Vont að týna veskinu í Bretlandi

Það er eins gott að týna ekki veskinu í London
Það er eins gott að týna ekki veskinu í London mbl.is/Ómar Óskarsson

Það gildir einu hvort það eru lyklar, farsímar eða veski, ef verðmæti týnast í breskum borgum eru litlar líkur á að þau skili sér aftur til réttmætra eigenda. Mikill munur er þó á heiðarleika breskra borgarbúa eftir því hvar þeir eru búsettir, íbúar borgarinnar Birmingham eru samkvæmt rannsókninni þeir óheiðarlegustu.

Í rannsókn sem gerð var til að kanna heiðarleika íbúa Bretlandseyja kemur fram að aðeins 38% hluta sem skildir voru eftir af ásettu ráði á fjölförnum verslunargötum skiluðu sér aftur til eigenda sinna, þrátt fyrir að allir munirnir hafi verið rækilega merktir eigendum.

Í Birmingham skiluðu aðeins 16% hlutanna sér til eigenda, og ekki einn einasti farsími. Hlutfallið var 24% í Lundúnum, en heiðarlegasta fólkið virðist búa í Bristol, 64% þeirra verðmæta sem skilin voru eftir á götum þeirrar borgar var skilað til eigenda sinna.

Að sögn sálfræðingsins Sue Keane, sem stjórnaði rannsókninni fyrir breska greiðslukortafyrirtækið Affinion International, sýndi rannsóknin fram á athyglisvert hegðunarmynstur fólks.

Símum var t.d. mun frekar skilað en lyklum eða veskjum, og telur Keane að ástæðan liggi í því að þeir fundvísu hafi skilning á tapinu. Þá sýndu vegfarendur oft ókunnugu fólki fundinn, til að draga einhvern til ábyrgðar með sér og sýna að ekki stæði til að stela hlutnum, þetta þýddi þó alls ekki að viðkomandi skilaði á endanum hlutnum.

Segja rannsakendur að rannsóknin sýni í stuttu máli það að ekki þýði að reiða sig á heiðarleika annarra, vænlegast sé að bera sjálfur ábyrgð á eigin verðmætum og gæta þeirra vel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert