Íransforseti vill að frjálslyndir háskólakennarar verði reknir

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti.
Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti. AP

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti krafðist þess í dag að allir frjálslyndir og veraldlega þenkjandi kennarar við háskólana í landinu verði reknir, að því er opinber fréttastofa Írans greinir frá. Hann sagði í ávarpi til nemenda að slíkar breytingar yrðu erfiðar, en fyrstu skrefin hefðu verið tekin.

„Stúdentar ættu nú að kalla á forseta landsins og spyrja hvers vegna frjálslyndir og veraldlega sinnaðir kennarar kenni við háskólana,“ sagði Ahmadinejad. Menntakerfi landsins hefði færst nær veraldlegum gildum á undanförnum 150 árum og erfitt yrði að breyta því.

Fyrr á árinu voru tugir frjálslyndra háskólakennarar í Íran sendir á eftirlaun, og í nóvember í fyrra skipaði ríkisstjórnin í fyrsta sinn klerk í embætti rektors eldsta háskólans í Teheran. Stúdentar mótmæltu skipuninni harðlega.

Markmið Ahmadinejads virðist vera að koma til valda nýrri kynslóð sem endurvekja muni bókstafstrúarmarkmiðin sem lögð voru íslömsku byltingunni á níunda áratugnum til grundvallar, undir forustu ajatollans Ruhollah Khomeini. Skömmu eftir byltinguna voru hundruð frjálslyndra og vinstrisinnaðra háskólakennara og námsmanna reknir úr skólum í Íran.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert