Sea Shepard fylgist með japönskum hvalaföngurum

Hætta er talin á því að upp úr sjóði milli japanskra hvalveiðimanna og umhverfisverndarsamtakanna Sea Shepard í Suðurhöfum. Paul Watson, leiðtogi Sea Shepard, sagði í samtali við AFP fréttastofuna að samtökin myndu gera allt til þess að koma í veg fyrir hvalveiðar Japana. Watson er um borð í skipi samtakanna, Farley Mowat, sem er á leið á hvalveiðimið í Suðurhöfum.

Segir Watson að hann hiki ekki við að sigla á skip hvalveiðimanna svo hægt verði að þvinga þá til að hætta veiðum. Minnti Watson á að slíkt hafi verið gert á síðasta ári er Farley Mowat þvingaði hvalveiðiskipið Oriental Bluebird af veiðisvæðinu.

Sea Shepard samtökin eru að taka nýtt skip í notkun þar sem 70 af fjórtán þjóðernum verða í áhöfn.

Í frétt ástralska dagblaðsins Herald Sun kemur fram að skip Sea Shepard, Farley Mowat, sé nú talið sjóræningjaskip eftir að það var svipt skráningarleyfi í Belize, áður Breska Hondúras. Í fréttinni gagnrýnir umhverfisráðherra Ástralíu, Ian Campell, aðferðir Sea Shepard við að koma í veg fyrir hvalveiðar Japana og segir Campell að Watson stofni lífi fólks í hættu sem og um leið skaða baráttu umhverfissamtaka fyrir því að hvalveiðum verði hætt.

Campell segir í Herald Sun að aðferðir Grænfriðunga séu sér meira að skapi en að sögn Campells eru þær mun friðsamlegri.

Sea Shepherd hefur sætt gagnrýni, m.a. frá öðrum umhverfissamtökum, fyrir að beita aðferðum, svo sem ásiglingum, sem setja mannlíf í hættu. Útsendari Sea Shepherd sökkti m.a. íslenskum hvalveiðibátum í Reykjavíkurhöfn fyrir tveimur áratugum.

Paul Watson leiddur út úr Síðumúlafangelsi í janúar 1988.
Paul Watson leiddur út úr Síðumúlafangelsi í janúar 1988. Morgunblaðið/ Sverrir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert