Thatcher hrygg yfir andláti Pinochets

Margaret Thatcher.
Margaret Thatcher. AP

Margaret Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, er „afar hrygg“ yfir fráfalli Augusto Pinochet, fyrrverandi einræðisherra Chile. Stjórn Pinochet studdi Bretlandsstjórn í Falklandseyjastríðinu. Thatcher hvatti til þess að Pinochet yrði látinn laus árið 1998, þegar hann var handtekinn í Lundúnum fyrir mannréttindabrot í stjórnartíð sinni. 3.000 andstæðingar herforingjastjórnar Pinochet hurfu í valdatíð hans.

Utanríkisráðherra Bretlands, Margaret Beckett, hrósaði í dag Chilebúum fyrir miklar framfarir þar í landi frá því Pinochet vék úr embætti árið 1990. Talsmaður Thatcher mun senda fjölskyldu Pinochet samúðarkveðjur. Chile studdi Bretland í Falklandseyjastríðinu gegn Argentínu árið 1982.

Thatcher mótmælti á sínum tíma tilraunum til að sækja Pinochet til saka fyrir að hafa látið myrða andstæðinga sína. Pinochet var úrskurðaður of heilsuveill til að sækja réttarhöld eftir að hann var handtekinn í Bretlandi, en friðhelgi fyrir lögsóknum var svipt af honum skömmu áður en hann lést. BBC segir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert