Írakar kalla eftir aðstoð við að kveða niður ofbeldið í landinu

Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks.
Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks. Reuters

Forsætisráðherra Íraks hefur kallað eftir því að nágrannaríki Íraks taki höndum saman við að stöðva uppreisnina í landinu sem hafa kostað tugi þúsunda lífið frá árinu 2003.

Nouri al-Maliki nefndi ekkert eitt ríki á nafn er hann flutti ávarp á alþjóðlegu friðarráðstefnunni í Bagdad. Bandaríkin hafa hinsvegar bæði sakað Sýrlendinga og Írana um að kynda undir átökin og ofbeldisverkin í Írak.

Þetta er í fyrsta sinn í mörg á sem fulltrúar frá ríkjunum þremur koma saman til fundar.

Skömmu eftir að ráðstefnan hófst sprakk bílsprengja í Sadr-borg í Bagdad með þeim afleiðingum að 18 létu lífið. Um 40 særðust í sprengingunni.

Á sama tíma sprungu tvær sprengjur nærri utanríkisráðuneytinu þar sem ráðstefnan var haldin, engan sakaði þó að sögn sjónarvotta.

Ráðstefnunni er ætlað að koma á stöðugleika í Írak og stendur hún aðeins yfir í dag. Fulltrúar frá þeim ríkjum sem eiga fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sitja ráðstefnuna, auk fulltrúa frá Arababandalaginu, Samvinnuráði Persaflóaríkja auk annarra ríkja sem eiga landamæri við Írak.

Fréttaskýrendur segja að litið sé á ráðstefnuna sem tilraun til þess að brjóta ísinn, og að hún sé upphafið á ferli. Þá er vonast til þess að næsta skrefið verði að halda fund utanríkisráðherra í apríl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert