Forseti Írans býður Bush til sjónvarpskappræðna

Mahmoud Ahmadinejad heilsar blaðamönnum á fundi í Teheran í dag.
Mahmoud Ahmadinejad heilsar blaðamönnum á fundi í Teheran í dag. Reuters

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, bauð í dag George W. Bush, Bandaríkjaforseta, til sjónvarpskappræðna þar sem þeir myndu skeggræða um heimsmálin og þann ágreining sem er á milli ríkja þeirra. Íransforseti gagnrýndi einnig neitunarvald tiltekinna ríkja í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og sagði það afleiðingu síðari heimsstyrjaldarinnar en ætti ekki lengur við.

„Ég legg til að við ræðum við Bush, forseta Bandaríkjanna, í beinni sjónvarpsútsendingu um heimsmálin og leið út úr þessari blindgötu. Við myndum lýsa skoðunum okkar og þeir einnig," sagði Ahmadinejad á blaðamannafundi í morgun.

Hann sagði að kappræðurnar ættu að vera óritskoðaðar í þágu bandarísks almennings.

Ahmadinejad fór mikinn á fundinum og sagði m.a. að hann vildi láta fjarlægja rætur spennunnar í Miðausturlöndum. Þá dró Íransforseti í efa vald öryggisráðs SÞ en eftir tvo daga rennur út frestur, sem öryggisráðið gaf Írönum til að hætta að auðga úran.

„Bandaríkjamenn og Bretar eiga oft upptökin að deilum," sagði Ahmadinejad. „Í öryggisráðinu, þar sem þeir eiga að gæta öryggismála, njóta þeir einnig neitunarvalds. Enginn getur skorið úr ef einhver býður þeim byrginn... Þetta neitunarvald er orsök allra deilna í heiminum... Það er móðgun við virðingu, sjálfstæði, frelsi og fullveldi ríkja," sagði hann.

Þá sagði forseti Írans, að stofnun Ísraelsríkis væri „þjóðsaga" og Ísrael ógnaði friði og öryggi í Miðausturlöndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert