Gerald Ford fyrrverandi Bandaríkjaforseti látinn

Ford í Hvíta húsinu 13. maí 1975.
Ford í Hvíta húsinu 13. maí 1975. Reuters

Gerald R. Ford fyrrverandi Bandaríkjaforseti er látinn, að því er Betty kona hans greindi frá í gærkvöldi. Ford var eini forseti Bandaríkjanna sem ekki var kjörinn í embætti, en hann tók við því eftir afsögn Richards Nixons í kjölfar Watergate-hneykslisins. Ford hafði verið heilsuveill undanfarið ár og m.a. farið í tvær hjartaaðgerðir.

Ford var 93 ára, og varð elstur þeirra er gegnt hafa forsetaembætti í Bandaríkjunum. Hann var búsettur á Rancho Mirage-búgarðinum í Kaliforníu.

Ford sór embættiseið nokkrum mínútum eftir að Nixon sagði af sér 1974, og ein fyrstu orð Fords í embætti urðu fleyg: „Martröð þjóðarinnar er lokið.“ En Ford olli nokkru uppnámi mánuði síðar þegar hann veitti Nixon uppgjöf allra saka, og talið er að það hafi komið í veg fyrir að Ford næði kjöri er hann bauð sig fram til forseta 1976. Þá tapaði hann fyrir Jimmy Carter.

Fréttaskýrendur segja að þótt Ford hafi aðeins setið í Hvíta húsinu í 895 daga hafi hann haft meiri áhrif á forsetaembættið en það á hann. Hann hafi verið opinskár og blátt áfram, jafnvel þótt tvisvar hafi verið reynt að ráða hann af dögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert