Einn slasaðist alvarlega og 150 hús skemmdust í hvirfilbyl í London

Einn hlaut alvarlega höfuðáverka og fimm hlutu minniháttar meiðsl er hvirfilbylur gekk yfir nokkrar götur í Kensal Rise í norðvesturhluta London í morgun. Skemmdir urðu á allt að 150 húsum og fjölda bíla. Fjölmargir munu eyða nóttinni í neyðarskýlum.

Veðurfræðingur BBC segir hvirfilbyli ekki svo óalgenga á Bretlandi, en mjög fátítt sé að þeir valdi öðrum eins skemmdum og þessi.

Talið er að um 50 hvirfilbylir verði á Bretlandi að meðaltali á ári, sem er meira en í flestum öðrum Evrópulöndum.

Bylurinn skall á í morgun um ellefuleytið að íslenskum tíma, og að sögn veðurfræðinga stóð hann í tæpa mínútu.

Í fyrra olli hvirfilbylur miklu tjóni í Birmingham, en síðast olli slíkur bylur tjóni í London í desember 1954.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert