Bush: Réttur tími til að skipta um forustu í Pentagon

Donald Rumsfeld hættir sem varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Donald Rumsfeld hættir sem varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Reuters

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sagði á blaðamannafundi í kvöld að þeir Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra, hefðu komist að þeirri niðurstöðu að nú væri réttur tími til að skipta um forustu í Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjannna. Sagðist Bush hafa beðið Robert Gates, fyrrum forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, að taka við embættinu af Rumsfeld, sem er 74 ára, hefur verið varnarmálaráðherra í sex ár og skipulagði m.a. hernaðaraðgerðirnar í Írak.

Almennt er litið á úrslit þingkosninganna í Bandaríkjunum í gær, þar sem demókratar unnu stórsigur, sem áfellisdóm yfir stefnu bandaríska stjórnvalda í Írak, þar sem um 2800 bandarískir hermenn og þúsundir Íraka hafa látið lífið á undanförnum árum. Bush sagði aðspurður á blaðamannafundinum í kvöld, að hann bæri fullt traust til Dicks Cheneys, varaforseta, sem einnig tók virkan þátt í undirbúningi Íraksstríðsins.

„Ég geri mér grein fyrir því, að margir Bandaríkjamenn vildu með atkvæði sínu í gær lýsa yfir óánægju sinni með að árangurinn í Írak hefur ekki verið eins og skyldi," sagði Bush. „En ég tel einnig, að flestir Bandaríkjamenn, og leiðtogar beggja stjórnmálaflokkanna, skilja að við getum ekki sætt okkur við ósigur þar."

Þegar Bush var spurður hvort stefnubreyting væri væntanleg varðandi Írak svaraði hann: „Það verður að sjálfsögðu ný forusta í Pentagon."

Bush upplýsi, að hann hefði rætt við Gates sl. sunnudag, tveimur dögum fyrir þingkosningarnar. Gates, sem er 63 ára, er stjórnarformaður A&M háskólans í Texas og náinn vinur Bush fjölskyldunnar. Hann var forstjóri CIA á árunum 1991 til 1993 þegar George Bush eldri var forseti Bandaríkjanna. Hann gekk til liðs við CIA árið 1966 og starfaði þar í rúman aldarfjórðung.

Bandaríska öldungadeildin verður að staðfesta tilnefningu Gates í embætti varnarmálaráðherra.

Robert Gates. Myndin er frá árinu 1992.
Robert Gates. Myndin er frá árinu 1992. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert