„Draugaráðherra" í ríkisstjórn Kongó

Antoine Gizenga, forsætisráðherra Lýðveldisins Kongó.
Antoine Gizenga, forsætisráðherra Lýðveldisins Kongó. Reuters

Flokksleiðtoga í Lýðveldinu Kongó, sem tilnefndi að því er virðist tilbúinn mann í ráðherraembætti, hefur nú verið vikið úr leiðtogasætinu. Ráðherrann, sem ekki er til, situr samt sem fastast í embætti því forsætisráðherra landsins segir að hann verði að segja af sér sjálfur.

Mál hins svonefnda „draugaráðherra" hefur valdið miklum vangaveltum í Kongó undanfarna daga. Málið kom upp, þegar Antoine Gizenga, forsætisráðherra landsins, byrjaði að skipa í ráðherraembætti í nýrri ríkisstjórn. Kisimba Ngoy, leiðtogi stjórnmálaflokksins Unafec, sem tengist forseta landsins, lagði til að Andre Kasongo Ilunga nokkur, 34 ára gamall, yrði skipaður í embætti utanríkisviðskiptaráðherra. Svo virðist sem Ngoy hafi talið að með því að tilnefna óþekktan mann í ráðherraembætti, yrðu meiri líkur á að hann sjálfur hreppti slíkt embætti.

Þetta ráðabrugg misheppnaðist þegar forsætisráðherrann féllst á tillöguna og skipaði Ilunga í ráðherraembættið. Ilunga mætti hins vegar ekki til starfa og þegar embættismenn leituðu upplýsinga hjá flokknum var þeim sagt, að Ilunga hefði sagt af sér. Ástæður afsagnarinnar væru leynilegar en kæmu fram í bréfi til forsætisráðherrans.

Blaðamenn í höfuðborginni Kinshasa létu sér þessar skýringar ekki nægja og í umfjöllun blaða fékk Ilunga nafnið draugaráðherrann. Gizenga forsætisráðherra hefur fyrirskipað rannsókn á málinu og segir, að Ilunga verði áfram í embættinu þar til hann gefur sig fram og segir sjálfur af sér embættinu. Þetta hefur orðið til þess, að nokkrir menn hafa mætt í ráðuneytið, sagst heita Ilunga, og tilkynnt að þeir séu komnir til að gegna ráðherraembættinu.

Það nýjasta í málinu er það, að flokksþing Unafec setti um helgina Kisimba Ngoy af sem leiðtoga. Í yfirlýsingu flokksþingsins, sem AFP fréttastofan vísar til, er Ngoy sakaður um óviðunandi og óábyrga hegðun með því að tilnefna tilbúna og óþekkta persónu í embætti ráðherra. Muni fulltrúar flokksins ganga á fund forsætisráðherrans og óska eftir því að flokkurinn fái aftur ráðherraembættið, sem hann eigi tilkall til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka