Byrjað að rífa Ungdomshuset

Lögreglumenn á verði utan við Ungdomshuset.
Lögreglumenn á verði utan við Ungdomshuset. AP

Byrjað var í morgun að rífa Ungdomshuset svonefnda á Norðurbrú í Kaupmannahöfn. Lögreglumenn standa á vakt við húsið og lokar nálægum götum með brynvörðum bílum. Lögregla rýmdi húsið á fimmtudag en ungmenni höfðu komið sér þar fyrir og neituðu að yfirgefa það. Í kjölfarið urðu miklar óeirðir í Kaupmannahöfn.

Að sögn danskra fjölmiðla var byrjað að rífa húsið á laginu klukkan 7 að íslenskum tíma með stórum krana og fleiri stórvirkar vinnuvélar eru á leið á svæðið.

Starfsmenn fyrirtækisins, sem sér um niðurrifið, er klætt lambhúshettum, væntanlega af ótta við hefndaraðgerðir af hálfu mótmælenda, og málað hefur verið yfir nafn fyrirtækisins á vinnuvélunum.

Fulltrúar kristna safnaðarins Faderhuset, sem á Ungdomshuset, hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 9 að íslenskum tíma. Í fundarboðinu í gær sagði, að þá yrði tilkynnt hvort húsið yrði rifið. Ljóst er að hluti hússins verður þegar horfinn þegar fundurinn hefst. Gert er ráð fyrir að það taki tvo daga að jafna húsið við jörðu.

Á fréttavef Ekstra-Bladet segir að lítill hópur fólks, sem notaði Ungdomshuset, fylgist með niðurrifinu. Sumir hafi í hótunum við lögreglu en aðrir gráti.

Ungdomshuset var byggt árið 1897. Húsið var upphaflega reist sem leikhús og ráðstefnumiðstöð verkalýðshreyfingarinnar en síðustu áratugina var þar einskonar menningarmiðstöð til húsa þar sem stjórnleysingar, pönkarar og róttækir vinstrimenn voru áberandi.

Vladimír Lenin kom m.a. í húsið á sínum tíma og þar hafa listamenn á borð við Björk Guðmundsdóttur og Nick Cave haldið tónleika.

Faderhuset keypti húsið fyrir sex árum og á síðasta ári kynnti söfnuðurinn áform um að láta rífa húsið og reisa nýtt á lóðinni. Dómstólar fyrirskipuðu að fólk, sem hafðist við í húsinu skyldi yfirgefa það. Fólkið neitaði því og sagði að borgaryfirvöld hefðu ekkert átt með að selja húsið. Borgarstjórn Kaupmannahafnar bauð ungmennunum þá annað hús en samningar náðust ekki og því lét lögreglan til skarar skríða á fimmtudagsmorguninn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert