Stálbitar fuku af nýju lestarstöðinni í Berlín

Taug komið á annan stálbitann sem fauk í gær.
Taug komið á annan stálbitann sem fauk í gær. Reuters

Yfirmaður þýsku járnbrautanna lofaði í dag að hafin yrði rannsókn á því hvernig tveir tveggja tonna stálbitar gátu losnað af nýju aðaljárnbrautastöðinni í Berlín í ofsaveðrinu sem gekk yfir borgina í gær.

Stálbitarnir hröpuðu um 40 metra og annar þeirra skall í tröppur nærri framhlið stöðvarinnar en hinn festist utan á byggingunni. Töluvert margar glerrúður mölvuðust en enginn slasaðist.

Lestarstöðin sem er að mestu leyti úr stáli og gleri er á svæði þar sem austur og vestur hlutar borgarinnar mættust áður en múrinn féll. Stöðin á að geta annað um 300 þúsund farþegum hverju sinni og var opnuð í maí í fyrra í tæka tíð fyrir HM í fótbolta.

Stálbitarnir voru ekki burðarbitar heldur voru hluti af úthlið stöðvarinnar svo slysið hafði ekki áhrif á burðarþol hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert