„Draugaskúta“ fannst við strendur Ástralíu

Tólf metra seglskúta með vélar í gangi og mat á borðum en enga áhöfn fannst 80 sjómílur úti fyrir strönd Ástralíu í dag, og hefur ekkert til þriggja manna áhafnar skútunnar spurst síðan hún lagði upp frá Queensland á sunnudaginn áleiðis til vesturstrandarinnar.

„Það sáust engin merki um áhöfnina, en að öllu öðru leyti var allt eðlilegt,“ sagði framkvæmdastjóri björgunarmiðstöðvar Queensland-fylkis.

Seglin voru uppi, en eitt var mikið rifið. Vél skútunnar var í gangi, matur á borðum, kveikt á fartölvu og útvarp og GPS-tæki virkuðu eðlilega. Þrjú björgunarvesti og neyðarbúnaður, þ.á m. neyðarblikkljós, fundust um borð, en engir björgunarbátar.

Mennirnir þrír sem voru á skútunni voru 56, 63 og 69 ára. Að sögn lögreglu var nokkuð þungt í sjóinn þar sem skútan var á sunnudag og mánudag, „þannig að það er ómögulegt að segja hvað hefur gerst“, sagði talsmaður lögreglunnar.

Fjölmiðlar segja „draugaskútuna“ minna á sögufræga „draugaskipið“ Mary Celeste, sem fannst yfirgefið úti fyrir strönd Portúgals árið 1872. Aldrei spurðist neitt til áhafnar hennar eða farþega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert