Dæmd til hýðingar fyrir að hitta sér óskyldan mann

Nítján ára gömul kona í Sádi-Arabíu, sem var rænt og nauðgað og síðan misþyrmt af bróður sínum, hefur verið dæmd til að þola 90 svipuhögg fyrir að eiga fund með karlmanni sem ekki var skyldur henni. Konan segir frá þessu í viðtali við blaðið Saudi Gazette í dag.

Konan, sem nefnd er G í viðtalinu, segir að hún hafi verið þvinguð á síðasta ári til að hitta karlmann, sem hótaði að segja fjölskyldu hennar að þau ættu í ástarsambandi þótt þau væru ekki gift. Slíkt er ólöglegt í Sádi-Arabíu.

Skömmu eftir að stúlkan og maðurinn óku á brott frá verslunarmiðstöð skammt frá heimili konunnar neyddi hópur manna þau til að stöðva bílinn. Mennirnir fluttu parið síðan á sveitabæ þar sem konunni var nauðgað 14 sinnum.

Fimm karlmenn voru handteknir vegna málsins og dæmdir í 10 mánaða til 5 ára fangelsi hver. Dómararnir ákváðu einnig að dæma konuna til að þola 90 svipuhögg fyrir að vera ein í bíl með karlmanni. Samkvæmt íslömskum sharíalögum mega konur og karlmann ekki umgangast opinberlega ef þau eru ekki í sömu fjölskyldu.

Konan hefur áfrýjað dómnum. Hún sagði við blaðið, að hún hefði reynt að fremja sjálfsmorð vegna þessarar reynslu og yngri bróðir hennar hefði barið hana fyrir að kalla skömm yfir fjölskylduna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert