Fjórtán ára fangelsi vegna dauða nunnu við særingarathöfn

Rúmenskur prestur hefur verið dæmdur til fjórtán ára fangelsisvistar fyrir að hafa orðið valdur að dauða nunnu við særingaathöfn í þorpinu Tanacu í norðausturhluta landsins. Þá voru fjórar nunnur einnig dæmdar til fangelsisvistar vegna málsins.

Hin 23 ára Irina Maricica Cornici lést í júní árið 2005 í klaustri hinnar heilögu þrenningar í þorpinu. Cornici var bundin og hlekkjuð við kross svo dögum skipti og fékk hvorki vott né þurrt meðan munkurinn Daniel Petru Corogeanu sem þjónaði sem prestur við klaustrið reyndi að særa úr henni illa anda ásamt fjórum nunnum.

Dómstóll í borginni Vaslui dæmdi Corogeanu og nunnurnar fjórar um að hafa valdið dauða Cornici með því að hafa haldið hennin fanginni. Ein nunnanna var dæmd til átta ára fangelsisvistar en hinar þrjár til fimm ára hver. Hafa lögfræðingar sakborninganna í hyggju að áfrýja dómnum.

Kaþólska kirkjan í Rúmeníu hefur fordæmd athöfnina og segir hana vekja viðbjóð. Páfagarður gaf út árið 1999 endurskoðaðar reglur um særingar í fyrsta skipti frá árinu 1614 og eru prestar í þeim hvattir til að taka tillit til sálfræði nútímans þegar ákveðið er hvenær skuli beita særingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert