt að banna þeim að vera á móti hvalveiðum, en hvalavinir geti að sama skapi ekki neitað hvalveiðimönnum um að stunda löglega atvinnustarfsemi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert