Arabaleiðtogar hvetja Bandaríkjamenn til að viðurkenna stjórn Palestínu

Mahmoud Abbas og Ismail Haniyeh takast í hendur á þingfundi …
Mahmoud Abbas og Ismail Haniyeh takast í hendur á þingfundi á Gaza í gær AP

Arabaleiðtogar lýstu yfir stuðningi við nýja ríkisstjórn Palestínumanna í dag og segjast vona að hún muni leiða til þess að banni við fjárhagsaðstoð við Palestínumenn verði aflétta og að sjálfstætt Palestínuríki verði myndað. Bandamenn Bandaríkjamanna úr röðum Arabaríkja hafa hvatt stjórnvöld í Washington til að styðja stjórnina.

Abdullah II, Jórdaníukonungur segir að stjórnin nýja verði vonandi skref í átt að ,,stofnun palestínsks ríkis á palestínskri grundu”. Abdullah konungur í Sádí-Arabíu hefur einnig lýst yfir stuðningi við stjórnina nýju og hvatti stjórnina til að sækjast eftir lausn sem byggði á friðaráætluninni sem samþykkt var af Arababandalaginu árið 2002.

Í þeirri áætlun er hvatt til friðar sem byggi á því að Palestínumenn fái öll lönd sem voru þeirra fyrir sex daga stríðið árið 1967.

Fleiri hafa lýst yfir stuðningi við Palestínustjórn, m.a. Hosni Mubarak, forseti Egyptalands og Mohammed Mahdi Akef, leiðtogi Bræðralags Múslima, sem er alþjóðleg hreyfing súníta.

Fundað verður hjá Arababandalaginu þann 28. mars nk. og þar sem ráðamenn í Miðausturlöndum vonast til að vinna að því að koma á friðarviðræðum Palestínumanna við Ísraela að nýju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert