Merkel gagnrýnir Deutsche Oper fyrir að hætta við uppfærslu á Idomeneo

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, gagnrýndi í dag Deutsche Oper fyrir að hætta við uppfærslu á Mozartóperu þar sem m.a. eru sýnd afskorin höfuð Múhameðs spámanns og Jesús. Uppfærslunni var aflýst í gær eftir að lögregla varaði við því að atriði í uppfærslunni gætu haft „óútreiknanlega áhættu“ í för með sér.

„Við verðum að gæta þess vel að gefa ekki eftir af ótta við öfgamenn sem eru reiðubúnir að grípa til ofbeldis,“ segir Merkel í viðtali við dagblaðið Neue Presse. „Sjálfsritskoðun vegna ótta er óviðunandi.“

Í uppfærslu leikstjórans Hans Neuenfels á Idomeneo eftir Mozart er m.a. atriði með afskornum höfðum Póseidons, Jesús, Búdda og Múhameðs. Þegar uppfærslan var frumsýnd í desember 2003 brugðust áhorfendur ókvæða við. Samkvæmt íslam er það guðlast að búa til myndir af spámanninum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert