Clinton segir Bush hafa misnotað vald sitt

Hillary Clinton á fundi í Iowa í dag.
Hillary Clinton á fundi í Iowa í dag. AP

Hillary Clinton, öldungadeildarþingmaður, sagði á fundi í dag að George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hefði misnotað atkvæði hennar og annarra demókrata, sem árið 2002 greiddu atkvæði með frumvarpi sem heimilaði Bandaríkjastjórn að beita hervaldi í Írak. Sagði Clinton, að hefði Bandaríkjaþing vitað þá það sem nú er ljóst hefði aldrei komið til hernaðaraðgerðanna.

Hillaru Clinton hefur um helgina haldið fundi sem litið er á sem upphaf baráttu hennar til að hljóta útnefningu Demókrataflokksins sem forsetaefni í næstu forsetakosningum í Bandaríkjunum. Á fundi Iowa í dag var Clinton beðin um að útskýra hvers vegna hún hefði á sínum tíma greitt atkvæði með heimild til forsetans til að beita hervaldi í Írak.

Clinton gagnrýndi stefnu Bush harðlega en tók ekki svo djúpt í árinni, að kalla Íraksstríðið mistök. Sagðist hún hafa axlað ábyrgð á atkvæði sínu árið 2002.

„Ég sagði að þetta hefði ekki verið atkvæðagreiðsla um fyrirbyggjandi stríð. Forsetinn tók atkvæði mitt og atkvæði annarra og misnotaði í grundvallaratriðum það vald sem við veittum honum," sagði Clinton.

Hún sagðist áforma að leggja fram frumvarp, sem gerði ráð fyrir þaki á fjölda bandarískra hermanna í Írak og að fjárveitingar til íraska hersins yrðu stöðvaðar. Hún sagðist hins vegar ekki geta stutt að fjárveitingar til bandaríska hersins í Írak yrðu afnumdar.

Clinton tilkynnti í síðustu viku að hún stefndi á sigur í forkosningum. Hún nýtur mests stuðnings þeirra stjórnmálamanna, sem hafa boðað framboð innan Demókrataflokksins. Hún er eina konan í hópnum. Helsti keppinautur hennar verður væntanlega Barack Obama, öldungadeildarþingmaður, sem stefnir að því að verða fyrsti blökkumaðurinn sem gegnir forsetaembætti í Bandaríkjunum. Einnig nýtur Bill Richardson, ríkisstjóri í Nýju-Mexíkó og fyrrum orkumálaráðherra Bandaríkjanna, stuðnings en hann stefnir að því að verða fyrsti forsetinn af spænskum ættum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert