Aðgerðir gegn hækkandi hitastigi á jörðinni gætu spornað við hamförum

Gufur stíga til himins frá orkuveri í Þýskalandi.
Gufur stíga til himins frá orkuveri í Þýskalandi. Reuters

Verði dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda þá getur það orðið til þess að draga megi úr verstu áhrifum hlýnun lofthjúpsins, s.s. að milljarðar manna verði án vatns eða að um helmingur dýrategunda sem búa í trjám í Amazon regnskóginum deyi út. Þetta kemur fram í uppkasti að nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna.

Í skýrslunni, sem verður birt með formlegum hætti þann 6. apríl, kemur fram að haldi hitastig á jörðinni áfram að hækka gætu afleiðingarnar orðið mjög alvarlegar. T.d. gæti yfirborð sjávar hækkað það mikið að láglendar eyjar í Kyrrahafinu sökkvi í sæ og þá gæti ökrum hnignað enn frekar sem þýðir hungursneyð hjá milljónum manna. Reuters-fréttastofan greinir frá þessu.

„Því lengur sem við höldum áfram án aðgerða (að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda) því meiri líkur eru á því að það verði af sumum af stóru afturverkununum,“ segir Richard Betts, sem stýrir rannsóknarteymi hjá bresku veðurfræðistofnuninni sem rannsakar áhrif loftlagsbreytinga.

„Við getum haft mikil áhrif með því að velja annaðhvort framtíðarsýn sem lýtur að lítilli losun (gróðurhúsalofttegunda) eða mikilli losun,“ segir Gunnar Myhre, hjá alþjóða veður- og umhverfismiðstöðinni í Ósló.

Bæði Myher og Betts eru á meðal aðalhöfunda skýrslu SÞ um veðurfarsbreytingar sem var birt í febrúar sl. Hún byggir á rannsóknum 2.500 vísindamanna. Þar kom m.a. fram að árið 2100 muni hitastig á jörðinni hafa hækkað á bilinu 1,1 til 6,4 gráður á celsíus miðað við það sem var árið 1990.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert