Saka BBC um „fordómafulla atlögu“ að Benedikt páfa

Benedikt páfi í Þýskalandi.
Benedikt páfi í Þýskalandi. Retuers

Talsmenn kaþólsku kirkjunnar í Bretlandi saka ríkissjónvarpið þar í landi, BBC, um atlögu að Benedikt páfa eftir að fullyrt var í heimildamynd sem sjónvarpið sýndi að Vatíkanið hafi mælt fyrir um að fjallað skyldi á laun um ásakanir um kynferðislega misþyrmingu kaþólskra presta á börnum. Maðurinn á bak við þessi fyrirmæli hafi verið Joseph Ratzinger kardínáli, sem varð síðar Benedikt páfi.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC.

Vincent Nichols, erkibiskup í Birmingham, segir fullyrðingarnar sem fram komi í heimildamyndinni ákaflega villandi. Fyrirmælin sem um ræðir er að finna í skjali sem heitir „Crimen Sollicitationis“ og var ritað 1962, og mun innihalda fyrirmæli til biskupa um hvernig bregðast skuli við ásökunum um kynferðislegar misþyrmingar á börnum.

Í heimildamyndinni er Tom Doyle, prestur og fyrrverandi lögmaður kirkjunnar, fenginn til að túlka skjalið. Doyle var rekinn úr Vatíkaninu fyrir að gagnrýna viðbrögð þess við kynferðislegri misþyrmingu á börnum. Hann segir að skjalið marki beinlínis þá stefnu að hylmt skuli yfir ásakanir um slíkt, áhersla sé lögð á forræði Vatíkansins í slíkum málum og ekki minnst einu orði á fórnarlömbin.

Talsmenn kirkjunnar segja aftur á móti að skjalið fjalli ekki beinlínis um kynferðislegar misþyrmingar á börnum heldur misnotkun á skriftum. Nichols sagði um heimildamyndina að þar séu tvö skjöl Vatíkansins mistúlkuð beinlínis í því skyni að tengja kynferðislegar misþyrmingar á börnum við persónu páfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert